139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

lausn á skuldavanda lítilla fyrirtækja.

[10:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Í því samkomulagi sem hv. þingmaður spyr um höfum við gengist fyrir því að fá alla aðila að borðinu, fjármálastofnanir og hagsmunaaðila, til að hægt sé að ljúka meðferð skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það er mjög mikilvægt verkefni og stór þáttur í því var að ríkið kæmi að málum sem kröfuhafi og að gerðar yrðu breytingar á reglum um skattlagningu á niðurfellingu skulda. Frumvarp þess efnis liggur nú fyrir þinginu.

Það þurfa allir að taka til og koma að málum og allir þurfa að tileinka sér ný vinnubrögð. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður sagði, að fjármálastofnanir hefðu almennt unnið eftir þessu verklagi lengi. Þær hafa verið mjög tregar til að vinna eftir þessu verklagi. Allt íslenska kröfukerfið hefur verið mjög tregt til að vinna eftir þessu verklagi. Meginreglan hefur frekar verið að allir hafa beðið eftir að allir hinir afskrifuðu skuldir en ekki ætlað sér að vera fyrstir. Með samkomulaginu nú vekjum við þá væntingu að það sé ætlast til þess að menn verði með í umbreytingu skulda.

Hvað varðar heimildir Byggðastofnunar vil ég vekja athygli á því að löggjafinn samþykkti í október í fyrra lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins. Í þeirri löggjöf er kröfuhöfum beinlínis heimilað að lækka skuldir til samræmis við endurmat þeirra. Ég held að hins vegar sé full ástæða til að taka ábendingar hv. þingmanns alvarlega og ef það eru raunverulegar lagahindranir í vegi þess að Byggðastofnun geti tekið þátt verður augljóslega að gera henni það kleift. Ef það eru einhver ákvæði í sérlögum um Byggðastofnun sem hindrar hana þrátt fyrir lög nr. 107/2009 til þátttöku í skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja verðum við (Forseti hringir.) að taka á því.