139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum. Fjöldi gesta kom á fund nefndarinnar og margar umsagnir bárust eins og sjá má í nefndaráliti á þskj. 550.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um málefni fatlaðra til að tryggja yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Frumvarpið byggist að mestu leyti á vinnu verkefnisstjórnar um yfirfærsluna og samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónusta við fatlaða sem undirritað var 23. nóvember 2010.

Meginmarkmið yfirfærslunnar er að stuðla að samþættingu félagslegrar þjónustu við íbúa sveitarfélaganna og þar með heildstæðari og bættri þjónustu við fatlaða einstaklinga. Helstu breytingar í frumvarpinu eru þær að fatlaðir einstaklingar sækja nú um þjónustu hjá því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili. Fagteymi á vegum sveitarfélaganna meta með samræmdum hætti þjónustuþörf einstaklinga sem þurfa á þjónustu að halda. Landinu á að skipta upp í þjónustusvæði þannig að á hverju þeirra búi að lágmarki 8 þús. íbúar en undanþága er veitt vegna landfræðilegrar legu einstakra sveitarfélaga. Búið er að skipuleggja 14 þjónustusvæði. og munu sveitarfélög á sama þjónustusvæði sameinast um fagteymi. Svæðisskrifstofur og svæðisráð í málefnum fatlaðra verða lögð niður.

Lagt er til að stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga á grundvelli laganna verði kæranlegar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Jafnframt verði trúnaðarmenn skipaðir af ráðherra en ekki svæðisráðum líkt og gildandi lög kveða á um. Auk þess er lagt til að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði lagður niður og fjármunir hans færist í sérstaka deild hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem sjái um að jafna framlögum til sveitarfélaga í samræmi við kostnað af þjónustu. Skýrt verður kveðið á um bann við því að ráða fólk til starfa sem hlotið hefur refsidóma vegna brota á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Þá er lagt til að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest og hún verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk 2014, en þá skal fara fram sameiginlegt endurmat ríkis og sveitarfélaga á yfirfærslunni auk þess sem þá skal ljúka heildarendurskoðun laganna.

Nefndin hefur rætt stöðu málaflokks fatlaðs fólks ítarlega á þeim stutta tíma sem hún hefur haft fyrirliggjandi frumvarp til meðferðar. Nefndin gagnrýnir hversu seint þetta mikilvæga mál kemur til þingsins til þinglegrar meðferðar en ekki síður þá óvissu sem samþykkt frumvarpsins stuttu fyrir yfirfærsluna veldur fötluðum einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem og starfsmönnum sem ekki vita hver afdrif þeirra verða.

Yfirfærsla þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga hefur staðið lengi fyrir dyrum og óviðunandi að málið komi svo seint fyrir Alþingi sem raun ber vitni. Þessi gagnrýni nefndarinnar er rædd nánar í nefndaráliti.

Þrátt fyrir stuttan reynslutíma hefur nefndin lagt áherslu á að slá ekki af gæðakröfum nefndarstarfsins og hefur hún viljað stuðla að vandaðri meðferð málsins. Nefndin hefur lagt áherslu á að ljúka málinu fyrir áramót enda almennur vilji að af yfirfærslunni verði í upphafi nýs árs og miklar væntingar eru til þess auk þess sem málið varðar hagsmuni fjölda fólks. Nefndin hefur við vinnu sína búið að því að hafa áður en frumvarpið var lagt fram kynnt sér skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða frá ágúst 2010 og haldið fundi um hana.

Nefndin fjallaði einnig nokkuð um málefni fatlaðs fólks í aðdraganda samþykktar Alþingis á þingsályktunartillögu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar og fleiri um lögleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar í fyrravor. Áður en frumvarpið kom fram hafði nefndin haft frumkvæði að tveimur fundum með nokkurra mánaða millibili með verkefnisstjórn um yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og fylgst með undirbúningi yfirfærslunnar og þróun mála. Ef þessa frumkvæðis nefndarinnar til að kynna sér málið á fyrri stigum hefði ekki notið við er óvíst að náðst hefði að ljúka afgreiðslu málsins fyrir áramót með viðunandi hætti.

