139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir ágæta ræðu sem og hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ágæta yfirferð, og öðrum félögum mínum í efnahags- og skattanefnd. Það virðist fátt breytast í vinnubrögðum á Alþingi þrátt fyrir góðan vilja. Ég vil þó enn eitt árið reyna að standa í þeirri trú að vinnubrögðin hljóti að fara að breytast vegna þess að þeir bandormar sem við ræðum hér, þ.e. breyting á ýmsum lögum er snerta breytingar á skattumhverfi heimila og fyrirtækja, komu fram undir mánaðamótin nóvember/desember og nú er desembermánuður rétt hálfnaður. Það gefur ákveðna vísbendingu um á hvers konar hraða við í hv. efnahags- og skattanefnd þurftum að fara yfir þessa viðamiklu málaflokka. Við fengum frumvörp hér. Annar bandormurinn var heilar 58 greinar og fjallaði um 14 eða 15 ólíka lagabálka og að ætla einni þingnefnd að fjalla um svo umfangsmikil mál á jafnstuttum tíma og raun ber vitni hlýtur að fela það í sér að óhjákvæmilega verða gerð einhver mistök þegar slík vinnubrögð eru viðhöfð.

Þegar ríkisstjórn leggur fram fjárlagafrumvarp, væntanlega með ígrunduðum tekjuforsendum, sem er vanalega við upphaf þings í byrjun október á hverju ári, ætti að sjálfsögðu jafnhliða því að leggja fram fastmótuð frumvörp er snerta tekjuhlið frumvarps. Þannig fengi efnahags- og skattanefnd mun lengri tíma til að fara ítarlega yfir þau áform ríkisstjórnarinnar sem því miður hafa ekki staðist skoðun á undangengnum árum. Sú stefna sem ríkisstjórnin hefur rekið í efnahagsmálum hefur einfaldlega ekki gengið upp. Það eru ekki bara við sem skipum minni hlutann hér á þingi sem höfum ítrekað bent á það heldur hafa allir helstu hagsmunaaðilar í samfélaginu, greiningaraðilar, aðilar vinnumarkaðarins, bent á hið sama.

Það hefur nær aldrei verið eins mikill samhljómur og núna á milli ólíkra afla og hagsmunaaðila í íslensku samfélagi um að dæma efnahagsstefnu einnar ríkisstjórnar eins hart og raun ber vitni. Það er eiginlega alveg sama í hvaða umsögn maður flettir þegar kemur að umfjöllun um þetta mál, tónninn er því miður neikvæður og vinnubrögðin oftar en ekki gagnrýnd. Ég held að athugasemdir um samráðsleysi hafi sjaldan verið eins áberandi í umsögnum nefndar eða þeirra aðila sem komið hafa fyrir efnahags- og skattanefnd, það samráðsleysi virðist einkenna vinnubrögð ríkisstjórnarinnar þegar hún tekur ákvarðanir. (PHB: Í öllum nefndum.) Þannig er það víst í öllum nefndum, bendir hv. þm. Pétur Blöndal á, (PHB: Og líka í ríkisstjórninni.) og innan ríkisstjórnarinnar líka. Samráðsleysið háir okkur allverulega, því miður. Það bitnar á útkomunni.

Mig langar í fyrsta lagi að gera alvarlega athugasemd við að þegar frumvarpið var lagt fram var þjóðhagsspá Hagstofu Íslands um efnahagshorfur á árinu 2011 mun bjartari en endurskoðuð spá gerir ráð fyrir núna. Þá var gert ráð fyrir verðbólgu um 3,5%. Gert var ráð fyrir að hækka ýmis gjöld í samræmi við hækkun á verðlagi og því var gert ráð fyrir að þessi gjöld ættu að hækka um 4%.

Nú er hins vegar einungis gert ráð fyrir samkvæmt breyttum forsendum að verðbólga á næsta ári verði 2,3%. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að breyta ekki hækkun á gjaldaflokkunum, sem er 4%, þannig að verið er að hækka gjöld á heimili og atvinnulíf um 1,7% að raunvirði. Verið er að hækka álögur á heimilin sem því nemur, enda hefur komið fram hjá umsagnaraðilum með frumvarpinu að með þessum gjaldahækkunum sem áttu ekki að vera raunhækkun, eru skuldir heimilanna hækkaðar um 2,4–2,5 milljarða kr. Á sama tíma og ríkisstjórnin segir í hinu orðinu að hún ætli sér að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki í landinu, er gripið til þessara aðgerða. Þetta er svo sem ekki fyrsta árið sem þessi leikur er leikinn, heldur er það nú komið á þriðja ár þar sem heimili og fyrirtæki horfa upp á skuldir sínar hækka vegna þessara aðgerða.

