139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[15:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég hef áður, í atkvæðagreiðslu um málefni tengd þessari yfirfærslu, gagnrýnt með hvaða hætti málið er komið inn í þingið. Vinnubrögðin eru ekki í samræmi við þingsályktunartillöguna sem við samþykktum 63:0 í haust og nefndin fjallaði um í nefndaráliti sínu.

Engu að síður hefur félags- og tryggingamálanefnd farið gaumgæfilega yfir málið, gert á því breytingar, sett inn ákveðna varnagla og ákveðna eftirfylgni með hvaða hætti þetta gengur allt saman fyrir sig. Að því ætlum við að vinna hörðum höndum. Þess vegna styð ég þetta mál. Við í nefndinni gátum sett okkar mark á það með hvaða hætti þetta fer allt saman fram. Ég hvet aðila sem starfa í þessum geira, sem vissulega eru órólegir vegna þess að miklar breytingar eru oft erfiðar, að líta á þetta sem tækifæri, tækifæri til að bæta þjónustu og tækifæri til að breyta. Vonandi gengur þetta allt saman vel. Að minnsta kosti munum við í félags- og tryggingamálanefnd fylgja málinu vel eftir.