139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[11:11]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Markmið þessa frumvarps eru góð og gild, nefnilega þau að aðstoða fólk sem hefur orðið gjaldþrota til að komast aftur upp á lappirnar. Hins vegar nær þetta frumvarp ekki þeim markmiðum sínum, það gagnast ekki venjulegu skuldugu fólki. Á Íslandi eru gerð 5 þús. árangurslaus fjárnám á hverju ári sem leiða til rúmlega 100 gjaldþrota, í flestum tilvikum vegna vanskila á virðisaukaskatti. Þó eru á þessu undantekningar hvað varðar gjaldþrot manna sem voru framarlega í viðskiptalífinu og íslensku útrásinni. Þeir munu hagnast vel á þessu frumvarpi og ganga skuldlausir frá borði eftir tvö ár frá skiptalokum. Hinn venjulegi maður situr áfram uppi með sitt árangurslausa fjárnám og verður ekki (Forseti hringir.) tekinn til gjaldþrotaskipta. Yfir honum munu skuldirnar hanga áfram þannig að með þessu frumvarpi er verið að lögfesta (Forseti hringir.) úrræði sem nýtast kannski helst þeim sem síst skyldi. Ég sit hjá.