139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína þegar hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir þessu nýjasta Icesave-frumvarpi. Hann lýsti því sem sinni von að það væri góð gjöf að hans mati ef stjórnmálamenn gætu sameinast um málið. Ég efast ekki um að hæstv. fjármálaráðherra hafi talað um gjafir nú þegar styttist til jóla en ég verð að segja í ljósi efnis þessa máls að ég hef miklar efasemdir um að það passi sérstaklega vel að ræða Icesave í samhengi við gjafir í aðdraganda jóla.

Þrátt fyrir að sá samningur eða þau samningsdrög sem nú liggja fyrir séu miklu mun betri en sá samningur sem Svavar Gestsson, erindreki ríkisstjórnarinnar, kom með í fyrra og ríkisstjórnin barðist fyrir og miklu betri en samningurinn sem samninganefnd Indriða H. Þorlákssonar kom með í farteskinu þá er engu að síður ekki neinum blöðum um það að fletta að hér er verið að ræða um hvort ástæða sé til að hengja á herðar íslenskra skattgreiðenda a.m.k. 47 milljarða kr. vegna krafna sem komnar eru á hendur Bretum og Hollendingum. Hér er því um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir íslenskan almenning og gríðarlega fjármuni. Til að setja það í samhengi heggur nærri að 47 milljarðar kr. jafngildi heildarútgjöldum menntamálaráðuneytisins í heilt ár. Við erum að tala um útgjöld sem standa undir öllu menntakerfinu í landinu og vel það.

Það er ljóst að það þarf gríðarlega sterk rök til að réttlæta að það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram verði samþykkt, ekki síst í ljósi þess að þær kröfur sem Bretar og Hollendingar hafa gert á hendur íslenska ríkinu og þar með á hendur íslenskum skattgreiðendum styðjast ekki við neinar lagaheimildir. Hvergi í lögum, ekki á Íslandi eða á hinu Evrópska efnahagssvæði eða í réttarheimildum Evrópusambandsins, er að finna neina lagaskyldu á herðar ríkjum eða skattgreiðendum til að standa undir innstæðum banka sem falla. Þessu hefur þráfaldlega verið haldið fram í öllum umræðum um Icesave-málið frá því að það kom fyrst til kasta Alþingis í fyrra eða árið þar á undan, á árinu 2008. Sú niðurstaða er mjög skýrt samandregin í 5. bindi rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslunni um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði. Í því bindi má finna kerfisbundna og lögfræðilega úttekt á að íslenskum skattgreiðendum og íslenska ríkinu beri engin lagaskylda til að ábyrgjast skuldbindingar einkarekinna banka, í þessu tilviki Landsbankans sem fór á hausinn og varð gjaldþrota eins og kunnugt er.

Nú er kominn til skjalanna nýr samningur eða ný samningsdrög. Ég hjó eftir því þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu að hann vonaðist eftir því að umræðan yrði málefnaleg og hlutlæg. Bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra lögðu sig í framkróka við að koma í veg fyrir að menn ræddu um fyrri samninga sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á þinginu og barist fyrir að íslenskir skattgreiðendur gengjust í ábyrgðir fyrir. Það er auðvitað eðlilegt að hæstv. ráðherrar forðist að ræða gamlar syndir vegna þess að þetta nýja samkomulag færir okkur heim sanninn um að ríkisstjórnin hefur verið ófær um að semja um Icesave-málið. Hefðu ráðherrar í núverandi ríkisstjórn fengið að ráða væri íslenska þjóðin mun fátækari en hún er nú. Hennar vilji stóð til þess á árinu 2009 að hengja á íslenska skattgreiðendur samningsskuldbindingu sem var 432 milljörðum kr. hærri en sá kostnaður sem hlýst af þeim samningsdrögum sem nú eru til umræðu. Það er auðvitað eðlilegt þegar þessi niðurstaða liggur fyrir að þeir sem báru ábyrgð á fyrri samningum vilji helst komast hjá því að taka þá umræðu. Það sýnir sig í þingsalnum í kvöld. Enginn hæstv. ráðherra tekur þátt í umræðunni eða er viðstaddur hana. Einungis einn þingmaður stjórnarliðsins er viðstaddur og nýkominn í salinn. Aðrir hafa ekki séð ástæðu til að vera hér í kvöld og taka þátt í umræðunni.

