139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þeirri nálgun hv. þm. Birkis Jóns að ekki beri að skattleggja aukalega landsbyggðina fremur en höfuðborgarsvæðið. (Gripið fram í.) Ég tel hins vegar að allir þurfi að leggja sitt af mörkum. Það útfærist með þeim hætti að álögur á t.d. jarðefnaeldsneyti muni aukast. Vissulega horfum við fram á það að aukningin í skattálögum mun þá koma niður á þeim sem keyra mest og það eru kannski þeir íbúar sem búa í hinum dreifðari byggðum en fram hjá því er því miður ekki komist að þessu sinni.

Hvað varðar köldu svæðin veit ég ekki betur en að á vettvangi iðnaðarnefndar hafi verið samþykkt að styrkja endurgreiðslur til þeirra sem hita húsin sín með öðrum hætti en hitaveitu og þannig er verið að koma til móts við það sjónarmið að það sé mun dýrara að hita hús með öðrum hætti.

Mig langar hins vegar að velta því upp að þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn leggur fram um hvað annað mætti gera finnast mér hins vegar snúast allt of mikið um að fresta því að taka á vandanum eins og hann er í dag og taka lán hjá framtíðinni, eins og t.d. að skattleggja séreignarsparnaðinn, auka fiskveiðiheimildir og nýta orkuauðlindir. Hv. þingmaður veit (Gripið fram í.) að sá sem hér stendur hefur barist fyrir því að við reynum t.d. að ljúka Icesave-málinu til að við getum fengið erlenda fjárfestingu inn í atvinnulífið og farið að nýta betur auðlindir okkar. Það er alveg kristaltært að sá sem hér stendur mun standa með hv. þingmanni í því verkefni.

Hins vegar er ekki hægt að beina því til ríkisstjórnarinnar að lækka stýrivexti Seðlabanka Íslands enn frekar, (Gripið fram í.) ég tel nefnilega að við eigum ekki að hlutast til um það í þessum sal hverjir stýrivextir Seðlabankans eru. (Gripið fram í.)