139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[10:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er vel hugsanlegt að utanríkisráðherra hafi ekki haft nægilegt samráð við þessa þremenninga. Ég ber samt hlýjar tilfinningar til þeirra þó að ég telji að þau hafi tímabundið leiðst afvega út á pólitíska glapstigu. Það er ekki mitt mál, það er þeirra.

Þeir sem styðja ríkisstjórn verða að uppfylla tvennt að mínu viti. Þeir verða að vera tilbúnir til að verja hana vantrausti og þeir verða að styðja fjárlagafrumvarp. Ef einhverjir einstaklingar gera það ekki hljóta þeir að velta fyrir sér hvar í heiminum þeir eru staddir, en þeir verða að gera það upp við sig sjálfir. Ég geri það ekki fyrir þá.

Þegar ég horfi hins vegar til baka velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi alltaf haft nægilegt samráð við sína eigin flokksmenn. Gæti verið að einhvers staðar í hugskoti hv. þingmanns leyndist minning um mikilvæga atkvæðagreiðslu á síðasta ári þar sem hluti af þingmönnum hans varð viðskila við hann? Kynni það að vera? Má ég þá draga þá ályktun (Forseti hringir.) að það stafi af því að formaður Framsóknarflokksins hafi ekki haft nægilegt samráð við sitt fólk? Ég held ekki.