Eins og fram hefur komið lúta þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu mest að því að færa málaflokkinn yfir til sveitarfélaga. Margir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar hafa gagnrýnt hversu skammt er gengið með frumvarpinu. Bent hefur verið á að stöðnun hafi verið í málaflokknum til margra ára og að löngu tímabært sé orðið að innleiða réttarbætur til handa fötluðu fólki og færa löggjöf um málaflokkinn til samtímans.

Ríkisendurskoðun taldi í skýrslu sinni að skipulagi og stjórnun málaflokksins væri að ýmsu leyti ábótavant og benti á veikleika er lúta m.a. að því að heildarstefnu vantar fyrir málaflokkinn, fjárveitingar taka ekki mið af reglubundnu mati á þjónustuþörf, eftirlit með þjónustu sé ófullnægjandi, ekki sé fylgt samræmdum verklagsreglum og ekki unnt að bera saman á raunhæfan hátt einstaka útgjaldaliði málaflokksins. Þá er að finna í skýrslunni ábendingar í níu liðum til ráðuneytisins um afmarkaða þætti og má finna umfjöllun um þá í áliti þessu þar sem við á sem og í IX. kafla álitsins. Ljóst er að í fyrirliggjandi frumvarpi er reynt að verða við ábendingum Ríkisendurskoðunar og ráða bót á þeim vanköntum sem stofnunin sér á stjórn málaflokksins og eftirliti með henni. Þá er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að lagt verði fram frumvarp um réttindagæslu fatlaðs fólks á árinu 2011. Þó er jafnframt sýnt að ekki verður að fullu mætt athugasemdum stofnunarinnar nema með heildarendurskoðun laga um málefni fatlaðra sem samkvæmt frumvarpinu og samkomulaginu er áætlað að ljúki í lok árs 2014.

Mikilvægt er að tryggja að í löggjöf sem fjallar um málefni fatlaðs fólks og réttindi þess sé tekið mið af réttarbótum í löggjöf nágrannaríkja, að mannréttindi séu tryggð, samráð haft við fatlað fólk og löggjöf sé til samræmis við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Markmið samningsins er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og auka virðingu fyrir mannlegri reisn fatlaðs fólks og fjölbreytni.

Slíkt er ekki að fullu tryggt í gildandi lögum. Í 1. gr. frumvarpsins nú er þó kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum fyrrgreindum samningi Sameinuðu þjóðanna. Þá er kveðið á um að stjórnvöld skuli tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Fagnar nefndin þessu sem og því að til standi að lögleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í umsögnum gesta kom fram gagnrýni á orðanotkun um fatlaða einstaklinga í frumvarpinu. Nefndin tekur undir þá gagnrýni og telur löngu tímabært að orðfæri laga sem fjalla um réttindi fatlaðs fólks og þjónustu við það sé fært til samtímans. Nefndin leggur til þá breytingu að í stað þess að nota orðin fatlaðir og fatlaður verði vísað til fatlaðs fólks og fatlaðra einstaklinga. Til samræmis við efni frumvarpsins er jafnframt lagt til að heiti laganna verði lög um málefni fatlaðs fólks.

Þá áréttar nefndin að sú skylda sem lögð er á stjórnvöld í 1. gr. frumvarpsins um að tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þeirra á við um alla þá þætti sem frumvarpið og lög um málefni fatlaðs fólks kveða á um. Til að brýna mikilvægi þessa samráðs leggur nefndin til að samráðsákvæði verði bætt við 2. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um stefnumótun og gerð þjónustu- og gæðaviðmiða. Nefndin bendir þó á að samráðsskyldan er þar með ekki tæmandi talin og á hún í samræmi við 1. gr. frumvarpsins ávallt við þegar mótuð er stefna eða ákvarðanir teknar er varða málefni fatlaðs fólks.

