139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem er til umræðu, svokallaður bandormur um ráðstafanir í ríkisfjármálum, hefur ekki batnað neitt sérstaklega mikið frá því að við ræddum hann við 1. umr. Mér sýnist að í meginatriðum séu áform um skattahækkanir sem finna mátti í upphaflegu frumvarpi fjármálaráðherra hér enn þá og enn er gert ráð fyrir skattahækkunum sem hæstv. fjármálaráðherra lagði til. Eins og rifjað var upp við 1. umr. málsins er um að ræða fjárhæð sem á að ná í ríkissjóð með þessum aðferðum sem er ekkert tiltakanlega há í samhengi ríkisfjármálanna. Hins vegar er um að ræða viðbót við afar miklar og víðtækar skattahækkanir sem áttu sér stað á síðasta ári.

Á síðasta ári beitti hæstv. ríkisstjórn sér fyrir verulegum skattahækkunum bæði um mitt sumar, í júnílok, og eins í desember. Hér er þriðji þátturinn í þessum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar, þriðja hrinan. Þegar áhrif allra þessara skattahækkana eru tekin saman er um umtalsverð áhrif að ræða. Auðvitað skila skattahækkanirnar einhverju í ríkissjóð en ég óttast hins vegar að skaðinn af skattahækkunum sé töluvert meiri þegar upp er staðið. Skaðinn birtist í mörgu. Skaðinn birtist í því að skattahækkanirnar hafa þau áhrif að slæva efnahagslífið, slæva atvinnulífið á tímum þegar við þyrftum að örva það. Skattahækkanir eru ekki leiðin sem vænleg er til þess að efla fjárfestingu, hvetja menn til þess að ráðast í ný verkefni, ráða í fleiri störf eða stuðla með öðrum hætti að uppbyggingu atvinnulífsins. Skattahækkanir verka akkúrat öfugt.

Á sama tíma hefur hæstv. ríkisstjórn, eins og allir aðrir aðilar í samfélaginu, uppi góð orð um að það þurfi að koma atvinnulífinu aftur af stað og það þurfi að koma hagvexti af stað. Við þurfum að lyfta okkur upp úr lægðinni sem íslenskt efnahagslíf er í. Þá eru aðgerðir ríkisins og ríkisstjórnarinnar í skattamálum til þess fallnar að halda okkur á botninum en ekki til þess fallnar að koma okkur upp úr lægðinni.

Það má alveg, hæstv. forseti, rifja upp hvaða skattar hafa verið hækkaðir. Það má alveg rifja það upp þannig að við sjáum þetta í samhengi ef við getum áttað okkur á því að breytingarnar sem lagðar eru til eru viðbót við gríðarlegar hækkanir sem átt hafa sér stað á síðustu 18 mánuðum. Ég ætla bara að rifja það upp í örstuttu máli.

Í júní á síðasta ári var tryggingagjald hækkað. Það var tekið upp nýtt skattþrep á hærri tekjur, eins og það var kallað. Fjármagnstekjuskatturinn var hækkaður. Það var ákveðin tilfærsla innan virðisaukaskattskerfisins sem fól það í sér að ýmsir vöruflokkar voru færðir í hærra skattþrep. Það voru tekin upp vörugjöld á ýmsar vörutegundir sem áður höfðu verið aflögð og hækkun á gjöldum á öðrum vöruflokkum. Til viðbótar við þetta voru gerðar tæknilegar breytingar og ýmsar aðrar breytingar sem í heild áttu að leiða til hærri skattgreiðslna.

