139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Þá er komið að því að hækka skattana. Hér liggur fyrir frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum til 2. umr. Þar er að finna veigamestu ákvarðanirnar um hækkanir á sköttum, gjöldum og skerðingar á bótum á komandi ári, árinu 2011, til að unnt sé að uppfylla ákvæði fjárlaga um tekjur annars vegar og útgjöld ríkissjóðs hins vegar.

Sem kunnugt er liggur fyrir áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum til ársins 2013 sem kynnt var á Alþingi á árinu 2009 og er einn af lykilþáttunum í áætlun um efnahagslega endurreisn Íslands sem unnin er m.a. í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar er gert ráð fyrir því að gríðarlegum hallarekstri ríkissjóðs, 200 milljörðum kr., verði náð niður á tímabilinu og þegar á næsta ári náist frumjöfnuður í ríkisfjármálum. Til að ná þeim markmiðum var gripið til umtalsverðra aðgerða á tekjuhlið ríkisfjármálanna í sköttum og gjöldum á sl. ári sem tóku gildi í upphafi þessa árs. Þær hafa skilað mikilsverðum árangri í að draga úr hallarekstri og skuldasöfnun ríkissjóðs umtalsvert. Það má segja að í þeim aðgerðum sem gripið var til fyrir ári síðan hafi þunginn mestan part verið á tekjuhliðinni, þ.e. að afla nýrra tekna en fremur lítið á útgjaldahliðinni.

Nú hins vegar, í aðgerðum sem ráðist er í á yfirstandandi ári, er mun meiri áhersla lögð á að ná meira aðhaldi í ríkisrekstrinum á útgjaldahliðinni og því eru aðgerðir í tekjuöflun sem hér liggja fyrir mun minni en var á síðasta ári. Það er ánægjulegt að hér hafi tekst að hlífa tekjuskatti einstaklinga, virðisaukaskatti og öðrum helstu gjöldum sem leggjast á heimilin í landinu utan hvað krónutölugjöld hækka nokkuð samkvæmt frumvarpinu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækka fjármagnstekjuskatt úr 18 í 20% og ná með því í auknum tekjum ríkissjóðs á næsta ári 1,5 milljörðum kr. Þá er gert ráð fyrir að hækka tekjuskattsprósentu lögaðila úr 18% í 20% og ná með þeirri aðgerð 500 millj. kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að breyta eignaviðmiðunum í auðlegðarskatti þannig að hann nái til einstaklings með 75 millj. kr. í hreinni eign í stað 90 á yfirstandandi ári og hjóna með 100 millj. kr. í hreinni eign í stað 120 millj. kr. á þessu ári. Jafnframt að hækka auðlegðarskattsprósentuna úr 1,25%, í 1,5%. Það gefur tekjuauka upp á 1,5 milljarða kr.

Jafnframt er gert ráð fyrir því að hækkun á kolefnisgjaldi verði um helmingur. Þar fari viðmiðun í gjaldinu úr því að vera helmingur af markaðsvirði losunarheimilda í Evrópusambandinu í það að vera 75% af markaðsverðinu. Gert er ráð fyrir því að þær aðgerðir skili 1 milljarði kr.

Þá er í frumvarpinu að finna áform um vörugjöld á tóbaki, hækkun umfram verðlagsforsendur, og ný gjöld á áfengi og tóbaki í Fríhöfninni sem gefi í tekjur 600 millj. kr. Enn fremur að veitt verði sérstök heimild til úttektar á séreignarsparnaði 5 millj. kr. fyrir einstakling á næsta ári. Gert er ráð fyrir því að sú heimild verði nýtt að því marki að það skili 3 milljörðum kr. aukalega í tekjur í ríkissjóð. Hér er um að ræða skattaaðgerðir upp á um 9,2 milljarða kr. en auk þess er að finna í sjálfstæðum frumvörpum áform um tekjuaukningu upp á 1,2 milljarða kr. að auki. Það er svokallaður bankaskattur eða skattur á fjármálastarfsemi sem á að gefa 1,2 milljarða kr. í tekjuöflun í vörugjöldum og bifreiðagjöldum raunar sérstaklega. Þau frumvörp eru á dagskrá fundarins á eftir og verður nánar farið út í þau þá. Auk þess er gert ráð fyrir hækkun á krónutölugjöldum bæði á olíur og bensín og á áfengi og tóbaki sem eiga að skila um 780 millj. kr. í hækkunum á krónutölum í olíum og bensíni en hækkun á áfengisgjöldum 400 millj. kr.

Í frumvarpinu er sömuleiðis að finna ákvæði um hækkun á útvarpsgjaldi 140 millj. kr., vitagjaldi 10 millj. kr. og hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra sem skila mun 60 millj. kr. Frumvarpið nær jafnframt til vaxtabóta og þar var gert ráð fyrir nokkrum skerðingum en á þeim þætti hefur orðið breyting frá því að frumvarpið var lagt fram. Fyrst og fremst vegna samninga um aðgerðir til að mæta skuldavanda heimilanna og er ástæða til að fagna því. Frumvarpið gerði upphaflega ráð fyrir að það drægi úr vaxtabótum á komandi ári en með breytingartillögunum sem við flytjum við 2. umr. er aukið verulega í vaxtabæturnar. Ekki vanþörf á því í því ástandi sem nú er í skuldamálum heimila.

