139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[21:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ítreka í örstuttu máli það sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðum við 2. umr. um þetta mál. Í fyrsta lagi sögðum við að við styddum það markmið frumvarpsins að stytta þann frest sem tæki til fyrningar krafna sem ekki fengjust greiddar við gjaldþrotaskipti einstaklinga. Hvar sem við höfum komið að þessu máli, frá því að það kom fyrst inn í þingið, höfum við lýst yfir stuðningi við það meginmarkmið. Eins og fram kemur í nefndaráliti okkar höfðum við hins vegar áhyggjur af því að frumvarpið eins og það er nú mótað nái ekki tilgangi sínum, að minnsta kosti ekki svo að það nýtist stórum hópi fólks og að hugsanlega hafi verið vaktar of miklar væntingar í þessu máli, væntingar umfram það sem innstæða er fyrir.

Við höfum ekki lagst gegn þessu máli, hvorki innan nefndar né í afgreiðslu mála í þinginu, en við höfum hins vegar ekki stutt það vegna þess að við teljum að það sé ekki til þess fallið að öllu leyti að ná þeim háleitu markmiðum sem ráða má af umræðum um það. Ég ætla ekki að fara ítarlega í rökstuðning um það heldur vísa fyrst og fremst til þess nefndarálits sem liggur fyrir frá mér og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Afstaða okkar mun því verða sú hin sama og við 2. umr., við munum sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins.