139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi dæmi um tóbaksgjaldið. Það er algjörlega ljóst að viðvaranir okkar þar gengu nákvæmlega eftir. Mun minni tekjuskattur hefur innheimst en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu í fyrra. Það eru afleiðingar af því sem ég rakti áðan og er nákvæmlega í takt við þær viðvaranir sem við höfðum uppi.

Aftur á móti hefur vakið nokkra athygli að óbeinu skattarnir hafa haldist uppi. En út af hverju skyldu þeir hafa haldist uppi? Hvað voru margir milljarðar teknir úr sparnaði til að halda uppi neyslu með því að veita fólki aðgang að séreignarlífeyrissparnaðinum? Svo er aftur á móti annað mál að útflutningsgreinarnar hafa gengið alveg sérstaklega vel. Þær hafa gengið sérstaklega vel. Þaðan hafa komið tekjur, það er alveg hárrétt. Allar þær hrakspár sem við lögðum upp með í fyrra hafa ræst en það kemur ekki fram í bókhaldi ríkissjóðs nema þegar við förum að sundurgreina tölurnar. Það er vegna þess að við leyfðum aðgang að séreignarsparnaðinum og útflutningsgreinarnar hafa gengið betur en við lögðum upp með.

Það sem við sögðum fyrir ári stendur því eins og stafur á bók.