139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[21:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið og við þær breytingar sem fram koma frá meiri hluta allsherjarnefndar.

Ég var einn af meðflutningsmönnum að bæði hinu svokallaða lyklafrumvarpi og frumvarpi um styttingu á fyrningarfresti kröfuréttinda sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir var 1. flutningsmaður að. Ég hafði alltaf séð fyrir mér að raunar væri þar tekið á sama vandamálinu, annars vegar væri möguleikinn á lyklafrumvarpi þannig að fólk þyrfti ekki að fara í gjaldþrot, og hins vegar væri hægt að stytta fyrningarfrestinn hjá þeim sem færu í gjaldþrot. Í því frumvarpi var fresturinn fjögur ár, sem hefur verið almenna reglan hvað fyrningarfrest varðar, en ég fagnaði því hins vegar mjög þegar hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp þar sem búið var að stytta þann tíma í tvö ár.

Þegar ég hef skoðað afstöðu og löggjöf hvað varðar gjaldþrot og greiðsluaðlögun annars vegar í Evrópu og hins vegar í Bandaríkjunum hef ég séð tvenns konar viðhorf gagnvart skuldurum. Í Bandaríkjunum sér maður það mjög í löggjöfinni að þeir vilja hafa gjaldþrotaskiptin eins skilvirk og hægt er og flýta fólki gegnum ferlið, bæði frá fyrirtækjum og einstaklingum, með það í huga að einstaklingurinn geti farið að skila af sér sem fyrst til samfélagsins á nýjan leik. Í Evrópu höfum við verið svolítið lúterskari. Við höfum meira haft í huga að fólk megi ekki halda að það geti farið óvarlega í fjármálum og sé svo reddað með því að fara í gegnum gjaldþrot, heldur þurfi að einhverju leyti að refsa fólki fyrir að hafa farið óvarlega í fjármálum. Það hefur einkennt mjög löggjöfina á Íslandi hvað varðar skuldara og gjaldþrot.

Það geta verið mjög margar ástæður fyrir því að fólk lendir í fjárhagslegum erfiðleikum og margar af þeim ástæðum hafa ekkert með það að gera að fólkið sjálft hafði farið óvarlega í fjármálum eða ekki. Ef við tökum einstakling sem dæmi sem verið hefur í fyrirtækjarekstri á eigin kennitölu, getur verið að viðkomandi hafi veikst, það getur verið að maki viðkomandi veikist, sem gerir það að verkum að forsendur fyrir fjármálum þess heimilis bresta kannski á mjög stuttum tíma. Það getur orðið skilnaður og síðan getur það gerst sem við erum að takast á við á Íslandi, að alger forsendubrestur verður í fjármálakerfinu. Á Íslandi hafði það gríðarleg áhrif á stóran hluta íslenskra heimila þegar íslenska krónan féll og gjaldþrot varð í um 95% af íslenska bankakerfinu. Þar missti fólk sparnaðinn sinn, eignir í hlutabréfum og lán sem það hafði tekið og talið að það gæti staðið undir, tvöfölduðust. Það stóð jafnvel frammi fyrir því að missa vinnuna. Það er vandi sem við erum að takast á við.

Ég efast hins vegar ekki um að látið verði reyna á það fyrir dómstólum hvort þetta sé afturvirkt ákvæði eða ekki. Það er gott vegna þess að við verðum að fá það á hreint hvort það er í lagi þegar maður skrifar undir skuldabréf eða tekur á sig einhverjar skuldir, þegar maður er búinn að gefa eftir allar sínar eigur, bíllinn er farinn, húsið er farið, allar eignir, að sá sem maður skrifaði upp á fyrir eigi samt sem áður rétt á því sem maður aflar sér um ókomna tíð. Ef stjórnarskráin er þannig skrifuð á Íslandi, ef eignarréttarákvæðið er fastsett á Íslandi, er algerlega á hreinu í huga mínum að það þarf að breyta því í stjórnarskránni því að þannig getum við ekki komið fram við fólk.

Ég mun styðja þetta mál. Ég tel líka að þær breytingar sem meiri hluti allsherjarnefndar hefur gert séu til bóta og tel að þetta sé með betri málum, ef ekki þeim bestu, sem nú fara í gegnum þingið.