139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kem hingað örstutt upp í ræðu til að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við það að færa málaflokkinn yfir til sveitarfélaga, þ.e. málefni fatlaðra. Það var tímabært og hefur lengi legið ljóst fyrir. Áður en ég kem að aðeins öðrum atriðum vil ég þakka nefndarmönnum í félagsmálanefnd fyrir mjög ítarlegt og gott nefndarálit þar sem mjög vel er farið yfir málaflokkinn allan.

Um leið vil ég taka hatt minn ofan fyrir nefndarmönnum öllum, og við sjálfstæðismenn skrifum undir álitið, vegna þess að þar kemur fram réttmæt gagnrýni á hæstv. félagsmálaráðherra. Þá er ekki verið að tala um núverandi félagsmálaráðherra, hann tók við ákaflega erfiðu verkefni sem var mjög skammt á veg komið. Það er að mínu mati mjög ámælisvert hvernig hæstv. félagsmálaráðherrar Samfylkingarinnar hafa dregið lappirnar í máli sem öllum var fullkunnugt um fyrir löngu. Um leið og ég hæli félagsmálanefnd vil ég hæla hæstv. núverandi félagsmálaráðherra sem tók við erfiðu verkefni en hefur leyst það nokkuð fljótt og komið því yfir í hendurnar á þinginu. Það skiptir mjög miklu máli fyrir fatlaða og fyrir samfélagið allt að sjá nefndarálit unnið samhljóða, við erum ekki með fyrirvara á þessu nefndaráliti.

Ég sit í fjárlaganefnd og þegar gestir á vegum sveitarfélaganna komu þangað í haust vegna fjárlaga spurði ég undantekningarlaust um færsluna á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Að því er ég best man voru engar vöflur á sveitarstjórnarmönnum. Þeir vildu fá málaflokkinn yfir og sögðu það ákveðið skref í því að bæta þjónustu við þá einstaklinga sem eru fatlaðir. Ég fagna því sjónarmiði sem kom svo skýrt fram og af miklum metnaði af hálfu sveitarfélaganna. Það er líka til fyrirmyndar hvernig sveitarfélög fyrir norðan, til að mynda Akureyrarbær sem reynslusveitarfélag, hafa sinnt þessum málefnum. Ég held að við ættum að líta þangað þegar farið verður yfir heildarendurskoðun á málefnum fatlaðra sem verið er að kalla eftir, meðal annars í gegnum þetta nefndarálit. Sveitarfélögin sjá þetta sem lið í því að bæta og efla þjónustu við fatlaða um leið að þau telja þetta lið í því að fá til sín öldrunarþjónustuna. Það getur vel verið að þessi þjónusta eflist þegar hún er komin til sveitarfélaganna. Ég fagna þessu sérstaklega um leið og ég hvet til þess að við sýnum samheldni í þá veru að fara saman í heildarendurskoðunina sem hefur verið kallað eftir um leið og við styðjum við félagsmálaráðuneytið og hæstv. félagsmálaráðherra í því að fara eftir tillögum frá Ríkisendurskoðun. Ég held að skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjónustu fatlaðra hafi verið mjög mikill áfellisdómur fyrir Samfylkinguna og félagsmálaráðherra hennar sem hafa ekki staðið vaktina eins og maður hefði haldið að þeir mundu gera. Í heildina séð tel ég að þær ábendingar sem félagsmálanefnd leggur fram séu mjög til bóta.

Við munum öll hafa vakandi auga með því hvernig málefnum Sólheima lyktar. Engu að síður er ég algerlega sannfærð um að yfirfærsla á málaflokknum í heild sinni til sveitarfélaganna er rétt. Ég tel sveitarfélögin vera burðug að getu til að taka við þessum mikilvæga málaflokki. Við sem þekkjum til fatlaðra einstaklinga, og þurfum í einhverjum mæli að sinna slíkum einstaklingum, vitum að það er betra fyrir einstaklingana sjálfa, og líka fyrir foreldrana og fjölskyldurnar, að nálgast þjónustuna hjá einum þjónustuaðila, einum ábyrgðaraðila. Ef rétt er á málum haldið verður þetta til hagsbóta fyrir einstaklinga sem eru fatlaðir og þess vegna skulum við áfram reyna að sýna samvinnu þingsins sem mest og best í verki með því að halda áfram að vinna að umbótum í málefnum fatlaðra um leið og við veitum hæstv. félagsmálaráðherra stuðning í því til framtíðar.