139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum og fyrir liggur nefndarálit frá 1. minni hluta skattanefndar. Fulltrúar okkar í þeirri nefnd, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal, hafa unnið það fyrir hönd sjálfstæðismanna og eins og þingheimur þekkir eru þar ágætir og vel hæfir einstaklingar á ferð í þeim málum sem um ræðir. (Gripið fram í.)

Ég vil nefna í þessari stuttu ræðu að það hefur legið lengi fyrir hver afstaða okkar sjálfstæðismanna til þessara mála er og við höfum boðið upp á aðra leið en þá sem stjórnarmeirihlutinn vill fara til að taka á í fjármálum ríkissjóðs. Hann vill fara leið skattahækkana og niðurskurðar og við höfum haldið því fram að það sé ákveðinn vítahringur sem er mjög hætt við að menn geti fest inni í.

Með því fjárlagafrumvarpi og bandormi sem hér liggur fyrir er að hefjast þriðja hrina skattahækkana þessarar ríkisstjórnar. Í raun má halda því fram að þegar þau áform sem birtast í frumvarpinu eru fullnustuð á árinu 2011 megi gera ráð fyrir að skattbyrði ásamt álögum í tengdum gjöldum frá árinu 2009 þegar þessi ríkisstjórn tók við, hafi aukist um vel á annað hundrað milljarða á þessum tíma og þykir öllum nóg um.

Ég minnist þess frá því að ég var tiltölulega ungur maður að eitt sinn var búin til sú persóna í sjónvarpsþætti um áramót, í áramótaskaupinu svokallaða, sem fékk heitið Skattmann. Ég held að hann sé enn við lýði og hafi gengið mismunandi ljósum logum allt síðan þá. (MÁ: Hver?) Hver? spyr hv. þm. Mörður Árnason. Ég held að við séum nú að endurnýja kynnin við þann ágæta einstakling sem Skattmann er. Hann er þjóðsagnapersóna og þær eru raunar miklu fleiri. Það er líka til lýsing á öðru fyrirbæri í þjóðtrú Íslendinga sem er jólakötturinn og það er margt líkt með jólakettinum og Skattmanni. (Utanrrh.: Svo eru líka til villikettir.) Ég er ekki að ræða um villiketti núna, hæstv. utanríkisráðherra. Mér eru kettir hugleiknir þessa dagana (PHB: Heimiliskettir.) en ég ætlaði að upplýsa hæstv. utanríkisráðherra — sem sumir vilja stundum kalla hefðarkött en ég hef nú allt aðra reynslu af honum en þá. Ég ætla að upplýsa hv. þingmenn um samlíkinguna við jólaköttinn í kveðskap Jóhannesar skálds úr Kötlum en það er undarlega góð samlíking og mikil samsvörun á milli kattarins og þeirra aðferða sem Skattmann beitir, þeirra áhrifa sem hann hefur á afkomu fólks. Ég vil draga það saman í örfáum orðum því að áherslur okkar sjálfstæðismanna hafa komið mjög skýrt fram í umræðu um fjárlög og nú þau frumvörp sem koma fram til breytingar á sköttum. Varðandi Skattmann á hann það sammerkt með jólakettinum í kveðskapnum að fólk vissi ekkert hvaðan hann kom eða hvert hann var að fara. Þó var eitt víst, hann var ýmist uppi í dal eða úti um nes og sveimaði soltinn og grimmur í sárköldum jólasnæ og svo vakti hann í hjörtunum hroll á hverjum bæ.

Þetta er kannski ekki það versta því að í umræðum hefur komið fram, sumir halda því fram, að skatturinn leggist sérstaklega á þá sem betur standa en hér hefur verið upplýst að svo er ekki. Hann leggst í rauninni á alla landsmenn sem greiða skatt og þar lætur nærri að um sé ræða um 200 þús. einstaklinga. Í kvæðinu segir, með leyfi forseta:

Hann lagðist á fátæka fólkið

sem fékk enga nýja spjör

fyrir jólin, og baslaði og bjó

við bágust kjör.

