139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það átta sig allir á því að það þarf að taka á í ríkisrekstrinum en við sjálfstæðismenn höfum lagt fram efnahagstillögur okkar, valkost okkar við leið ríkisstjórnarinnar en leið ríkisstjórnarinnar byggist á skattahækkunum. Við sjálfstæðismenn höfnum þessari leið og teljum nægar álögur nú þegar fyrir hendi af hálfu ríkisins á heimili landsins. Við teljum að hægt sé að fara aðrar leiðir og höfum lagt fram ítarlegar tillögur um það sem ég hvet hv. þingmenn sem og landsmenn alla til að kynna sér. Við verðum nefnilega að skapa þær aðstæður hér í samfélaginu að fólk geti bjargað sér og við gerum það best með því að skapa þær aðstæður að fólk fái vinnu, að fólk geti unnið án þess að allar þær umframtekjur sem þannig verða til fari til ríkisins. Við verðum að hafa þannig áhrif á fólk og þá sem eru hér úti að menn séu ekki að vinna svart.

Þessi framtíðarsýn vinstri flokkanna, sem birtist okkur í tillögum þeirra um tekjuöflun ríkisins, hefur því miður þau áhrif að við erum að stefna hlutum á verri veg. Það er miður vegna þess að nú ríður á að við tökum höndum saman hér í þinginu og veitum heimilunum í landinu og fólkinu í landinu von með því að sýna fólki fram á að hér sé björt framtíð, með því að sýna íbúum landsins fram á að það sé hægt að byggja hér upp þær aðstæður að við getum vaxið út úr þessari kreppu. Það á að vera markmið okkar allra.

Við sjálfstæðismenn höfnum því skattahækkunaráformum ríkisstjórnarflokkanna og munum ekki leggja til að við skattleggjum okkur út úr kreppunni. Það er ekki leiðin, þvert á móti, við eigum að hvetja fólk til að vinna, við eigum að skapa þær aðstæður að hægt sé að skapa fleiri störf þannig að fólk geti aflað sér meiri tekna og geti með eigin framtaki notið ávaxta eigin erfiðis og bjargað sér sjálft. Það er það sem hver og einn Íslendingur vill og við eigum að skapa þær aðstæður.

Það vekur sérstaka athygli mína í þessum tillögum að lagt sé til að hið nýja kolefnisgjald, sem varð til fyrir ári, eigi að hækka jafnmikið og raun ber vitni. Það má svo sem taka mörg dæmi um vondar hugmyndir vinstri flokkanna í skattahækkunaráformum en þetta er ein sú versta vegna þess að um er að ræða aukna skattlagningu á fljótandi eldsneyti úr jarðefnum sem fjölskyldur nýta til að keyra heimilisbílinn, aka börnum til og frá skóla og í tómstundir o.s.frv. Jafnframt hafa Neytendasamtökin vísað til þess að skattlagningin bitnar ekki aðeins hart á neytendum í formi hærra verðs heldur einnig í formi þyngri greiðslubyrði af verðtryggðum lánum. Það er eins og menn hafi misst sjónar af heildarmyndinni og hafi engar hugmyndir. En þar sem vinstri flokkarnir hafa engar hugmyndir geta þeir einfaldlega seilst í banka okkar sjálfstæðismanna og kíkt á okkar tillögur. Það er til önnur leið, sú leið gefur heimilunum og fólkinu í landinu von og ég hvet menn til þess að kynna sér þær betur og láta þær verða ofan á.