Mig langar aðeins að fjalla um forsendur þessa frumvarps. Það er svo sem ekki gaman að vera sendiboðinn — ég verð vonandi ekki skotinn í þessari umræðu fyrir að vera sendiboðinn sem flytur þau válegu tíðindi að vegna slæmrar efnahagsstjórnar ríkisstjórnarinnar spáir Hagstofa Íslands því að hagvöxtur á næsta ári verði ekki 3,2% eins og þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram, heldur 1,9%. (Gripið fram í.) Þar munar 1,3%, og heyri ég að hv. þingmenn hvetja mig áfram við þessa ræðu, en ég vil fullvissa hv. þingmenn um að hér er af svo miklu að taka að ég þyrfti tvöfaldan tíma til að fara yfir þá efnahagsstefnu sem rekin er. Hér munar um 1,3% á hagvaxtarspánni milli sumarspárinnar og þeirrar sem nú er stuðst við. Það þýðir að það verður hátt í 20 milljörðum kr. minna úr að spila innan hagkerfisins en ella ef við miðum við að landsframleiðslan sé 1.600–1.700 milljarðar kr. Þetta er með bjartsýnni spám, en 20 milljarða kr. niðursveifla á milli áætlana gerir það að verkum að ríki og sveitarfélög verða af um 10 milljörðum kr. í tekjur aukalega. Þar fá sveitarfélögin 4 milljarða kr. og ríkið 6 milljarða kr.

Ef við tækjum hins vegar spá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að hagvöxtur á næsta ári verði einungis 0,7%. Þá er ekki um að ræða samdrátt upp á eina 20 milljarða kr. í hagkerfinu heldur 45–50 milljarða kr. Hver væri tekjusamdráttur ríkis og sveitarfélaga samkvæmt því? Hann gæti orðið 22–25 milljarðar kr. Það eru gríðarlega háar upphæðir sem mundu bitna allverulega á tekjuhlið þessara tveggja stjórnsýslustiga og er nú vandinn ærinn hjá mörgum sveitarfélögum í landinu, að við tölum ekki um skuldugan ríkissjóð.

Það er mjög lítið tillit tekið til þessara ábendinga og þess að stjórnarstefnan leiðir okkur nú á þær erfiðu brautir að tekjur ríkis og sveitarfélaga munu dragast saman hlutfallslega á næsta ári. Mig langar líka að vekja athygli á öðru sem er í sjálfu sér alveg fáránlegt, þegar fjárlaganefndin fjallaði um útgjaldahluta fjárlaganna fyrir árið 2011 var gert ráð fyrir að laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 0% á því ári. En þegar við í efnahags- og skattanefnd fjöllum hins vegar um tekjuáhrif fjárlaganna var gert ráð fyrir að laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 5%. Ríkisstjórnin reynir því í raun og veru að fegra frumvarpið sem því nemur með því að áætla að laun á almennum vinnumarkaði muni hækka um 5%, sem skilar sér þá í auknum skatttekjum, á meðan ekki er gert ráð fyrir að laun á opinbera vinnumarkaðnum hækki neitt. Hér er verið að fegra myndina, því miður. Við erum í erfiðum málum. Ég velti því fyrir mér hvort við séum að leika sama leik og Grikkir sem hafa verið sakaðir um að fegra stöðuna. Það bitnar óhjákvæmilega mjög illa á framtíðarkynslóðum okkar ef við þorum ekki að horfast í augu við þann raunveruleika sem blasir við.

Nú væri voðalega freistandi í þessu samhengi að ræða einnig Icesave-málið en í þeim frumvörpum sem við höfum rætt hér, í fjárlagafrumvarpinu sem hefur verið afgreitt, og ríkisstjórnarflokkarnir vilja afgreiða Icesave, er ekki gert ráð fyrir að ein einasta króna þurfi að falla á ríkissjóð vegna þess. Ef mönnum er svona mikil alvara með að þeir samningar verði staðfestir á þingi skulu menn ganga hreint til verks og bókfæra það, bæði á fjárlögum ársins 2010 og 2011, en það er ekki gert. Ég efast um að ef slíkt lægi nú í loftinu, ef stjórn fyrirtækis ætlaði sér að undirgangast slíkar skuldbindingar, að nokkur endurskoðandi fyrirtækis mundi hleypa slíkum reikningum í gegn að óathuguðu máli.