Eins og ég sagði áðan er verkefni okkar á Alþingi að taka afstöðu til þessa nýja samkomulags sem samninganefnd Íslands kynnti sl. fimmtudag. Þegar samningsdrögin eru borin saman við eldri samninga kemur í ljós að mismunurinn á kostnaði er upp á 432 milljarða kr. Hæstv. ráðherrar segja að sá samanburður sé ekki sanngjarn, aðstæður séu breyttar. Ég tel reyndar að aðstæður séu allar hinar sömu. Þetta er sama málið og var rætt í upphafi árs 2008 og á árinu 2009, sömu aðilar koma að málinu, sömu aðilar gera sömu kröfur og verið er að semja um það sama. Það sem breyttist fyrst og fremst, held ég, var að í stað þess að menn gengju á hnjánum eins og dæmdir sakamenn til samningaviðræðna við Breta og Hollendinga var skipuð fagleg samninganefnd sem gekk til samninga með breitt bak og á jafnréttisgrundvelli, annað en gert hafði verið áður. Það er ástæða fyrir því. Ástæðan er auðvitað sú að fyrri samningum hæstv. ríkisstjórnar, sem hún reyndi að troða ofan í kokið á þjóðinni, var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu með 98% atkvæða þeirra sem þátt tóku. Ríkisstjórnin var nauðbeygð til að bakka með málið og koma með nýjan samning.

Það voru ekki lítil orð höfð uppi um hvað mundi gerast yrðu hinir fyrri samningar ekki samþykktir og ríkisábyrgð vegna þeirra. Núna þegar hinn fjárhagslegi mismunur á eldri samningum og þeim samningsdrögum sem við ræðum nú liggur fyrir þá er nauðsynlegt að rifja upp fullyrðingar manna um hvað mundi gerast hér yrðu þeir samningar ekki samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hæstv. ráðherrar börðust reyndar gegn. Þá var talað um að við Íslendingar mundum ekki geta náð hagstæðari samningum en þá lágu fyrir. Hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra líkti Íslandi við Kúbu norðursins yrði sá samningur ekki samþykktur og hér var það fullyrt að það mundi skella á efnahagslegur frostavetur sem mundi vara um langa tíð. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir húðskammaði okkur sjálfstæðismenn fyrir að eyða dýrmætum tíma þingsins í að berjast gegn þeim Icesave-samningum sem þá lágu fyrir og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hélt því fram að á grundvelli mannasiða ættu menn fallast á að greiða og samþykkja ríkisábyrgð á samningum sem voru 432 milljörðum kr. dýrari en það samkomulag sem nú liggur fyrir og er það þó nógu dýrt. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því svo í atkvæðaskýringum hér að það væri hans bjargfasta trú að ekki væri hægt að ná betri samningum en þá lágu fyrir. Seðlabankinn tók þátt í þessum yfirlýsingum, hélt því m.a. fram að það væri ekki hægt að lækka vexti nema samningarnir yrðu undirritaðir og samþykktir.

Nú er ljóst að allir þessir aðilar höfðu rangt fyrir sér. Það hefur verið staðfest með þeim samningsdrögum sem nú liggja fyrir að einstakir ráðherrar gerðu sig seka um alvarleg embættisafglöp og hræðileg mistök sem öðrum tókst að afstýra, stjórnarandstöðunni á Alþingi, forseta Íslands með því að synja lögum um ríkisábyrgð staðfestingar og þjóðinni með því að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 98% höfnuðu kröfum ríkisstjórnarinnar. Ég hygg að engin ríkisstjórn hafi verið rekin jafnillilega heim með skottið á milli lappanna og sú sem nú er við völd. Það tókst sem betur fer.

Ég hef sagt það og segi það enn þar sem ný samningsdrög sem við þurfum að taka afstöðu til liggja nú fyrir að ekki nægi að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skammist sín. Hæstv. ríkisstjórn á að viðurkenna mistök sín, segja af sér nú þegar og biðja þjóðina afsökunar á framkomu sinni í hennar garð því að það var núverandi ríkisstjórn sem ætlaði sér að keyra allt í kaf með samþykkt fyrri samninga.

Ég vil hins vegar ítreka að þau samningsdrög sem nú liggja fyrir fela þrátt fyrir allt í sér gríðarlega háar kröfur á hendur íslenskum almenningi sem ekkert hefur til saka unnið, kröfur sem nema og jafngilda heildarútgjöldum menntamálaráðuneytisins í heilt ár og er þá ekki tekið tillit til fjölmargra áhættuþátta sem fram koma í þessu samkomulagi. Þeir sem mæla fyrir þessu frumvarpi og berjast fyrir samþykkt þess þurfa að færa fram gríðarlega sterk rök fyrir því að það sé réttlætanlegt gagnvart fólkinu í landinu að frumvarpið verði samþykkt, einkum í ljósi þess að það hvílir engin lagaskylda á íslenskum almenningi eða íslenska ríkinu að gangast í ábyrgðir (Forseti hringir.) vegna þeirra krafna sem frumvarpið leiðir af sér. Slík rök hafa að mínu mati, herra forseti, (Forseti hringir.) ekki verið færð fram en ég mun bíða og vona að hæstv. ríkisstjórn muni reyna að gera það (Forseti hringir.) þegar líður á umræðuna.