139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú leið sem farin er í lagaskilum í þessu frumvarpi er sú að þau ná yfir þá fyrningarfresti sem þegar eru í gangi. Ef þeir eru lengri en tvö ár styttast þeir niður í tvö ár og ef þeir eru skemmri haldast þeir óbreyttir. Það er lending sem m.a. réttarfarsnefnd gat fallist á að stæðist réttarvenju réttarríkisins, svo notað sé það sívinsæla hugtak.

Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í ræðu minni, þetta er ein af fjölmörgum leiðum sem við förum til að reyna að ná utan um það fólk sem varð fyrir áföllum í kjölfar hrunsins. Auðvitað kann að vera að það gagnist fólki sem hefur hagað sér eins og apakettir, en þeir eru íslenskir apakettir og við þurfum að taka utan um þá alveg eins og alla aðra. Það er ekki hægt að undanskilja neitt fólk á Íslandi (Forseti hringir.) lagasetningu jafnvel þó að það hafi hagað sér eins og apakettir.