139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er það mikilvægasta sem við gerum að skapa vinnu og auka verðmætasköpunina í landinu og öll efnahagsáætlunin miðast einmitt við það. Okkur hefur orðið nokkuð ágengt í því og við skulum m.a. gleðjast yfir því að frá því að frumvarpið var lagt fram og til dagsins í dag eru horfur um atvinnuleysi þær að það verði minna en ráðgert var, þ.e. að það takist að skapa meiri vinnu en útlit var fyrir í sumar. Við skulum líka vona að það takist enn betur til í því (PHB: Það er vegna brottflutnings.) en hér er gert ráð fyrir. Nauðsynlegur liður í því er auðvitað trúverðugleiki í ríkisfjármálum, þar með stöðugleiki í verðlagsmálum, lágir vextir og allt það almenna umhverfi sem getur skapað skilyrði fyrir fjárfestingu og vöxt í atvinnulífinu.

Hvað varðar það að nýta skattainneign nokkurs konar í séreignarsparnaðarkerfinu þá er það auðvitað svo að það er verið að nota þá leið að hluta til. Hún er notuð jafnt og þétt á þessu ári og sömuleiðis tekinn áfangi á næsta ári. (Gripið fram í.) En það er ekki allt saman tæmt í einu skrefi eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til, enda væri það ekki lausn á meinsemdunum í ríkisrekstrinum, á þeirri innbyggðu meinsemd að tekjurnar eru langt undir útgjöldunum. Það mundi aðeins hjálpa okkur í eitt ár og gera það að verkum að við hefðum upp á engin úrræði að hlaupa ef snurða hleypur á þráðinn og ég held að það væri óvarlegt að ætla sér að reyna að leysa viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs með (Forseti hringir.) einhverjum svoleiðis hókuspókus-lausnum.