139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stutta svarið við spurningunni um gjaldþrot Byggingarsjóðs verkamanna er kjördæmapot. Það var þannig að sjóðurinn stóð sérstaklega illa vegna þess að á landsbyggðinni hafði verið byggt húsnæði í einhvers konar atvinnubótavinnu og síðan, til að allrar sanngirni sé gætt, var það auðvitað þannig að byggðaþróun á sumum svæðum var þannig að íbúðaþörfin var minni en áætlað hafði verið. Það er rétt að það komi sterklega fram.

Varðandi spurningu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um það af hverju ekki eigi að rannsaka sjóðinn frá upphafi þá fór ég yfir það í ræðu minni að þessi rannsókn grundvallast á ályktun rannsóknarnefndar Alþingis þar sem kveðið er skýrt á um það að ein af stærri hagstjórnarmistökum á fyrsta áratug 21. aldarinnar megi rekja til breytinga á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs. Það er á grundvelli þeirrar ályktunar sem þessi rannsókn er fram komin og er í eðli sínu allt annars konar rannsókn en sú sem þingmaðurinn leggur til.