139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns vil ég taka undir síðustu orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem endaði ræðu sína á því að fjalla um það að enn hafi ekki verið sýnt fram á með neinum lögfræðilegum hætti að íslenska ríkinu beri skylda til að greiða þær fjárhæðir sem krafa er um í þessu máli og samningurinn sem hér er til umræðu byggir á. Þetta var töluvert rætt í þinginu á síðasta ári og ýmsu haldið fram í þeim efnum en þegar til kastanna kom skorti alltaf þann lögfræðilega rökstuðning sem hefði verið nauðsynlegur til að sýna fram á lagaskyldu í þessum efnum og við stöndum enn þá í þeim sporum.

Nú dreg ég ekki í efa að árangur hefur náðst í ýmsum efnum í þeim samningaviðræðum sem farið hafa fram á þessu ári. Ég ætla þó ekki frekar en flestir þeir þingmenn sem hafa talað hér í dag að leggja mat á einstök atriði samkomulagsins. Þingskjalinu með frumvarpinu og fylgigögnum var dreift í gær, þau höfðu reyndar verið aðgengileg þingmönnum um nokkurra daga skeið en hins vegar hef hvorki ég né aðrir þingmenn haft tök á að kynna okkur þau gögn til hlítar og verður það því að bíða 2. umr.

Ferill málsins verður með þeim hætti eins og fram hefur komið að hv. fjárlaganefnd fær málið nú til afgreiðslu og umfjöllunar og mun væntanlega senda það til umsagnar til fjölda sérfróðra aðila sem geta tjáð sig um einstaka þætti, m.a. lögfræðilega og hagfræðilega, þannig að við munum eiga þess kost í þinginu þegar kemur til 2. umr. að fjalla um málið á miklu heilsteyptari hátt og á grundvelli betri upplýsinga en við getum við 1. umr.

Því ber auðvitað að fagna að sá háttur er hafður á nú því að eins og hefur verið rakið í umræðunni hefur á fyrri stigum máls þegar fyrri Icesave-samningar hafa verið bornir fram á þingi stundum verið reynt að koma málum í gegnum þingið án þess að gert væri ráð fyrir nægum tíma til að fjalla um það með faglegum hætti. Það hefur kostað töluvert mikla baráttu, það gerði það sumarið 2009 og eins haustið 2009, að fá það í gegn að um málin væri fjallað á vandaðan og faglegan hátt. En það hefur þó hæstv. ríkisstjórn lært af reynslunni að það borgar sig ekki að reyna að leggja í þann slag og ég held að umræðan í dag sýni það alveg skýrt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og stjórnarandstöðunnar almennt eru ekki tilbúnir til að láta valta yfir sig í þeim efnum. Skilaboðin eru afskaplega skýr: Það verður farið vandlega yfir þetta, þingmenn stjórnarandstöðunnar munu gera skýra kröfu um að það verði farið vel yfir þetta, sjónarmið verði leidd fram, farið verði yfir einstaka þætti þessa flókna samkomulags með viðhlítandi hætti og um leið að ekki verði beitt ofríki til að þröngva í gegn einhverju sem ekki er vandlega skoðað og vandlega rætt.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um framgöngu hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli á fyrri stigum. Hún dæmir sig sjálf. Og það rýrir auðvitað trúverðugleika hæstv. ráðherra sem koma hingað, margir hverjir, og mæla nú eindregið með því að gengið verði frá þessu máli á þeim grundvelli sem nú liggur fyrir, hvað þeir hafa sagt á fyrir stigum, hvað þeir sögðu þegar fyrsti Icesave-samningurinn var borinn undir þingið og hvað þeir gerðu í annarri umferð þegar málið var borið undir þingið. Í báðum tilvikum voru sömu hæstv. ráðherrar alveg eindregið sannfærðir um það, þeir þurftu varla að lesa samninginn þeir voru svo sannfærðir um það að samþykkja bæri samninginn alveg án nokkurra fyrirvara og án nokkurra varúðarráðstafana og án nokkurra vandkvæða. Í þeim röðum og í þeim hópi voru líka einstakir þingmenn stjórnarflokkanna.