Hér er því miður verið að fegra myndina. Það er ekki gaman að tala á þessum nótum, en það er margt sem bendir til þess að sú sé raunin, því miður. Við höfum verið sökuð um það í minni hlutanum sökuð að vera svartsýnisfólk en við erum einfaldlega að benda á blákaldar staðreyndir. Við vorum líka sökuð um að vera svartsýnisfólk þegar við ræddum Icesave-samninginn hinn fyrri, svokallaðan Svavarssamning, og sagt að við skyldum nú fara að klára þá umræðu og samþykkja þá afarkosti sem þá voru uppi, en það var sem betur fer ekki gert.

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að samkvæmt áætlun ársins í fyrra áttu tekjur ríkissjóðs að skila 56 milljörðum kr. aukalega vegna þessara miklu skattahækkana. Nú höfum við fengið minnisblað frá Samtökum atvinnulífsins sem hafa tekið saman hverju hærri skattar hafa skilað á þessu ári. Reyndin er sú að hærri skattar hafa ekki skilað 56 milljörðum kr., eins og ríkisstjórnin ætlaði sér, heldur 29 milljörðum kr. Það vantar heila 27 milljarða kr. upp á áætlanagerð ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Það hlýtur að vekja stjórnarliða til umhugsunar um hvort við séum á réttri leið, og enn á að bæta í.

Ég vil, áður en ég held áfram að ræða um þá þætti sem við þurfum að bæta og getum bætt, nefna að það eru mikil tækifæri til þess að Ísland geti verið með fyrstu ríkjum upp úr þeirri efnahagslægð sem blasir við mörgum löndum. Við framsóknarmenn höfum lagt fram áætlanir okkar til þess að svo geti orðið. Mig langar aðeins, af því við erum oft rukkuð um stefnu og leiðir þótt við höfum oftar en tvisvar og þrisvar lagt slíkar tillögur fram á undangengnum tveimur árum, að ítreka þá stefnumörkun okkar framsóknarmanna enn eina ferðina.

Í fyrsta lagi viljum við auka þorskveiðar í landinu tímabundið til þess að skapa nokkur hundruð störf og fjármuni til þess að koma hjólum efnahagslífsins af stað.

Við viljum einnig skattleggja að hluta inngreiðslur séreignarlífeyrissparnaðar og nota það til ákveðinna verkefna.

Við viljum auka verkefni í vegagerð, smærri viðhaldsverkefni, endurbætur á gömlum brúm, og fleira mætti nefna í þeim efnum.

Við viljum líka örva erlenda fjárfestingu í stað þess að hafa andúð á slíkum fjárfestingum.

Við höfum talað fyrir því að lækka vaxtastigið í landinu. Íslenskt atvinnulíf er því miður lítt samkeppnisfært við það evrópska þó að vextir hafi lækkað mjög skarpt, vaxtastigið í mörgum Evrópuríkjum er um í kringum 0% á meðan fyrirtæki hér búa við margfalt hærri vexti í þeim efnum.

Við höfum ekki verið feimin við að tala fyrir því — ég sé að hv. þm. Þór Saari er kominn í umræðuna, og nú ætla ég að ræða um nýtingu á orkuauðlindunum. Við höfum talað fyrir því í Framsóknarflokknum að hófleg nýting á orkuauðlindunum með tilheyrandi fjölgun starfa gæti líka komið okkur fyrr út úr þeim efnahagsvanda sem við okkur blasir.

Því miður ríkir samkvæmt þessari upptalningu minni algjör kyrrstaða í öllum þessum málaflokkum. Þessi ríkisstjórn er svo sundurlaus og svo ósamstiga þegar kemur að mikilvægum framfaramálum að svo virðist sem einn einstakur ráðherra á hverju sviði innan ríkisstjórnarinnar geti stöðvað eða hindrað framgang margra mikilvægra framfaramála tímabundið þannig að atvinnuleysið minnkar ekki, kaupmáttur fólks lækkar og skuldirnar hækka, því miður. Það er í raun og veru allt í frosti þegar kemur að aðgerðum, hvort sem það er til að koma efnahagslífinu af stað eða til að móta tillögur til að koma fjölskyldunum í landinu út úr þeirri erfiðu stöðu sem við blasir, hvað þá smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

Ég held að miðað við þær dræmu undirtektir sem fjárlagafrumvarpið fékk í gær sé ríkisstjórnin því miður ekki á vetur setjandi. Það er brýnt og mikilvægt að menn fari að huga að nýjum leiðum, að annarri stjórnarstefnu, og hvort við getum verið sammála um að stjórnmálaflokkarnir á þingi komi sér saman um afmörkuð verkefni til þess að koma ákveðnum málum áfram en hökti ekki í sama hjólfarinu líkt og við höfum því miður gert á undangengnum mánuðum — og nú er maður farinn að telja það í árum.