Í desember á síðasta ári var höggvið í sama knérunn og raunar gengið miklu lengra. Þá var tekjuskattur einstaklinga hækkaður, tekjuskattur fyrirtækja hækkaður. Það var ákveðin hækkun á fjármagnstekjuskatti. Tekinn upp nýr skattur, svokallaður auðlegðarskattur. Tekinn upp nýr skattur sem kallaður var kolefnisgjald og skattur á heitt vatn og raforku. Það var hækkun á olíugjaldi. Hækkun á vörugjöldum af bílum. Hækkun á bifreiðagjöldum. Hækkun á sköttum á áfengi og tóbaki. Hækkun á virðisaukaskatti sem leiddi til þess, bara svo að það sé rifjað upp, að við erum með ef ekki það hæsta þá eitt af hæstu virðisaukaskattsþrepum í hinum vestræna heimi. (Gripið fram í.) Hæsta í heimi, segir hv. formaður efnahags- og skattanefndar stoltur. Við erum best í heimi á einhverju sviði. Og enn voru hækkuð vörugjöld.

Nú erum við að tala um enn frekari hækkun á fjármagnstekjuskatti. Hækkun á tekjuskatti fyrirtækja. Hækkun á auðlegðarskatti og lækkun á viðmiðunarmörkum. Það er tvöföldun á erfðafjárskatti. Hækkun á áfengi og tóbaki. Hækkun á kolefnisgjaldi. Hækkun á bílasköttum og svo, eins og kemur síðar til umræðu, nýjan skatt á fjármálastofnanir. Það hefur því verið gengið býsna langt á þessu sviði.

Kjarninn í því sem ég vildi sagt hafa um þessi mál, hæstv. forseti, er að það má ræða einstaka skatta og gagnrýna þá í þessu samhengi fram og til baka. Það hefur verið gert ágætlega í umræðum í dag og er reifað ágætlega í áliti hv. þingmanna Tryggva Þórs Herbertssonar og Péturs H. Blöndals í nefndaráliti þeirra í 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar. En það sem ég vildi leggja áherslu á við þessa umræðu, hæstv. forseti, er að ríkisstjórnin gengur sífellt lengra í skattahækkunum. Gengur sífellt lengra í að leggja álögur á borgarana í landinu, heimilin og fyrirtækin. Þegar allar þessar skattahækkanir á atvinnulíf og heimili í landinu eru skoðaðar sjáum við að þetta eru aðgerðir sem eru til þess fallnar, því miður, að tefja verulega fyrir efnahagslegri endurreisn Íslands.

Það er það sem ég óttast, hæstv. forseti. Ef við gefum okkur að spár séu réttar um að við séum u.þ.b. á botninum í efnahagslægðinni þá óttast ég að þessar skattalegu aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar hér á Alþingi séu til þess fallnar að gera okkur miklu erfiðara að losa okkur upp úr stöðunni. Það geri það að verkum að við náum ekki þeirri viðspyrnu sem við þurfum. Þetta eru aðgerðir sem eru líklegar til þess að letja einstaklinga og fyrirtæki til fjárfestinga í atvinnustarfsemi á tímum sem við þyrftum einmitt á aukinni fjárfestingu að halda. Þetta eru aðgerðir sem eru letjandi í sambandi við að fyrirtæki stækki, ráði til sín fleira fólk og efli þannig atvinnulífið. Þetta eru aðgerðir sem því miður gera það að verkum að atvinnulífið og efnahagslífið nær sér trúlega miklu seinna á skrið en annars hefði verið von til. Eins og bent hefur verið á í umræðunni í dag eru þetta aðgerðir sem gera það að verkum að tekjustofnar ríkisins ná sér síðar á strik en ella væri. Það er gömul saga og ný að það sem fyrst og fremst styður við velferðarkerfið og önnur sameiginleg útgjöld okkar í gegnum ríkiskerfið er öflugt atvinnulíf, öflugur hagvöxtur, góð atvinnuþátttaka og góð launakjör. Það er velta í samfélaginu sem skilar sér í ríkissjóð. Ef skattstefnan leiðir til samdráttar í tekjustofnunum er alveg sama hvað menn fara hátt með skatthlutföllin. Þegar til lengri tíma er litið mun það skerða tekjur ríkissjóðs en ekki auka þær.