139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það mætti kannski kalla hv. þm. Birgi Ármannsson gæsapabba í þessu máli. Staðan er auðvitað sú að Sjálfstæðisflokkurinn, og það segi ég honum ekki til hnjóðs, á talsvert í þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir þinginu og við erum að ræða núna. Það er eins og ég hef rakið í fyrri ræðum mínum í dag alveg ljóst að ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan bundust samtökum í þessu máli eftir að forsetinn sendi málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarandstaðan hafði frumkvæði að því að bjóða stjórninni til samfylgdar í málinu. Það hófst með því að formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins fóru ásamt fjármálaráðherra til fundar við kollega hæstv. fjármálaráðherra í Bretlandi og Hollandi. Þar var niðurstaðan sú að það væri í nýtt ferðalag leggjandi og það var stjórnarandstaðan sem lagði til formann samninganefndarinnar. Það var stjórnarandstaðan sem átti einn af samninganefndarmönnum og sá ágæti maður á ekki sístan þátt í niðurstöðunni sem nú liggur fyrir, sem vissulega er erfið mörgum en er samt miklu, miklu betri en fyrri niðurstaða. Það veit hv. þingmaður.

Gæs er happafengur í krappri stöðu og margt heiðarkotið lifði af fyrr á tímum ef menn komust yfir slíkan feng þannig að hv. þingmaður á ekki að fara háðulegum orðum um það þó að menn noti litríkar myndlíkingar til að lýsa ánægju sinni yfir orðnum hlut. Þessi orðni hlutur er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en sömuleiðis á ábyrgð stjórnarandstöðunnar. Ég spyr hv. þm. Birgi Ármannsson hvort hann sé ekki ánægður með það framlag sem stjórnarandstaðan hefur átt í þessu máli. Ég hef sagt það alveg ærlega fyrr í dag að ég tel það stjórnarandstöðunni til hróss hvernig hún hefur unnið í þessu máli af heilindum og það skilaði árangri. Það boð sem stjórnarandstaðan setti fram gagnvart ríkisstjórninni var þegið og vitaskuld hefur það verið stormasamt á köflum en eigi að síður báru menn gæfu til þessarar niðurstöðu og í þeirri stöðu sem málið var komið í tel ég að þegar á allt er litið hafi þetta ferðalag stjórnar og stjórnarandstöðu ekki verið ógæfusamt.