139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[14:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd undirrituðum nefndarálit og breytingartillögur með fyrirvara fyrir 2. umr. á þeirri forsendu að við töldum að það væri rétt að hafa í huga að til þess að slík rannsókn gæti farið fram sem mælt er fyrir um í tillögunni þyrfti að veita henni einhvers konar lagastoð. Í sjálfu sér er það ekki umdeilt að annaðhvort þurfa að koma til sérstök lög þar sem rannsóknarnefnd í þessu skyni eru veittar sérstakar heimildir eða að hér þarf að fara í gegn almennt frumvarp um rannsóknarnefndir Alþingis sem raunar liggur fyrir og er nú til meðferðar í allsherjarnefnd. Við höfum ekki athugasemdir um þá útvíkkun á þeirri rannsókn sem hér er um að ræða og munum því greiða atkvæði með tillögunni eins og hún lítur nú út við þessa umræðu.