Alþýðusamband Íslands bendir á að samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum muni kaupmáttur almennings rýrna um 1% á næsta ári. Sérstaklega hafa menn áhyggjur af meðaltekjufólki og fólki með lægri tekjur í þeim efnum. Öryrkjabandalag Íslands gagnrýnir norrænu velferðarstjórnina harðlega í umsögn sinni og í raun og veru virðist fátt standa eftir af þeim loforðum sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lofuðu almenningi í aðdraganda kosninganna árið 2009. Ég hefði getað fyrirgefið þeim að vera með óábyrgar yfirlýsingar í aðdraganda þeirra kosninga hefðu þau verið búin að vera þá í stjórnarandstöðu í þó nokkurn tíma. En staðreyndin var sú að hæstv. forsætisráðherra var forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra var fjármálaráðherra í aðdraganda þeirra kosninga. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra vissu nákvæmlega hver staða efnahagsmála var í aðdraganda þeirra kosninga. Staðreyndin er sú að þau miklu loforð sem stjórnarflokkarnir gáfu íslenskum kjósendum í aðdraganda kosninganna hafa verið svikin. Ég veit að orðið svik er stórt orð, en það stendur því miður ekki steinn yfir steini þegar kemur að þessu.

Mig langar líka að minnast á það hvernig við höfum staðið að því að breyta skattkerfi landsmanna á einu ári eða svo. Íslenska skattkerfinu var umbylt á hálfum mánuði fyrir síðustu áramót. Þvílíkur hraði var á frumvarpi um það grundvallarkerfi sem íslenska skattkerfið er að maður hefur ekki séð slíkan hraða á nokkru einasta frumvarpi áður. Þó var verið að tala um mjög umfangsmiklar breytingar, enda kom í ljós og hefur komið í ljós á þessu ári að efnahags- og skattanefnd hefur þurft að leiðrétta mörg mistök sem gerð voru í þeirri umræðu og á þeim breytingum sem gerðar voru. Þá var heldur ekki tekið tillit til margra athugasemda ólíkra aðila um þau áform sem ríkisstjórnin hafði um að breyta skattkerfinu. Aukið flækjustig hefur kostað okkur það að eftirlit með kerfinu hefur verið dýrara, fjárfestar hafa horft upp á tíðar og miklar breytingar á skattkerfinu, sem hefur leitt til þess að fjárfesting í íslenska hagkerfinu hefur minnkað. Reyndar hafa menn sagt sem horft hafa til fjárfestingar hér á landi að helsti dragbíturinn á slíkt sé einfaldlega óstöðugt umhverfi þegar kemur að skattamálum, óskýr stefnumótun og flókið skattkerfi sem ríkisstjórnin hefur verið að flækja allt of mikið á undangengnum mánuðum og árum.

Við höfum haft of stuttan tíma í efnahags- og skattanefnd til að fara yfir frumvarpið og átta okkur á heildarmyndinni sem verið er að boða með fjárlagafrumvarpinu og áætlanagerð er snertir tekjuhlið ríkissjóðs. Þar hef ég t.d. áhyggjur af einum hópi sem hefur því miður orðið út undan í allri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, en það er fólk sem býr á köldum svæðum á landsbyggðinni. Við höfum rætt það á þingi. Þarna á ég ekki við örfáar manneskjur, um er að ræða 11.000 heimili. Svo við förum yfir þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur gert gagnvart íbúum á þessum svæðum er gripið til nokkurra íþyngjandi aðgerða gagnvart því fólki sem býr í hinum dreifðu byggðum. Ég vek athygli á því að um leið tala fulltrúar þessarar ríkisstjórnar um að veita eigi fólki jöfn lífskjör í landinu.

