139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í Smugunni í gær var höfð eftir mér og birt ræða sem ég flutti hér í gær í atkvæðaskýringu. Ég ætla, með leyfi frú forseta, að lesa hana:

„„Fjármálaráðherra leggur til hækkun skatta og niðurskurð, dofa, deyfð og vonleysi,“ sagði Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins en hann gerði stormandi lukku við fjárlagaumræðuna þegar hann mælti fyrir breytingartillögu sjálfstæðismanna sem gengur út á það að skattleggja séreignarlífeyrissparnað. Pétur sagðist mjög ánægður með þessa tillögu. „Þarna er verið að gera okkur kleift að komast úr þeirri kreppu sem núverandi ríkisstjórn hefur komið þjóðinni í.“ Þegar þarna var komið sögu drukknuðu orð þingmannsins í hlátrasköllum og honum gafst varla tækifæri til að ljúka við atkvæðaskýringuna.“

Hvað segir þetta mér, frú forseti? Þetta segir mér það að ríkisstjórnin ber ekki ábyrgð á því sem hún er að gera. Hún er ekki tekin við enn þá. Hún er enn þá að vísa í það sem fyrri ríkisstjórn gerði fyrir tveim, þrem eða fjórum árum. Hún er ekki búin að taka við. Þá hlær hv. varaformaður fjárlaganefndar af því að hann skilur þetta ekki heldur. Hann veit ekki enn þá að hann er búinn að taka við. Ráðstafanirnar sem hann er búinn að gera og hans ríkisstjórn — hann er nú í símanum og hefur ekki tíma til að hlusta á þessa umræðu. Ráðstafanirnar sem ríkisstjórnin hefur gert eru þegar farnar að virka mjög illilega, frú forseti.

Það er nefnilega ekki sama hvernig brugðist er við kreppu eða hruni, það er ekki sama. Þessi ríkisstjórn hefur gert hluti sem eru skelfilegir og menn eru ekkert að bera ábyrgð á því vegna þess að þeir halda að þeir séu enn þá í hruninu. En þeir eru búnir að skapa nýja kreppu vegna þess að þeir brugðust rangt við hruninu. Þeir hafa nefnilega farið þá leið að ætla sér að skattleggja. Á því augnabliki þegar heimili og fyrirtæki eru löskuð ætla þeir að skattleggja. Og þeir skattleggja og skattleggja og halda áfram að skattleggja.

Hvað gerist, frú forseti? Það er ekkert að gerast neins staðar. Það er lítil fjárfesting, hún er í sögulegu lágmarki að mér skilst. Fjárfesting sem á að skapa atvinnu er í sögulegu lágmarki og menn virðast ekki hafa neinar einustu áhyggjur af því, frú forseti. Það er eins og hv. stjórnarliðum sé bara nákvæmlega sama. Þeir trúa því að þetta sé allt í góðum gír. Menn tala um að ná í skatta til almennings af því að hann er svo göfugur og ætlar að gefa ríkissjóði peninga til að laga stöðuna.

Hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarliðar þurfa að átta sig á því að þeir eru í ríkisstjórn. Ráðstafanir sem þeir gera hafa áhrif og þeir bera ábyrgð á þeim. Þeir bera ábyrgð á því að þeir eiga að horfa á. Hvernig virkar þetta, hvernig kemur þetta út? Þeir ættu að horfa á merkin sem eru augljós og blasa við öllum sem þekkingu hafa til. Þau blasa t.d. við atvinnulausum sem fá ekki vinnu. Langtímaatvinnuleysi er skelfilega hátt, frú forseti. Þau blasa við í brottflutningi þar sem auðlind þjóðarinnar er að fara úr landi. Þau blasa við í minni fjárfestingum en við höfum séð og þau blasa við í minni hagvexti en búist var við, miklu minni hagvexti.

Við stefnum í stöðnun, held ég. Ég ætla að vona að það sé ekki rétt en við erum að stefna í stöðnun, frú forseti. Það yrði skelfilegt ef við lentum í langtímastöðnun, segjum 10–15 ár. Endalaus brottflutningur fólks úr landi. Eftir sitja öryrkjar og aldraðir og sífelldar hækkanir á sköttum en lækkanir, skerðingar á bótum og velferðarkerfinu sem getur verið niðurstaðan. Ég ætla að vona að það verði ekki svona en ég óttast það og þetta er akkúrat það sem ég óttast, frú forseti.

Skoðum þessi þrjú nefndaráliti sem við ræðum og þá aðallega þetta frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar, frú forseti. Það er mjög merkilegt. Þar er fjallað um umfjöllun nefndar. Fyrst er lýst frumvarpinu frá stjórnarmeirihluta eins og venja er og síðan kemur umfjöllun nefndarinnar.

Þar er sagt:

„Talsmenn atvinnulífsins héldu því fram á fundum nefndarinnar að tekjuöflunaráform frumvarpsins hefðu neikvæð áhrif á endurreisn atvinnulífsins.“

Svo tala þeir enn þá illa um þetta.

