139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi umræðu um notendastýrða persónulega aðstoð kom fram að orðfærið í frumvarpinu þótti ekki eðlilegt. Það var talað um að prófa notendastýrða persónulega aðstoð. Það er kveðið skýrt á um það að lögleiða eigi notendastýrða persónulega aðstoð og hún verði eitt af meginþjónustuformunum með endurskoðun löggjafar 2014. En við breyttum orðalagi á þann veg að það ætti að „þróa leiðir til að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð“ enda teljum við að þegar hafi fjölmörg tilraunaverkefni verið í gangi varðandi notendastýrða persónulega aðstoð og það sem vanti sé bara að taka ákvörðun um að innleiða þetta þjónustuform sem meginþjónustuform og að veita til þess fjármagn.

Nú er það auðvitað svo að bæði ríki og sveitarfélög eru að skera mikið niður og sveitarfélögin hafa áhyggjur af því að þetta muni verða tiltölulega dýrt, það eru deildar meiningar um það. En við bendum jafnframt á að með yfirfærslu málaflokksins er hægt að koma í veg yfir niðurskurð sem ella hefði orðið hefði hann verið áfram hjá ríkinu og við teljum að í notendastýrðri persónulegri aðstoð felist svo mörg tækifæri. Bæði eykur það möguleika fatlaðs fólks til atvinnuþátttöku og býður upp á fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir þá sem fatlaðir einstaklingar munu ráða í þjónustu sína til þess að vera þeim til aðstoðar til að geta sinnt skyldum sínum í leik og starfi.