Í nefndarálitinu er fjallað nokkuð ítarlega um stefnumótun, eftirlit og réttindagæslu, samræmda og sambærilega þjónustu, mat á þjónustuþörf, notendastýrða persónulega aðstoð, þjónustusamninga og starfsleyfi, leiðbeinandi reglur ráðherra um framkvæmd þjónustunnar, dagvistun fatlaðra ungmenna, verkefni svæðisskrifstofa, ferðaþjónustu fatlaðs fólks, kærufresti, húsnæðismál, Framkvæmdasjóð fatlaðra, atvinnumál, mögulegt stjórnsýsluhlutverk þjónustuaðila, skýrslur Ríkisendurskoðunar og heildarendurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks.

Nefndin leggur fram fjölmargar breytingartillögur á þskj. 551 og ætla ég nú að fara yfir þær tillögur sem ekki lúta að breytingum á orðfæri, kærufrestum og meðferð persónuupplýsinga. Aðrir nefndarmenn munu fjalla nánar um ýmsa þætti álitsins og breytingartillögur þeim tengdar.

Ég hef þegar farið yfir það hvernig við höfum bætt ákvæðum um samráð við 2. gr. frumvarpsins, sem er þriðja breytingartillagan. Ég ítreka að þótt því sé bætt inn þarna á það að sjálfsögðu við allar greinar frumvarpsins þar sem verið er að ræða stefnumörkun eða málefni. Það á við um allar greinar frumvarpsins að það eigi að leita samráðs hagsmunaaðila.

Í c-lið í breytingartillögu 6 er verið er að ræða um hlutverk teymanna í sveitarfélögunum. Sveitarfélögin taka við lögbundnu hlutverki svæðisskrifstofa og það á að vera tryggt að öll þjónusta sem er til staðar haldi áfram. Nefndin taldi þó rétt að kveða sérstaklega á um að heimilt væri að láta fagteymi sveitarfélaganna annast mat á umönnunarþörf fatlaðra barna vegna umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Var það til að tryggja að slíkt mat yrði sem best og að þjónusta við fötluð börn og aðstandendur þeirra yrði sem best og einföldust í nálgun fyrir þá sem njóta þjónustunnar.

Þá eru í 9. gr. gerðar breytingar á ákvæði um veitingu starfsleyfis til þjónustuaðila. Nefndin telur að breyting eigi að koma inn þannig að heimilt sé að veita starfsleyfi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við teljum mikilvægt að það sé ljóst hvaða skilyrði þjónustuaðilar eigi að uppfylla og við kveðum líka á um að ráðherra eigi að setja reglugerð um hvaða skilyrði séu fyrir starfsleyfi og að þetta sé unnið í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Þá er í 22. breytingartillögu fjallað um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að taka megi gjald fyrir þessa þjónustu. Það er nú þegar gert í flestum sveitarfélögum en nefndin telur rétt vegna fjölda ábendinga frá umsagnaraðilum að setja viðmið um gjaldtökuna og segir í breytingartillögunni að gjaldið skuli „þá taka mið af gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði“.

Þá breytti nefndin talsvert varðandi trúnaðarmenn fatlaðs fólks sem eiga að gæta réttinda þess. Með breytingartillögu nr. 24 er verið að breyta 37. gr. laganna. Þar er hlutverk trúnaðarmanna í nefndinni gert mun víðtækara en frumvarpið gerir ráð fyrir til að tryggja betur réttindagæslu fatlaðra einstaklinga áður en sérstök lög þar að lútandi verði lögfest. Nefndin gerir breytingartillögu um að frumvarp til laga um réttindagæslu fatlaðs fólks verði ekki lagt fram fyrir árslok 2011 heldur eigi síðar en 1. mars 2011.

