139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:22]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fleira sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í. Það er staðreynd að í nýjum samningum er kveðið á um svokallað vaxtahlé. Ég var að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra áðan í Kastljóssviðtali þar sem hann sagði að Hollendingar og Bretar hefðu verið reiðubúnir að veita okkur vaxtahlé frá 1. janúar til 1. október á síðasta ári. Það undarlega við þessa fullyrðingu er hins vegar að þetta svokallaða vaxtahlé voru tilburðir Hollendinga og Breta, með samþykki ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, að rukka Íslendinga um vexti umfram skyldu. Við áttum að borga vexti umfram skyldu. Við erum að tala um einhverja 35 milljarða, hvorki meira né minna, sem ríkisstjórnin vildi að komandi kynslóðir Íslendinga mundu borga umfram skyldu. Nú er þetta kallað vaxtahlé þegar þetta á í rauninni að vera algerlega út af borðinu.

Svo var annað sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í. Hæstv. utanríkisráðherra flutti hér ágæta ræðu. Hann er eini stjórnarliðinn sem mér finnst að hafi komið fram af auðmýkt í þessu máli af hálfu stjórnarliða og viðurkennt að við sem börðumst hvað hatrammast gegn þessum samningum höfum haft rétt fyrir okkur. Telur þingmaðurinn að þarna örli á fyrstu afsökunarbeiðninni frá ríkisstjórninni til þjóðarinnar og til okkar í stjórnarandstöðunni í Icesave-málinu?