139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[15:10]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að allt sem við afgreiðum í þessum málaflokki sé metnaðarfullt og tryggi örugga þjónustu fyrir alla sem hlut eiga að máli.

Um langt árabil, um áratugaskeið, hafa stjórnvöld og til að mynda Sólheimar í Grímsnesi oft og tíðum staðið í stappi. Það hefur ótrúlegt stríð átt sér stað á þeim vettvangi um þá starfsemi sem þar hefur byggst upp og er núna í fremstu röð í heiminum varðandi þjónustu við fólk með þá fötlun sem þar er um að ræða. Þess vegna flyt ég breytingartillögu. Það er ekki ágreiningur um að flytja verkefnið undir sveitarfélögin en það getur verið vandasamt að semja sig inn í þann farveg, sérstaklega fyrir ákveðnar stofnanir.

Sólheimar hafa þá sérstöðu að þeir eru í rauninni sveitarfélag og það kann að vera til fullmikils mælst að ætlast til þess að Sveitarfélagið Árborg þurfi að semja fyrir annað sveitarfélag í þessum málaflokki. Það kostar tíma, það kostar vinnu og það kostar mikið álag og er kannski ekki sanngjarnt þess vegna. Meðan það finnur sér farveg er álitamál hvort það sé e.t.v. betra að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga semji fyrir hönd sveitarfélagsins Sólheima inn í nýjan farveg og nýtt umhverfi. Það hefur enginn minnst á það svo ég viti að leggja eigi niður þjónustu Sólheima eða verkstýringu og þjónustu þeirra sem stjórna í Sólheimum og er sjálfseignarstofnun. Það eru allir á sama máli um það en klipið hefur verið af stofnuninni um skeið og það hefur háð þeirri stofnun umfram aðrar samsvarandi í landinu. Þess vegna legg ég fram breytingartillögu um að þrátt fyrir ákvæði laga þessara skuli Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vera heimilt að gera þjónustusamning við Sólheima ses. í samræmi við 6. gr. b laganna eftir því sem við á. Slíkur samningur skal ekki gilda lengur en til ársloka 2014 og fer jöfnunarsjóðurinn með hlutverk sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum eftir því sem við á, m.a. er varðar eftirlit með gæðum, þjónustu og kostnaði vegna hennar. Þetta er bráðabirgðaákvæði tímasett í skamman tíma til að brúa ákveðið bil í breyttri rekstrarstöðu hjá stórri einingu sem sinnir málefnum fatlaðra.

Það er ástæðulaust að hafa mörg orð um það í sjálfu sér. Í áliti félagsmálanefndar segir að tryggt verði að tekið verði tillit til stöðu Sólheima eins og hún er. Það ætti að gilda en samt er ekkert í þessum efnum fugl í hendi, það er fugl í skógi, eins og þar stendur. Það getur svo margt komið inn í myndina.

Sérstaða Sólheima er eftirfarandi: Allt frá því að baráttukonan Sesselja stofnaði Sólheima um 1930 hafa þeir verið þjónustuúrræði fyrir fatlaða á landsvísu, ekki svæðisbundið úrræði. Allir fatlaðir íbúar Sólheima eru fæddir utan sveitarfélagsins. Á Sólheimum búa 43 fatlaðir einstaklingar. Það er meira en helmingur allra þeirra fötluðu einstaklinga sem eiga að fá þjónustuna á Suðurlandi. Sólheimar eru elsta byggðahverfi í heimi sem veitir fötluðum þjónustu. Slík byggðahverfi eru nú á þriðja hundrað talsins. Sólheimar eru eina byggðahverfið á Íslandi sem er á alþjóðlegum grunni eða byggðahverfi með skilgreint hlutverk. Slík byggðahverfi skipta þúsundum í veröldinni.

Samkvæmt alþjóðlegum fræðiritum eru Sólheimar skilgreindir sem elsta ecovillage í heimi. Til Sólheima má rekja upphaf lífrænnar ræktunar á Norðurlöndum. Starf Sólheima byggir á nánu samfélagi fatlaðra og ófatlaðra sem deila kjörum hver með öðrum.

Virðulegi forseti. Það er undirliggjandi ákveðin tortryggni á breytingar hvað þetta varðar. Nefna má að Sólheimar hafa í kjölfar lagasetninga um málefni fatlaðra þurft að ganga í gegnum margs konar erfiðleika, ómælda erfiðleika, óvissu og oft kostnað sem verið hefur gríðarlega mikill og átök hafa verið mikil. Það er bakgrunnurinn. Þá má nefna til húsrannsóknir, bráðabirgðalög, frystingu á opinberum greiðslum, kröfur um grundvallarbreytingar á rekstrarformi og hugmyndafræði, bann við að taka nýja einstaklinga í búsetu, ágreining um skipulagsskrá, og þannig má lengi telja. Á það m.a. við um setningu fyrstu barnaverndarlaganna frá 1932, setningu laga um fávitahæli 1936, lög um þjónustu við þroskahefta 1979, og lög um málefni fatlaðra árið 1992. Sporin hræða og það er ekki skrýtið þegar um er að ræða svo viðamikið starf sem rekið er í Sólheimum, starf sem mörg lönd hafa tekið til fyrirmyndar. Þess vegna velti ég upp með þessari tillögu þeim möguleika að það kunni að vera skynsamlegra að ætlast til þess á millistigi í yfirfærslu til sveitarfélags að það gangi í gegnum jöfnunarsjóð sem vinnur ekki hefðbundið að svona málum að öllu jöfnu. En þó eru ýmis dæmi þess að jöfnunarsjóðurinn hafi gert samninga fyrir hönd sveitarfélaganna og um þau er að ræða í þessu tilviki. Það yrði gert til að létta þar af álagi og hlutum sem mundu kannski taka mjög mikinn tíma í vinnslu og framgöngu. Um það snýst þessi tillaga, virðulegi forseti.