Það kom ítrekað fram í umræðum okkar í nefndinni að við töldum okkur hafa skamman tíma til að setja okkur inn í málið og til að tryggja að allt yrði með felldu við yfirfærsluna eftir mikla yfirferð. Töldum við að þessu væri ágætlega fyrir komið en til að tryggja þó aðkomu þingsins að frekari aðkomu málsins, svo við gætum rækt eftirlitshlutverk okkar, kveður á um í 29. breytingartillögu, c-lið, að ráðherra eigi „eigi síðar en 1. október 2011 [að] leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þar skal setja fram stefnu í málefnum fatlaðs fólk, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaáætlun og skilgreinda árangursmælikvarða. Tímasettar verði m.a. aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu“.

Frá hagsmunaaðilum kom fram mikil gagnrýni á að frumvarpið gengi ekki lengra hvað varðaði réttarbætur fyrir fatlaða einstaklinga. Það kom þó jafnframt fram að þau töldu mikilvægt að málaflokkurinn yrði fluttur en að tryggt yrði að unnið yrði markvisst að breytingum á löggjöfinni. Mig langar að vitna í einn af gestum okkar sem sagði okkur að þetta væri mikið rætt, að hagsmunaaðilar ræddu við sveitarfélögin og þá væri svarið: Þið skuluð ekki hafa neinar áhyggjur, það mun ekkert breytast. Hún sagði okkur, gesturinn, að það væri einmitt það sem þau óttuðust, að það yrðu engar breytingar í málaflokknum. Það átti að flytja hann fyrir áratug til sveitarfélaganna en svo var hætt við það og málaflokkurinn hefur liðið fyrir það að búa við einhvers konar millibilsástand. Við teljum mikilvægt að málaflokkurinn verði fluttur nú og vorum tilbúin til að vinna málið með hraði út af þeim miklu hagsmunum sem í því felast. Þess vegna settum við inn ákvæði um þessa þingsályktunartillögu til að tryggja að við hefðum aðkomu að málinu á næstu stigum og gætum fylgst með því að markvisst væri unnið að heildarendurskoðun laganna um málefni fatlaðs fólks.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í þskj. 551. Við afgreiðslu málsins var Ásmundur Einar Daðason fjarverandi en undir nefndarálitið rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Ég vil, frú forseti, að lokum segja að við í félags- og tryggingamálanefnd höfum unnið þetta mál af vandvirkni og miklum metnaði. Við teljum að málaflokkurinn verði í góðum höndum hjá sveitarfélögunum og að yfirfærslan muni stuðla að bættri þjónustu við fatlað fólk og auka tækifæri þess til virkrar samfélagsþátttöku og ábyrgðar. Nefndin mun fylgja yfirfærslunni úr hlaði með upplýsingafundum með stýrihópnum sem kveðið er á um í lögunum, umfjöllun um frumvarp til laga um réttindagæslu fatlaðs fólks á vorþingi og umfjöllun um þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun á nýju þingi næsta haust.

Ég vil að lokum þakka samnefndarmönnum mínum í félags- og tryggingamálanefnd fyrir einstaklega gott samstarf og það að allir nefndarmenn lögðu mikla vinnu á sig til að þetta gæti orðið að lögum. Þar er ekki síður ástæða til að þakka minni hlutanum í nefndinni, stjórnarandstöðunni sem er enginn minni hluti því að við stöndum sameiginlega að þessu áliti og sýndum að þó að málefni fatlaðs fólks sé samfélagspólitískt mál er það ekki flokkspólitískt. Það er einkar ánægjulegt hvernig okkur í nefndinni tekst í langflestum tilfellum að hefja okkur yfir pólitískar flokkslínur og vinna sameiginlega að því að vinna samfélagslega mikilvægum málum brautargengi.

Ég þakka líka að lokum nefndarritaranum okkar fyrir vel unnin störf og mjög ítarlegt og gott nefndarálit sem hún lagði grunninn að og við unnum síðan öll í sameiningu.