Frá því tók hann ætíð í einu

allan þess jólamat

og át það svo oftast nær sjálft

ef hann gat.

Ég er þeirrar skoðunar að sú stefna sem verið hefur við lýði undanfarin tvö ár og ætlunin er að framlengja, beri í sér sömu áhrif og jólakötturinn getur haft, fyrir atvinnulíf og afkomu landsmanna. Ég er þeirrar skoðunar að nóg sé að gert í þessum efnum.

Menn hafa stundum tiltekið einstaka skatta sem þeir vilja fara í gegnum og það er vel hægt. Ég er hins vegar þeirra skoðunar að fulltrúar okkar í efnahags- og skattanefnd ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hafi komið þeim sjónarmiðum ágætlega á framfæri. Ég ætla að nefna í lok ræðu minnar eitt örstutt dæmi um áhrifin af þeirri skattheimtu og aðferðum sem gleðja stjórnarmeirihlutann svo mjög en það lýtur að skattlagningu áfengis og tóbaks, þ.e. vörugjald á áfengi og tóbak. Það er tvíþætt, annars vegar er um að ræða skattlagningu á heimamarkaði, eins og hv. formaður efnahags- og skattanefndar, Helgi Hjörvar, gat um í framsögu sinni með frumvarpinu, þar sem er 1% lagt á sterkt áfengi, 4% á bjór og léttvín og síðan 7% á tóbak. Hins vegar eru uppi áform um að skattleggja sérstaklega þessar vörutegundir í Fríhöfninni, 10% á áfengi og 40% á tóbak.

Það er augljóst hvaða áhrif það mun hafa. Með þessum skatti flytjum við klárlega þessa verslun úr Fríhöfninni á Íslandi og það mun bíta í skottið á sér. Við erum bara að flytja störf úr landi. Ég held raunar að með þeirri skattlagningu sem við erum búin að sjá staðfesta af stjórnarmeirihlutanum, og ekki síst ef þetta verður að veruleika, færum við neyslumynstrið til, þ.e. út á aðra fleti en það hefur verið á hingað til og ég vara við því. Ég held að þetta sé komið að ákveðnum mörkum. Við sjáum í nýlegri könnun sem gerð var í aldurshópnum 16–24 ára að á milli 40 og 50% þátttakenda vissi um bruggun á landa, 40% þátttakenda í þessum aldurshópi hafði neytt landa. Þá er ótalið það sem við höfum engar upplýsingar um sem er smygl á þessum vörutegundum til landsins. Ég held því að við þurfum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að taka það með í umræðuna sem fram fer um þessar mundir.

Ég get ekki lokið ræðu minni öðruvísi en að minna hv. þingmenn á hvernig skattfé er ráðstafað. Þó að það sé örlítið brot langar mig að nefna lítið dæmi sem er jólakort til þingmanna sem okkur barst með póstinum í dag eða gær frá fyrirtæki sem enn er ekki stofnað en er á framfæri opinberra aðila og þar með eru nýttar í það skatttekjur. Það er tónlistarhúsið Harpa. (PHB: Ekki í fjárlögunum.) Hún er ekki fjármögnuð. Það er fyrirtæki sem á eftir að fá enn meira fé frá okkur, er ekki tekið til starfa með neinum þeim hætti að það sé farið að skila einhverjum tekjum inn í ríkissjóð og því síður í borgarsjóð. Ég vil nota það sem áminningu til okkar allra um að við eigum og hljótum að gera kröfu til okkar sjálfra um að standa betur að hlutunum en þar var gert. Það nefni ég sérstaklega í því samhengi að við erum enn að ræða framkvæmdir á vegum ríkissjóðs sem við ætlum að setja í svipaðan farveg og þetta verkefni. Ég ætla því að gera þetta annars ágæta jólakort að áminningu til okkar allra.