Þá er gert ráð fyrir því að tekjutengja allar barnabætur. Ótekjutengdar barnabætur voru teknar upp þegar allt lék sem mest í lyndi í ríkisfjármálunum fyrir örfáum árum síðan og því miður er nauðsynlegt að hverfa frá því nú. Það ásamt auknum tekjutengingum í barnabótunum veldur því að útgjöld til þeirra lækka úr liðlega 10 milljörðum kr. í liðlega 9 milljarða kr.

Þá voru upphaflega fyrirætlanir um aðgerðir í tengslum við Fæðingarorlofssjóð en horfið var frá þeim. Sömuleiðis var gert ráð fyrir því að ekki yrði af lögbundnum hækkunum á greiðslu ellilífeyris- og örorkubóta og þau áform standa. Hins vegar hefur verið ákveðið milli umræðna að gera þá breytingu að lágmarksframfærslufjárhæðin bæði hjá ellilífeyrisþegum og hjá öryrkjum hækki um 2,3%. Það mun hækka gólfið hjá hópunum sem minnst hafa sér til framfærslu um tæplega 50 þús. kr. á ársgrundvelli og leiða til þess að varið verði 200 millj. kr. meira til örorkulífeyris á næsta ári en ráðgert var og 150 millj. kr. meira til ellilífeyrisins.

Þá hef ég rakið að mestu leyti helstu atriði frumvarpsins og breytingarnar sem hafa orðið á því í meðförum nefndarinnar. Þær felast fyrst og fremst í því að fallið er frá áformuðum skerðingum á vaxtabótum. Heldur er aukið í vaxtabæturnar og nokkrar breytingar gerðar á tekju- og eignatengingum. Síðan er tekinn upp nýr flokkur vaxtabóta sem er almenn vaxtaniðurgreiðsla þó með skerðingum þegar um hreina eign er að ræða hjá fólki á bilinu 10–30 millj. kr. eftir því hvort um hjón eða einstaklinga er að ræða, frá upphafi til loka skerðingar. En þessar almennu vaxtabætur munu nema um 0,6% af fjárhæðinni sem nemur húsnæðisskuldum hlutaðeigenda. Þær leiða til umtalsverðra útgjalda eða um 6 milljarða kr. á næsta ári umfram það sem ráðgert var.

Aðrar breytingar sem hafa orðið í meðförum nefndarinnar er að prósentutalan sem ráðgerð var í álag á áfengi í Fríhöfninni hefur að ósk fjármálaráðuneytisins verið lækkuð því að upphaflega talan var röng. Hins vegar ákvað nefndin að verða ekki við ósk um að lækka prósentuálagninguna á tóbakið í Fríhöfninni og telur raunar að efast megi um að efnisrök séu til þess að leyfa yfir höfuð tollfrjálsan innflutning á tóbaki til landsins.

Þá er að tillögu ÁTVR staðnæmst við það að hækka álag á sterkum vínum um 1%. Verslunin bendir á að mjög hafi dregið úr sölu, einkanlega á vodka, á yfirstandandi ári sem nefndinni þykir benda til að hluti af neyslunni sé farinn að færast út úr kerfinu og yfir á svartan eða gráan markað. Skýrsla Félags atvinnurekanda um úttekt hvað þetta varðar sem kynnt var fyrir nefndinni við umfjöllun málsins styður það nokkuð. Taldi meiri hlutinn því rétt að verða við tillögu Áfengis- og tóbaksverslunarinnar í því ljósi.

Ég vil nefna að það hefur jafnframt verið framlengt ákvæði sem varðar frítekjumark öryrkja. Á árinu 2007 var ákveðið að gefa örorkulífeyrisþegum svigrúm til sjálfsbjargar og sjálfshjálpar með því að hækka verulega og margfalda frítekjumark þeirra og færa það í 100 þús. kr. á mánuði. Nefndin telur fulla ástæðu til að framlengja það og hefur borist ósk um það frá félagsmálaráðuneytinu. Sömuleiðis eru breytingar sem varða ívilnandi breytingar á greiðslu gjalda fyrir dvöl á hjúkrunarheimili sem sömuleiðis koma fram í breytingartillögunum við 2. umr.

Að öðru leyti vísast í nefndarálit á þskj. 570 og breytingartillögur í því sambandi.

Ég vil þakka hv. nefndarmönnum efnahags- og skattanefndar fyrir góða samvinnu og samstarf við úrvinnslu þessa máls. Það var seint fram komið á þinginu. Ég tel að við þá umræðu sem verður á þessu þingi um breytingar á þingsköpum sé full ástæða til að ræða hvort ekki eigi að kveða á um það í þingsköpunum að tekjuöflunarfrumvörpin, frumvörpin um nýja skatta, eigi að fylgja fjárlagafrumvarpinu ár hvert hinn 1. október í þingbyrjun. Þannig gæfist þinginu góður tími, liðlega tveir mánuðir, til að fara yfir slíkar breytingar enda mikilvægt að þær séu rýndar vel. Margir hagsmunaaðilar þurfa að koma þar að og mikilvægt að vel sé vandað til lagasetninga í þessu efni. Ég tel að nefndarmenn í hv. efnahags- og skattanefnd hafi lagt sitt af mörkum við að tryggja svo sem kostur er við þessar aðstæður. Það hafi tekist og þakka ég þeim kærlega fyrir góða samvinnu við þær sérkennilegu aðstæður að sitja yfir skattahækkunum úti í Austurstræti á meðan lúðrasveitir spila glaðleg jólalög fyrir utan gluggann.