139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek bara athugasemdum hv. þingmanns. Við erum ekki sammála um málið þó að það sé í sjálfu sér ekki mikið sem ber á milli. Eins og ég sagði áðan í minni stuttu ræðu fannst mér minnihlutaálit hv. þingmanns að mörgu leyti vel unnið og málefnalegt fyrir sína parta.

Ég tel að það úrræði sem nú er gripið til eða leitt í lög sé alger neyðarleið. Það er ósk mín að sem fæstir, að sjálfsögðu, þurfi að nýta sér þann stutta fyrningarfrest sem hér um ræðir þannig að ef bölbænir stjórnarandstöðunnar, ef ég má nota það orð, rætast í þessum efnum, þ.e. að þetta úrræði gagnist afar fáum hlýtur það að vera fagnaðarefni, það er gott að sem fæstir þurfi að fara þessa leið.

Í það minnsta er þetta eitt úrræði af mörgum tugum úrræða sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafa gripið til til að bregðast við, eftir fremsta megni og með ýmsum hætti, þeim áföllum sem heimilin og skuldugir einstaklingar urðu fyrir í landinu í kjölfar hrunsins 2008.