139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísaði í skoðanaskipti mín við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í dag og hann sagði tvennt í þessu. Ég spurði hann um það vegna þess að hann tiltók það í ræðu sinni að hér hefðu stórframkvæmdir tafist. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan að ég spurði ráðherrann hvaða framkvæmdir þetta væru. Í fyrsta andsvarinu sagði hann að hann hefði vitneskju um að það væru erfiðleikar bæði hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun. Ég fór aftur og spurði: Hvaða tilteknu framkvæmdir vísar hann til og þá nefnir hann Búðarhálsvirkjun sem var komin í gang.

Þetta er nefnilega málið. Það er engin innistæða fyrir þessum hræðsluáróðri og honum hefur verið markvisst beitt allan tímann. Það átti ekki að renna upp hver dagurinn á fætur öðrum í allri þessari umræðu. Við munum það. Það var dagsetningin sem — hvort það var 17. eða 18 júní sem var skilyrðið, 7. desember var nefndur um daginn. Það eru alltaf einhverjar dagsetningar sem áttu að renna upp. Það var úrslitafresturinn, úrslitaatlagan. Ef þetta yrði ekki klárað þá færi allt í hundana. En þetta er bara taktík sem gengur ekki upp. Það hefur verið sýnt fram á að það er engin innistæða fyrir þessu. Tíminn hefur þvert á móti unnið með okkur. Tíminn hefur sannað það í þessu máli að því meira sem við vitum, því betur sem við vinnum, því fleiri gögn sem við fáum að sjá — auðvitað er það þannig að það þýðir ekki að halda gögnum leyndum frá okkur sem eigum að bera ábyrgð á fleiri tugum ef ekki hundruðum milljarða skuldbindingum. Það sér það hver maður (Forseti hringir.) að slík vinnubrögð ganga ekki og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin hafi þó a.m.k. lært það af þessu ferli.