Ég vil nefna í fyrsta lagi að orkureikningar fólks á þessum svæðum munu hækka um nokkur þúsund krónur á næsta ári vegna þess að niðurgreiðslur hafa lækkað og menn hafa afnumið sérstakan afslátt af virðisaukaskatti til þessara svæða sem orkufyrirtækin þurfa nú að greiða. Það er til viðbótar við að þessi heimili borga tvisvar sinnum hærri orkugjöld fyrir að hita húsnæði sitt en fólk á suðvesturhorni landsins. Eru það jöfn lífsgæði í landinu? Nei, svo er ekki.

Í annan stað er verið að hækka enn á ný verð á olíu og bensíni. Ég vil að minna á að fólk á þessum svæðum borgar 33% meira í rekstur á bifreiðum en fólk á suðvesturhorni landsins. Þarna er enn verið að auka á ójöfnuðinn.

Í þriðja lagi vil ég nefna að verið er að skerða um 400 millj. kr. af framlagi til Flutningssjóðs olíuvara. Ég rifja það upp að fyrir um tveimur árum þegar til stóð að leggja þann sjóð niður lét ég reikna út að það hefði kostað að bensínlítrinn á Þórshöfn hefði hækkað um 5–6 kr. Nú er verið að skerða framlög til þessa jöfnunarsjóðs um 400 millj. kr., sem mun þýða að verð á olíu og bensíni á þessum stöðum mun hækka enn frekar. Ég bendi á að fyrir borgaði fólk á þessu svæði rúmlega 30% meira við rekstur bifreiða sinna en fólk á suðvesturhorni landsins.

Og enn ætlar ríkisstjórnin að auka á þann ójöfnuð, nú gagnvart 11.000 heimilum, 36.000 Íslendingum. Maður fer að velta því fyrir sér hvort á þessum svæðum búi annars flokks fólk. Hvers lags stefnumörkun er þetta gagnvart einum þjóðfélagshópi í landinu sem á þess ekki kost að búa við heitt vatn, heldur þarf að nota rafmagn til að kynda húsnæði sitt? Við tölum um mannréttindi á Íslandi í dag. Ef það eru ekki mannréttindi á Íslandi í dag að það sé álíka mikill kostnaður fyrir alla landsmenn að kynda húsnæði sitt, þar sem oft getur nú orðið kalt á veturna, þá veit ég ekki hvað grundvallarmannréttindi eiga að snúast um. En maður heyrir það svo sem frá þjóðum í Austur-Evrópu að þar hefur fólk ekki efni á að kynda hús sín á veturna og jafnvel lætur lífið fyrir vikið. Ég vona að við séum ekki að fara einhverja austur-evrópska leið með þessari stefnumörkun. Ég hafna því algjörlega hvernig ríkisstjórnin kemur fram við fólk á þessum svæðum.

Frú forseti. Það er jákvætt — nú er ég kominn að þeim kafla í ræðu minni — að ríkisstjórnin skyldi hafa ákveðið að verja 6 milljörðum aukalega í vaxtabætur til að létta undir með skuldugum heimilum í landinu. En þessari spurningu þarf að svara: Hver á að greiða fyrir þessa 6 milljarða? Verða það lífeyrissjóðir, bankar, eða verða það skattgreiðendur á endanum? Ég hefði viljað fá það á hreint í þessari umræðu og áður en þing fer heim hvernig menn ætla að standa að þeim málum, en vissulega er það jákvætt að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið í samráði við banka og lífeyrissjóði að verja fjármunum til skuldugra heimila. Þar með er nú öll sagan sögð. Við höfum óskað eftir því að komið verði frekar til móts við heimilin í landinu og að menn taki sér tak og hefji átak til að endurskipuleggja rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem nú er sem betur fer reyndar að hefjast, en því miður ganga þessi verk allt of hægt.

Mig langar samt í því samhengi að minna á að á síðustu 12 mánuðum hefur samkvæmt könnun Hagstofu Íslands annað hvert heimili átt erfitt með að ná endum saman. Ef lán heimilanna verða hækkuð með þessum gjaldahækkunum um 2,4–2,5 milljarða kr., ef ráðstöfunartekjur heimilanna skerðast um rúmt 1% á næsta ári, eins og Alþýðusamband Íslands hefur bent á, verður róðurinn erfiður og þungur hjá mörgum heimilum í landinu á næsta ári. Sá róður verður síst léttari en á árinu 2010.

Mig langar líka að rifja það upp að önnur hver fjölskylda í landinu sem átt hefur erfitt með að láta enda ná saman á síðustu 12 mánuðum, hefur trúlega líka gengið á séreignarlífeyrissparnað sinn, sem er líklega uppurinn á mörgum stöðum í dag.

