139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að þau fari inn á séreignarsparnaðinn með því að leyfa fólki að taka meira út. Þau eru að eyðileggja sparnaðinn, þennan sparnað sem er eini frjálsi sparnaðurinn sem heimilin hafa. (Gripið fram í.) Já, vissulega, við ætluðum að taka þetta frá 1. maí og það er einskiptisaðgerð, það er alveg viðurkennt, en það átti að setja kerfið í gang. Það átti að setja efnahagslífið í gang, þegar allir skattarnir yrðu lækkaðir færi það nefnilega í gang, þá mundi fólk fyllast bjartsýni, það hefði aftur peninga í buddunni til að borga af lánunum sínum og leiguna sína og það gæti aftur farið að leggja fyrir. Fyrirtækin mundu fyllast bjartsýni því að þau mundu losna við skatta af tryggingagjaldinu sem er skattur á atvinnu — það kostar að hafa mann í vinnu, ríkið skattleggur það að hafa mann í vinnu í dag — og bjartsýnin mundi vaxa.

Við bjuggumst við því, ef þetta hefði verið samþykkt, að það mundi fyllast svo mikil bjartsýni í atvinnulífið og þegar allir þessu óskaplegu skattar og þessi flækja sem var komin í kerfið væri farin gætu menn loksins farið að hugsa til framtíðar. Mér finnst rök hv. þingmanns ekki nægileg því að hann skoðaði ekki nægilega þá leið sem séreignarsparnaðurinn gefur. Mér finnst mjög dapurlegt að menn skuli halda áfram á þeirri leið að skera niður og segja upp fólki. Það er nefnilega þannig að þegar allt er í góðum gír og nóg vinna alls staðar er auðvelt að segja upp fólki. Það er miklu auðveldara að segja upp starfsmanni hjá ríkisstofnun þegar hann getur farið beint í aðra vinnu, en að segja honum upp og láta hann verða atvinnulausan, sem eru alveg skelfileg örlög fyrir einstakling, og eiga kannski von á því í mörg ár að eygja ekki möguleika á að fá vinnu, nú þá flytur maðurinn náttúrlega til útlanda ef hann mögulega getur.