139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

lausn á skuldavanda lítilla fyrirtækja.

[10:50]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Nú er búið að samþykkja samkomulag um úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Bankar hafa í raun og veru unnið eftir þessu verklagi í nokkuð langan tíma og mörg dæmi eru um að fyrirtæki séu þegar farin að sjá fram á veginn á grundvelli slíkrar endurskipulagningar og hefja uppbyggingu á ný.

Þrátt fyrir að þetta samkomulag sé nú undirritað af hálfu Samtaka fjármálafyrirtækja og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir hönd hins opinbera geta ekki allar fjármálastofnanir tekið þátt í þessu og þar er svolítið upp á hið opinbera að klaga. Grundvallaratriðið í skuldaaðlögun, hvort sem er einstaklinga eða fyrirtækja, er krafan um jafnræði meðal kröfuhafa, þ.e. krafan um að þeir kröfuhafar sem séu í sambærilegri stöðu deili áfallinu með jöfnum hætti. Þessi krafa er forsenda í nauðasamningum og einnig í frjálsum samningum.

Samkvæmt gildandi lögum má Byggðastofnun ekki afskrifa lán. Ef þessu verður ekki breytt er ljóst að fyrirtæki á landsbyggðinni, smærri rekstraraðilar og jafnvel bændur munu ekki geta fengið úrlausn mála sinna vegna þess að núverandi fyrirkomulag getur leitt til þess að Byggðastofnun muni standa í vegi fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja á grundvelli þess að stofnuninni er óheimilt að vinna með öðrum kröfuhöfum og afskrifa fjármuni sem klárlega eru tapaðir. Ef Byggðastofnun er aftast á veðréttum er ljóst að þeir kröfuhafar sem framar standa munu ekki geta samþykkt afskrift sinna krafna án aðkomu Byggðastofnunar.

Það er því rétt að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki rétt að taka til í eigin bakgarði áður en farið er að ætlast til samstarfs af hálfu annarra?