139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hyggst leggja fram breytingartillögu við þingsköpin í þá veru að nefndir þingsins semji frumvörp almennt. Það veldur ekki auknum kostnaði. Það er nefnilega þannig að í ráðuneytum úti um allt eru afskaplega duglegir embættismenn að semja lög alla daga. Við flytjum þá bara yfir til þingsins og biðjum þá um að vinna hjá okkur við að semja lög fyrir okkur. Við erum nefnilega með fjárveitingavald líka, frú forseti, þannig að það er sama hvort við borgum þessum sérfræðingum í ráðuneytunum eða borgum þeim hér hjá þinginu fyrir að semja frumvörp. Munurinn er sá að frumvarpi sem samið er af þinginu er ritstýrt af þingmönnum sem eru kosnir af þjóðinni og þurfa að svara fyrir ábyrgð á því hvernig lagaumhverfið er. En hitt að frumvarp sé samið af sérfræðingum í ráðuneytum hvað þá af sérfræðingum í stofnunum sem framkvæma og útfæra lögin er stórhættulegt, frú forseti. Þar geta sérfræðingarnir smíðað vopn í hendi sér í baráttu við borgarana og þannig gerist það. Skattalögin, 109. gr. ætti að vera bönnuð börnum, hún er svo skelfileg gagnvart skattgreiðendum. Samkeppnislög, þau eru samin af sérfræðingum Samkeppnisstofnunar. Það væri miklu betra að þeir aðilar sem semja þau lög væru í vinnu hjá okkur þingmönnum því að við erum þó alla vega með öll sjónarmiðin á hendinni, líka sjónarmið borgaranna.