139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau lönd sem innheimta hóflega skatta, eins og hv. þingmaður kallar það, standa föstum fótum. Eigum við að fara aðeins yfir Evrópu? Eigum við t.d. að fara yfir hvað fjárlagahallinn í Bretlandi var í fyrra þegar við vorum að glíma við, hvað var það 5% eða 6% halla? Þá voru þeir að glíma við 14% halla. Eigum við að fara yfir til Spánar, Ítalíu, Danmerkur, (Gripið fram í: Bandaríkjanna.) Bandaríkjanna þar sem var 12% halli? Allt eru þetta ríki sem voru rekin með meiri halla en ríkissjóður á Íslandi þrátt fyrir að fjármálakerfið hefði hrunið hér — þrátt fyrir það.

Hv. þingmaður spyr hvort það geti verið að ég vilji líta til efnahagsstefnu þeirra ríkja sem hafa hrunið í kringum okkur, eins og Grikklands og Írlands. Ég sagði: Þau ríki sem verst hafa orðið úti, eins og Grikkland og Írland, vita að til þess að ná hagvexti af stað aftur þurfa þau að búa fyrirtækjunum gott efnahagsumhverfi sem þýðir lága skattbyrði. Ég rakti það nákvæmlega og fór yfir útreikninga sem sýndu fram á að hækkun fjármagnstekjuskatts og hækkun skatts á hagnað fyrirtækja á Íslandi mundi leiða til þess að arðsemi eða verðmæti hlutafjár lækkaði um 16%, sem leiddi til þess að arðsemin minnkaði sem því næmi, umsvifin minnkuðu, hagvöxturinn mundi minnka, tekjur ríkissjóðs mundu minnka og velferðin yrði verri en ella. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki einhverjar hagfræðikenningar, alls ekki, þetta eru bara einfaldir útreikningar sem allir eiga að geta fallist á. (Forseti hringir.)