139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir þau sjónarmið og er talsmaður þess sjálfur að skattumhverfi fyrirtækja verður auðvitað að vera með þeim hætti að það hvetji til fjárfestingar, en 20% skattur á hagnað fyrirtækja er engu að síður, þó að hann hafi verið hækkaður í það, ákaflega samkeppnishæfur. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að það er meðal þess sem var að finna í tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í skattamálum og hefur þó Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki legið undir ámæli um að reyna að koma í veg fyrir það almennt að lönd séu samkeppnishæf í uppbyggingu atvinnulífs, þannig að ég held að við séum sannarlega vel innan allra marka í því.

En þegar hv. þingmaður tekur tilvísun mína til annarra ríkja og segir að þar ríki jú stöðugleiki og þar séu lágir vextir og þess vegna sé fjárfestingin meiri þó að skattprósenturnar séu hærri, þá er það einmitt það sem við erum að keppast við, hv. þingmaður, það er að ná þessum stöðugleika. Hluti af því er að taka hraustlega á í ríkisfjármálunum og ná þeim stöðugleika í þeim sem löngum hefur skort og m.a. leggja þannig grunn að því að hér haldist verðbólga lág og vextir lágir. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta þegar menn skoða efnahagsþróunina í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að stýrivextir hafa farið mjög lækkandi, verðbólga hefur sömuleiðis farið mjög lækkandi og hvort tveggja verður að teljast vera komið í býsna viðunandi horf og við séum nú með aðstöðu til þess að spyrna okkur upp á við og reyna að ná fram á komandi ári vexti í efnahagskerfið á ný sem síðan aftur mun skapa nýjar tekjur fyrir ríkissjóð og vonandi gera sem allra minnst úr því að við þurfum að grípa frekar til hækkunar á sköttum og gjöldum á næstu árum (Forseti hringir.) en getum látið vöxtinn bera uppi aukna tekjuöflun.