Til eru slíkar tilvitnanir í löngum röðum og er ástæðulaust að rifja þær upp á þessu stigi. Þess vegna hefur það ekki mikil áhrif á mig og ég hugsa að það hafi ekki mikil áhrif á þingmenn almennt þó að einstakir ráðherrar komi í ræðustól, eins og gerðist fyrri partinn í dag, og reyni að sannfæra menn um að hér sé um svo geysilega góðan samning að ræða að hann beri að samþykkja. Reynslan kennir okkur þingmönnum einfaldlega að það borgar sig fyrir okkur að fara vandlega yfir málið, leggja okkar eigið mat á það sem fyrir liggur, leggja okkar eigið mat á þau gögn sem aflað er í meðförum þingsins, fá álit sem víðast að og fara vandlega yfir alla þætti. Það er reynslan. Jafnvel þó að samninganefndin sem vann að þeim samningsdrögum sem nú liggja fyrir sé skipuð hinum mætustu mönnum tekur það ekki af okkur þingmönnum þá skyldu að leggja í vandlega skoðun á málunum á okkar eigin forsendum hafandi það í huga, sem ég sagði í upphafi, að hin lagalega skuldbinding er langt frá því skýr. Þvert á móti eru meira að segja miklu sterkari og veigameiri lögfræðileg rök gegn því að við berum ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands og eins þurfum við að horfa á það hvaða hagfræðilegu eða efnahagslegu áhrif samningar af þessu tagi hafa.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson benti á það í ræðu sinni áðan að þeir 47 milljarðar sem talað er um í niðurstöðum samninganefndarinnar og kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins — reyndar að sjálfsögðu með fyrirvörum sem geta bæði verið til hækkunar og lækkunar — séu býsna stór upphæð í samhengi fjárlaganna. Hér hafa hv. þingmenn háð harða baráttu um upphæðir sem eru svo margfalt, margfalt lægri í samhengi ríkisfjármálanna. Samningurinn eins og hann blasir við mér, og ég segi þetta með þeim fyrirvara sem ég gat um áðan að ég hef ekki haft mikil tök á að kynna mér efni hans en engu að síður liggur fyrir að strax á næsta ári eigum við, verði þessi samningur undirritaður og staðfestur, að greiða 23 milljarða. Hvað er það í samhengi við þann niðurskurð sem stefnt er að á fjárlögum næsta árs miðað við það fjárlagafrumvarp sem varð að lögum í dag? Ætli það sé ekki svona u.þ.b. allur sá raunverulegi sparnaður eða hagræðing sem náðist fram í því fjárlagafrumvarpi? Trúlega meira. Tölurnar í fjárlagafrumvarpinu voru reyndar á reiki alveg fram undir það síðasta. En trúlega eru greiðslurnar vegna Icesave hærri upphæð á næsta ári en allur sá sársaukafulli sparnaður sem þingmenn kepptust við að koma í ræðustól til að lýsa og varð meira að segja til þess að þrír hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnarflokkanna treystu sér ekki til að styðja fjárlagafrumvarpið við endanlega afgreiðslu þess, sem eru út af fyrir sig söguleg tíðindi þó að ég fari ekki nánar út í það að svo stöddu. Bara á næsta ári er kostnaðurinn vegna Icesave-samkomulagsins sem nú er á borðinu meiri en sá sársaukafulli niðurskurður sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir — þetta segir nú svolítið, þetta segir nú nokkra sögu — og þá erum við væntanlega að miða við varfærið mat, miða við óvissuþætti sem geta verið fyrir hendi og gerð hefur verið grein fyrir. Þetta eru engar smátölur sem við erum að tala um jafnvel þó að við séum hugsanlega að tala um tífalt lægri greiðslur en voru á borðinu þegar meiri hluti Samfylkingar og Vinstri grænna stóð að samþykkt síðasta Icesave-samkomulags í desemberlok í fyrra, jafnvel þó að við séum að tala um tífalt lægri fjárhæð er engu að síður um háar fjárhæðir að ræða. Hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hljóta því að hafa skilning á því að þingmenn þurfi að taka sér tíma til að skoða þetta og samþykki ekki eitthvað fyrirvaralaust.

Það er nokkuð óábyrgt, finnst mér, þegar einstakir hæstv. ráðherrar, jafnágætir og þeir kunna að vera að öðru leyti, koma og lýsa þessu máli sem einhverri gæs sem verði að grípa þegar jafnmargir þættir og jafnmiklir óvissuþættir eru enn þá fyrir hendi í málinu.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég ítreka það að við hljótum að skoða þetta mál vandlega. Við hljótum að leggja mat á þætti bæði lögfræðilega og efnahagslega í þessu samhengi. Við hljótum að móta okkur afstöðu til þess, ekki á grundvelli þess að hér sé einhver gæs sem þarf að grípa heldur á grundvelli okkar einlægasta og heiðarlegasta mats á hagsmunum íslensku þjóðarinnar, og menn verða að gæta sín á því að gæsirnar sem þeir sjá á flugi fljúgi ekki framan í þá sjálfa eins og henti suma hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar í þessu máli og nýleg dæmi eru um.