139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:12]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur verið bent á ákveðið atriði sem við höfum ekki rætt í umræðunni sem mig langar aðeins til að velta upp við hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur en hún hefur verið að tala um að við þurfum að fara í heildarendurskoðun á löggjöfinni. Þannig er að táknmálsnotendur margir sem búa við viðbótarfötlun eru algerlega háðir táknmáli og táknmálstúlkun að því er varðar aðgengi að þeirri þjónustu sem fötluðum stendur til boða. Það er vitað að þessi hópur getur ekki nýtt sér þjónustuna án þess að hún fari fram í gegnum táknmálstúlk. Þessi sjónarmið hafa ekki komið fram í umræðunni en hér er um að ræða þætti sem augljóslega þarf að fjalla um þegar þingið fjallar um réttindi og þjónustu við fatlað fólk á komandi árum.

Ég velti því fyrir mér hvernig hv. þingmaður gæti séð fyrir sér að unnt væri að tryggja þessum hópi fullan aðgang að lögboðinni þjónustu þannig að þeir sitji við sama borð og aðrir. Við höfum talað mikið um hve mikilvægt það sé að samfélagið búi þannig um hnútana að fatlað fólk finni minna fyrir fötlun sinni en annars er og lífsgæði þess séu tryggð.