139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Talandi um ríka og fátæka og breiðu bökin og þau mjóu þá eru það ekki síður hagsmunir fátæks fólks að fá vinnu. Það eru sennilega mestu hagsmunirnir að fá vinnu til að geta borgað leiguna sína, að fá vinnu til að borga af lánunum sínum. Það eru mestu hagsmunirnir og ef menn væru að hugsa um það mundu þeir reyna að hvetja til þess að hér skapaðist vinna.

Það vill svo til að fyrir Alþingi lágu tillögur, útfærðar tillögur um hvernig hægt væri að gera það með því að skattleggja séreignarsparnaðinn. Það lágu fyrir tillögur um hvernig hægt væri að ná afgangi á ríkissjóði, meira að segja að hallinn færi niður í núll við þá aðgerð, til þess að ná niður hallanum. Ég er alveg sammála bæði hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmanni sem og öllum þingmönnum að það sé mjög brýnt að ná niður hallanum á ríkissjóði til þess að við eyðum ekki of miklum peningum í vexti.

En menn völdu ekki þá leið, menn völdu áfram leið skattlagningar og niðurskurðar. Niðurskurðurinn, frú forseti, er alveg sérstaklega hastarlegur núna þegar fólk fær ekki vinnu. Opinberir starfsmenn fá ekki vinnu, það er ekkert að gera neins staðar. Hvað gerist með opinberan starfsmann sem er sagt upp? Hann verður atvinnulaus, frú forseti, og fer frá einum gjaldapósti í ríkissjóði yfir á annan. Þetta frumvarp er ekki gott fyrir fátækt fólk. Krónutölugjaldið kom að sjálfsögðu fátæku fólki sérstaklega illa, og það að hækka ekki persónuafsláttinn miðað við verðlagshækkun eins og við gerðum ráð fyrir er sérstaklega slæmt fyrir fátækt fólk og lágtekjumenn.

Við lögðum fram tillögu um hvernig ná mætti þessum markmiðum sem við öll erum sammála um, að ná hallanum á ríkissjóði niður. Því var hafnað án góðra raka og nú sitja menn uppi með að það á bara að skattleggja, skattleggja og skattleggja, minnka kökuna í staðinn fyrir að stækka hana og það er alveg sérstaklega slæmt fyrir fátækt fólk.