139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi geta þess að hæstv. utanríkisráðherra gat þess í ræðu sinni fyrr í dag að hann væri, ef ég man orðalagið rétt, fullur auðmýktar í garð þessa máls og hrósaði stjórnarandstöðu og öðrum þeim sem hefðu barist gegn fyrri samningum fyrir framtak þeirra í málinu sem ætti þátt í því að leysa betur úr hnútnum en lá á borðinu fyrir ári síðan. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi þar með bæði verið einlægari og hugsanlega sanngjarnari en ýmsir aðrir hæstv. ráðherrar sem ekki sýndu sömu stórmennsku í yfirlýsingum í dag, að mér fannst, þannig að því sé til haga haldið. Mér fannst hæstv. utanríkisráðherra viðurkenna miklu frekar en ýmsir aðrir hæstv. ráðherrar að það sem hefur gerst frá því að meiri hluti Samfylkingar og Vinstri grænna samþykkti Icesave-lögin í árslok 2009 hafi orðið til mikillar gæfu í málinu og um það getum við verið sammála. Ég held t.d., ef ég reyni að bregðast við orðum hæstv. utanríkisráðherra að öðru leyti, að það hafi margt áunnist með því starfi sem unnið hefur verið af hálfu hinnar nýju samninganefndar á þessu ári. Ég held að þeir menn sem þar komu að verki hafi staðið sig býsna vel í ljósi aðstæðna. Ég tek hins vegar fram, eins og ég gerði í ræðu minni áðan, að ég áskil mér fullan rétt til að fara yfir efnisatriði þessa máls og taka afstöðu til þess á grundvelli afstöðu þess mats, því að þótt góðir menn standi að einhverju verki áskil ég mér (Forseti hringir.) engu að síður rétt til þess að taka afstöðu á grundvelli bestu upplýsinga og bestu samvisku þegar niðurstaða verksins liggur fyrir.