139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er dæmalaust að heyra rökstuðning fulltrúa ríkisstjórnarinnar í þessari umræðu, að menn séu að taka lán í framtíðinni með því að skattleggja inngreiðslur í séreignarlífeyrissparnaðinn. Hafa menn ekki verið að gera það núna síðustu tvö, þrjú árin með því að leyfa íslenskum almenningi að taka út séreignarlífeyrissparnað sinn sem menn annars hefðu ekki fengið að óbreyttum lögum og íslenskur almenningur er þannig að borga skatt af þeim greiðslum? Erum við ekki með sama hætti að taka lán í framtíðinni með því? Röksemdafærsla ríkisstjórnarinnar í þessu máli gengur einfaldlega ekki upp.

Þegar hv. þingmaður talar um réttlæti í þessum efnum hafa menn einfaldlega gengið allt of langt og eru komnir langt fram úr sér í þeim efnum að hækka álögur og skatta á almenning. Á sama tíma ráðast menn í stórfelldar tekjutengingar á barnabótum og vaxtabótum. Við erum að lenda í sama árferði og fyrir 10 til 12 árum þegar jaðarskattarnir höfðu þau áhrif að fólk hafði engan ávinning af því að afla sér almennilegra tekna heldur unnu menn og gáfu upp daglaunin sín, iðnaðarmenn, og fóru síðan í svarta vinnu og gáfu slíkt ekki upp, enda borgaði sig ekki fyrir menn að vinna í slíku umhverfi. Viljum við innleiða aftur slíkt kerfi sem við vorum komin út úr? Einhvers staðar er sá gullni meðalvegur sem við þurfum að feta. Því miður er ríkisstjórnin komin langt út af brautinni í þessum efnum.

Ég tók svo eftir því að hv. þm. Magnús Orri Schram svaraði ekki þeirri spurningu minni hvort hann teldi ekki, fyrst hann og samherjar hans vilja klára Icesave-samninginn, að verið væri að gefa villandi mynd af stöðu ríkissjóðs með því að bókfæra ekki áætlaðar greiðslur á fjáraukalögum ársins 2010 og fjárlögum ársins 2011. Það er einfaldlega ekki (Forseti hringir.) verið að gefa upp rétta heildarmynd af stöðu ríkissjóðs.