139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit hreint ekki hvort ég stend á haus eða hæl. Það skal tekið fram að sú sem hér stendur sat í bankaráði Seðlabankans og hefur aldrei skirrst við að viðurkenna að sá banki hafi lent í það alvarlegum fjárhagskröggum að hann hefði orðið gjaldþrota hefði ríkissjóður ekki staðið honum að baki og ég vil benda hv. þingmanni á að það sama á við um Íbúðalánasjóð. Væri Íbúðalánasjóður ekki lánastofnun í eigu íslenska ríkisins með ríkisábyrgð væri hann jafngjaldþrota og nánast allar aðrar lánastofnanir í landinu. Og ég vil benda hv. þingmanni á að við erum að leggja sjóðnum til 33 milljarða til að hann geti haldið áfram að starfa með eðlilegum hætti. Út á það gekk aðgerðin þegar við veittum fjármálaráðherra heimild til að leggja sjóðnum til eigið fé, bara svo allur þingheimur hafi það á hreinu.

Varðandi digurbarkalegt tal mitt um kjördæmapot þá fólst ekki í því að það hefði verið hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sem einhenti sér í það heldur var þetta kerfi sem hún kom á laggirnar en hún stjórnaði að sjálfsögðu ekki lánveitingum úr því kerfi. En ef fólk vill fara í einhverjar hártoganir með svona dylgjur þá er það þess að hafa það svo.