Maður veltir því fyrir sér hvað tekur þá við. Það er því miður staðreynd að þessi ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð hefur ekki tekið stöðu beint með heimilunum heldur hefur hún ákveðið að verja sérstaklega fjármagnseigendur í landinu á meðan lítið tillit er tekið til skuldugra heimila. Áfram er haldið með því að hækka gjöld og skatta á heimili, á fyrirtækin í landinu, þrátt fyrir að við búum við gríðarlegt atvinnuleysi. Þegar hv. stjórnarliðar koma hér upp og guma af því að atvinnuleysi sé ekki eins mikið og menn hafi búist við, gleyma þeir að gera ráð fyrir því að 10 Íslendingar hafa flutt úr landi á degi hverjum síðustu mánuðina. Þess vegna er atvinnuleysi kannski ekki eins mikið og búist var við. En er það jákvætt? Er það jákvætt að ungt fólk hér á landi og jafnvel fólk á öllum aldri sjái ekki lengur tækifæri til að framfleyta sér og sínum með því að vinna í heimalandi sínu, heldur neyðist til að flytja til útlanda og vinna til að sjá sér og sínum fyrir framfærslu? Það er ekki jákvætt. Ef menn telja að það sé jákvætt að atvinnuleysi hafi minnkað vegna þess er það einfaldlega kolrangur hugsunarháttur sem ég vona að við komum losum okkur við, vegna þess að við viljum einmitt ekki sjá á að fólk flýi land.

Við verðum að breyta um kúrs, eins og ég hef rakið í ræðu minni, því að sjaldan hafa verið eins afdráttarlausar umsagnir um tekjuhlið fjárlaga og núna, skilaboð frá Alþýðusambandi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins. Ef við horfum á hagvísa og þær spár sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Hagstofa Íslands, Íslandsbanki og fleiri hafa gert, er það allt á einn veg: Sú stefna í ríkisfjármálum og hagstjórn sem rekin er hér á landi gengur einfaldlega ekki upp. Það gengur ekki að hækka enn frekar skatta og gjöld og á skuldugustu heimili í heimi sem eru hér á landi, að hækka álögur á skuldugt atvinnulíf og skera niður með blóðugum hætti. Ríkisstjórnin horfir ekki til þriðju leiðarinnar sem er að auka verðmætasköpun í samfélaginu, koma framkvæmdum af stað, auka fjárfestingu með framkvæmdum og aðgerðum sem ýta undir slíkt. Þvert á móti er stefnan sú, og hún hefur verið það í reynd, að nú er lítill vöxtur í íslensku atvinnulífi. Ég hef heyrt í mörgum sem starfa á verktakamarkaðnum og hjá smiðum og iðnaðarmönnum sem segja að horfurnar séu því miður ekki allt of góðar. Vonandi getum við breytt því í samvinnu á þingi. Ég held að þessi ríkisstjórn hafi fengið nægan tíma til þess að sanna sig. Það er alveg ljóst að með því frumvarpi sem við ræðum hér, og nýlega samþykktu fjárlagafrumvarpi sem samþykkt var með naumindum í þinginu, verðum við að breyta um stefnu. Það sjá allir í samfélaginu nema hæstv. ríkisstjórn. En vonandi munu stjórnarliðar og hv. þingmenn sem eiga eftir að taka þátt í þessari umræðu taka undir með þeim umsagnaraðilum sem gagnrýnt hafa stjórnarstefnuna harðlega. Reyndar gera nokkrir einstaklingar innan þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs verulegar athugasemdir við þessa efnahagsstefnu. Ég trúi ekki öðru en einhverjir þingmenn í Samfylkingunni hafi svipaðar skoðanir.

Að því sögðu, og það hljómar kannski dálítið skringilega eftir allan þennan lestur, þakka ég fyrir gott samstarf í nefndinni. Það hefur verið ágætt en stefnan er alveg hrikaleg. Stefnan er ósanngjörn þar sem ekki er komið til móts við almenning sem lenti í því að skuldirnar stökkbreyttust og fólk missti atvinnuna í miklum mæli. Það er ekki honum að kenna að hér varð hrun haustið 2008. En því miður hefur ríkisstjórnin ekki komið til móts við þetta fólk sem ber enga ábyrgð á því að hér varð forsendubrestur og efnahagshrun. (Forseti hringir.) Við erum því miður að fara í þriðja árið án þess að gripið sé til nokkurra almennilegra (Forseti hringir.) aðgerða fyrir það fólk.