Síðan kemur áfram:

„Gagnrýnd voru þau ummæli í athugasemdum frumvarpsins að með hækkun á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti lögaðila væri ekki verið að íþyngja fjármagnseigendum og hluthöfum umfram launafólk.“

Þetta sýnir náttúrlega í fyrsta lagi að þeir sem sömdu frumvarpið áttuðu sig ekkert á því að fjármagnstekjur eru allt annað en launatekjur af því að í fjármagnstekjum eru bæði verðbætur, áhætta í arðgreiðslum og kostnaður við leigu. Þetta er ekki sambærilegt. En það er sem sagt þarna og það er gagnrýnt.

Síðan kemur áfram:

„Hækkun erfðafjárskatts var gagnrýnd á þeim grundvelli að um ósanngjarna skattheimtu væri að ræða og það sama var sagt um auðlegðarskattinn. Tilvist auðlegðarskatts væri úr takti við alþjóðlega þróun.“

Þetta kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og þetta er allt saman slæmt.

Síðan er gagnrýnt:

„Nefndin ræddi tillögur frumvarpsins um hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi og áhrif slíkrar hækkunar á tekjuöflun ríkissjóðs sem og á neyslumynstur og lýðheilsu.“

Síðan kemur:

„Í umsögn ÁTVR er talið að hækkanir á áfengisgjaldi að undanförnu hafi leitt til samdráttar í sölu sterkra drykkja og töldu ýmsir að hætta væri á að viðskiptin færðust í hendur aðila sem ekki væri haft eftirlit með og stunduðu ólöglega starfsemi eða heimabrugg.“

Ég vil benda á í þessu sambandi að innflutningur á sykri hefur stóraukist þrátt fyrir hækkun á skatti sem átti að minnka sykurneyslu. Það virðist vera að menn kveiki ekki á því að sykur er notaður í brugg. Þetta hangir allt saman.

Í sambandi við þetta, frú forseti, er rétt að benda á að ef löggjafinn hvetur menn óbeint til ólöglegrar starfsemi er það siðrof. Það er slæmt. Menn sem gera ólög hérna geta gert ólög hinum megin líka. Það er mjög slæmt.

Síðan segir:

„Aðilar í ferðaþjónustu, leigubifreiðastjórar og aðrir mótmæltu boðaðri 50% hækkun kolefnisgjalds og hækkunum á almennu og sérstöku bensíngjaldi, olíugjaldi […] kæmu illa við rekstur innanlandsflugs og hópbifreiðafyrirtæki.“

Svo var rætt í nefndaráliti meiri hlutans, frú forseti:

„Áhrif frumvarpsins til hækkunar á vísitölu neysluverðs eru metin 0,2% og var þessu harðlega mótmælt af hálfu Hagsmunasamtaka heimilanna með hliðsjón af verðtryggðum lánum heimilanna. […] Enn fremur töldu sumir að fenginni uppfærðri þjóðhagsspá þar sem gert er ráð fyrir 2,3% verðbólgu í stað 3,5% eins og forsendur fjárlagafrumvarpsins gera ráð fyrir, að eðlilegt væri að lækka samsvarandi krónutöluskatta og gjöld sem hækka eiga um 4% samkvæmt frumvarpinu.“

Frumvarpið leggur sem sagt á hækkun sem er úr takti við það sem þjóðhagsspá lýsti.

Svo segir ASÍ:

„Í umsögn ASÍ er því haldið fram að hlutfall tekjuöflunar samtals í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé orðið meira en upphafleg þriggja ára áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum gerði ráð fyrir en þar er miðað við að hlutfallið fari ekki fram úr 45% á móti 55% niðurskurði. Í umsögninni er einnig minnt á að samkvæmt lögum nr. 61/2008 sem samþykkt voru í tengslum við gerð kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins hefði persónuafsláttur átt að hækka um 3.000 kr. í upphafi árs 2011 að undangenginni verðlagsuppfærslu, samtals 4.000 kr. Þessi áform voru slegin af …“ og gagnrýnir ASÍ það því að þetta var hluti af kjarasamningum.

Svo var talað um:

„Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að útvarpsgjald væri markaður tekjustofn …“ og væri slæmt o.s.frv.

Frú forseti. Nefndin sagði ekkert við þessu. Hún tók ekki afstöðu til þess. Hún gerði ekki neitt með þetta. Hún gagnrýndi þetta ekki og sagði að þetta væri ekki rétt eða að það væri engu að síður nauðsynlegt að hækka skattana. Nei, nei, þetta er allt sem stendur, frú forseti.

Síðan stendur dálítið merkilegt, með leyfi frú forseta:

„Breytingartillögur nefndarinnar.

Að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið leggur meiri hlutinn til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:“

Meiri hluti hv. efnahags- og skattanefndar á Alþingi Íslendinga vísar því til framkvæmdarvaldsins hvernig eigi að breyta lögum. Menn hefðu getað sleppt þessu, frú forseti. Menn hefðu getað sagt: „Meiri hlutinn leggur til“, og sleppt því að segja „að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið“. Þeir hefðu getað tekið afstöðu til þessarar gagnrýni sem kom fram í nefndarálitinu. Nei, nei, þeir taka enga afstöðu til þess, það er vissulega heiðarlegt. Þeir taka enga afstöðu til þess vegna þess að þetta var allt saman með rökum reist sem sagt var. Nefndin gat ekki tekið afstöðu til þess af því að hún er að gera ranga hluti eins og ríkisstjórnin öll.

Í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar, sem ég og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson stöndum að, hefur hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson farið ítarlega í gegnum hvaða áhrif þetta hefur á ýmsa skatta. Hvað áhrif hækkanirnar hafa t.d. varðandi erfðafjárskattinn að það eigi að hækka hann úr 5 í 10%. Það þýðir náttúrlega að fjöldi manns mun borga út fyrir fram greiddan arf fyrir áramót, þeir hafa viku til þess, frú forseti. Það eykur tekjur ríkissjóðs eitthvað tímabundið. Einnig vegna þess að auðlegðarskatturinn hvetur fólk aldeilis til þess að minnka eignirnar sínar og dreifa þeim á börnin sín. Ef þau eru nægilega mörg borga þau engan auðlegðarskatt. Auk þess er búið að lækka mörkin niður í 75 milljónir og það er huggulegur sparnaður hjá mörgu fólki sem er ráðdeildarsamt og sparsamt og hefur verið það í gegnum tíðina. Auðlegðarskatturinn er að sjálfsögðu refsing á svoleiðis dyggðir enda eru það orðnar ódyggðir í dag að mér sýnist á öllu því að það á að skattleggja allt sem tengist því. Auðlegðarskatturinn er refsing fyrir þá sem hafa sparað og sýnt ráðdeild, ekki farið í utanlandsferðir, ekki keypt sér jeppa o.s.frv. Ekki staðið í þessari brjálaðri neyslugræðgi eða fallið fyrir henni.

Skattur á tekjur, hagnað fyrirtækja og skattur á fjármagnstekjur er allt til þess að letja fólk til þess að spara og stunda ráðdeild og sparsemi. Menn eiga sem sagt bara að eyða áfram eða helst ekki afla neinna tekna, það væri náttúrlega langbest. Langbest væri að afla sem minnstra tekna eða ekki of mikilla. Svo menn hafi ekki of mikið til þess að spara fyrir þá sem ekki geta eytt vegna þess að þeim leiðist það.

Svo langar mig til þess að ræða aðeins um eignarskatt. Eignarskatturinn eða auðlegðarskatturinn eða hvaða nafn menn vilja gefa þessu er elsti skattur Íslandssögunnar og hét tíund einu sinni. Hvaða áhrif hafði tíundin á þeim 400 árum sem hún var í gildi á Íslandi? Hafa menn áttað sig á því? 1/4 af tíundinni fór til fátækra, 1/4 fór til presta, 1/4 fór til kirkna og 1/4 til biskupsstóls. Þetta er dálítið eftir minni hjá mér. Tíundin olli því að eignir landsmanna færðust til kirkjunnar. Hún varð mjög eignasterk Og þetta er einmitt eðli eignarskatta. Þeir flytja eignirnar frá einstaklingum til skattheimtumannsins sem er núna ríkið. Ríkið er reyndar duglegt að eyða eignum svo að það myndast kannski engar eignir þar. Kirkjan var það ekki, hún var sparsöm og ráðdeildarsöm og safnaði auð — ég segi nú ekki með augun rauð.

Nú er aftur verið að taka upp eignarskatt. Hann er hækkaður úr 1,25% í 1,5% í leiðinni, sem þýðir að eignin er afhent á 65 árum, eignin er hirt af manninum með þessum hætti. Hún þarf að skila arði til að standa undir sér. Það má segja að eignarskattur sé í rauninni arðsemiskrafa á eignina. Þegar eignarskattur er hækkaður á eign lækkar verð hennar sjálfkrafa.

Eitt sinni voru eignarskattar á Íslandi komnir upp undir 6%. Það var þegar sérstakur skattur var á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og auk þess háir eignarskattar, 2,9% minnir mig að eignarskattarnir hafi verið og skattar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði voru eitthvað um 3,5%. Þá gerðist það að verð á skrifstofuhúsnæði lækkaði verulega af því að það stóð engin eign undir þessu. Það var engin eign sem bar 6% ávöxtun, hún bar ekki þessa skatta. Ávöxtunin var ekki nægilega mikil. Arðsemin var ekki nægilega mikil af þessum eignum og verðið lækkaði.

Það getur vel verið að það sé markmiðið hjá hæstv. ríkisstjórn — og ég trúi því vel. — að eyðileggja allar eignir í landinu eða ganga á þær, minnka þær. Þannig séu allir jafnir, jafnfátækir, frú forseti. Menn séu ekkert að spara og sýna ráðdeild í sínum rekstri og á sínu heimili. Þá gæti verið að þeir eignuðust eitthvað og það er slæmt að mati margra vinstri manna. Það eiga allir að vera jafnir, allir jafnfátækir.