139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir næsta ár. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði þegar hann mælti fyrir þessum bandormi eins og hann kallaði þetta frumvarp, sem ég hef reyndar kallað kyrkislöngu, þá væri þetta bara smáuppsóp af því sem ætti eftir að gera því að menn hefðu jú farið á síðasta ári, eins og við munum öll eftir, í þær tekjuáætlanir og skattahækkanir sem menn töldu og stjórnarmeirihlutinn telur nauðsynlegar til að ná niður halla ríkissjóðs.

Ég var vissulega verulega hugsi yfir því, virðulegi forseti, vegna þess að þetta litla sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir sem á að skila um 11 milljörðum í ríkissjóð minnkar ráðstöfunartekjur heimilanna um 9 milljarða. Það er bara smotterí, ráðstöfunartekjur heimilanna minnka um 9 milljarða vegna þess frumvarps sem við ræðum hér sem er að áliti hæstv. fjármálaráðherra og stjórnarmeirihlutans smáuppsóp. Því til viðbótar eða í ofanálag hækka skuldir heimilanna um tæpa 3 milljarða. Núna hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum hækkað skuldir heimilanna á árinu 2010 og það sem hún mun gera á árinu 2011 um 18 milljarða, hvorki meira né minna. Þetta eru engar smátölur. Og síðan er ríkisstjórnin að baksa við að koma til móts við heimilin í landinu þannig að fólkið geti séð sér farborða og þá er þetta alltaf gert á móti. Það virðist aldrei vera hugsað í heildarmyndinni hvernig í raun og veru er hægt að hjálpa fjölskyldunum til að sjá fyrir sér sjálfar. Við ræddum um vaxtabætur hér og þær voru afgreiddar í fjárlögunum í gær upp á um 6 milljarða plús 1,9 milljarðar sem var búið að skerða í frumvarpinu, sem var mjög sérkennilegt vegna þess að í fjáraukalögunum voru samþykktir tæpir 2 milljarðar til viðbótar í vaxtabætur vegna þess að þær voru vanáætlaðar. Hvernig stóð á því? Jú, ástæðan fyrir því að bæta þurfti í vaxtabæturnar í fjáraukalögum var sú að ráðstöfunartekjur heimilanna höfðu minnkað og skuldirnar höfðu hækkað. Þetta er akkúrat afleiðing af skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. annars vegar að hækka skattana og minnka ráðstöfunartekjurnar og hins vegar að auka skuldirnar. Þetta er mjög varhugavert, virðulegi forseti.

Það sem veldur mér vonbrigðum og áhyggjum sérstaklega er að það virðist ekki kvikna á aðvörunarljósunum hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutanum sem greinilega blasa við. Við erum að sjá tekjuskatt einstaklinga, upp á hann vantar 5,1 milljarð á árinu 2010 þrátt fyrir að atvinnuleysi sé minna en gert var ráð fyrir í frumvarpinu 2010, sem munar einu prósenti. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Ég tel að skýringin liggi fyrst og fremst í því að fólk er að flytja úr landi sem er afleiðing svona skattstefnu og þetta er oft og tíðum mjög verðmætt fólk sem er að fara úr landi þó að allir séu að sjálfsögðu jafnverðmætir, en þetta er oft fólk sem hefur gríðarlega þekkingu og hefur gengið menntaveginn sem er að flytja úr landi og er mannauður, og af því hef ég verulegar áhyggjur.

Eins held ég líka að sveigjanleikinn sem er í vinnumarkaðnum sé vanmetinn, þ.e. ef verið er að lækka laun um 10% með því hugsanlega að segja upp 10% af starfsmönnunum, og við höfum nú séð mörg dæmi um það, þá eru viðbrögðin á vinnustöðunum oft þau að fólkið í heild vill frekar taka á sig 10% launalækkun til þess að verja störf hinna þannig að ekki þurfi að segja neinum upp. Við sjáum hvað það þýðir, það þýðir að sjálfsögðu að það „blöffar“ atvinnuleysistölurnar að því leyti til að þá missa ekki 10% af fólkinu vinnu heldur lækkar það í launum og skatttekjurnar minnka í reyndinni.

Við höfum hins vegar talað mjög skýrt fyrir því, sjálfstæðismenn, að fara aðra leið, að fara í séreignarsparnaðinn, taka skattinn af honum með eingreiðslu eða einskiptisaðgerð, sem er mjög einföld aðgerð og mun ekki hafa nein áhrif á þá einstaklinga sem greiða skattinn vegna þess að þetta er frestun á skatttekjum. Það þýðir 80 milljarða fyrir ríkissjóð og er ekki síður mikilvægt að sveitarfélögin eiga þar um 40 milljarða, og við höfum talað fyrir því, þingflokkur sjálfstæðismanna, að það verði einmitt notað hjá sveitarfélögunum til að greiða niður skuldir og laga til í rekstri því að ekki er vanþörf á því.

Ég vil líka, virðulegi forseti, minnast aðeins á eitt sem olli mér miklum vonbrigðum í gær þegar greidd voru atkvæði um tillögur okkar sjálfstæðismanna um að það þyrfti að auka við aflaheimildir. Mér er eiginlega alveg óskiljanlegt þegar svigrúm er til þess að bæta við aflaheimildir að það skuli ekki vera gert. Það skapar að sjálfsögðu tekjur og það skapar störf og ef við þurfum ekki á því að halda núna, hvenær þá? Það er alveg hreint með ólíkindum að hafa hlustað hér á marga hv. þingmenn taka undir að þetta sé gert og síðan þegar greidd eru atkvæði um að gera það er sannfæringin ekki meiri en svo að þá bregðast menn og greiða ekki atkvæði með því að fara í slíka aflaaukningu og finna sér alls konar ástæður fyrir því sem er alveg ótrúlegt að hlusta á.

Þegar við afgreiddum fjáraukalögin blasti við okkur minnsta fjárfesting í sögu lýðveldisins, mesti samdráttur í fjárfestingu í sögu lýðveldisins. Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að fyrirtækin hafa ekki neitt bolmagn til þess að fara í neinar fjárfestingar. Hvað þýðir það þegar menn setja á eins og t.d. tryggingagjaldið, sem er náttúrlega bara skattur á atvinnu og það vita allir. Mér finnst það grátbroslegt og háalvarlegt mál, virðulegi forseti, vegna þess að þegar tryggingagjaldið var hækkað til að greiða fyrir atvinnuleysið sem varð í kjölfar efnahagshrunsins brugðust einmitt fyrirtækin og samtök þeirra þannig við að þau gerðu ekki alvarlegar athugasemdir við að tryggingagjaldið yrði hækkað til að standa undir atvinnuleysisbótunum. Síðan þegar atvinnuleysið er minna en reiknað var með er mér algjörlega óskiljanlegt af hverju það er þá ekki greitt til baka, því að eins og þetta er í dag renna upp undir 3 milljarðar í ríkissjóð af í raun og veru ofteknu tryggingagjaldi sem væri mun skynsamlegra að nýta til að byggja upp atvinnu og skapa störf, til að fyrirtækin geti farið að fjárfesta. Hún er alveg hreint með ólíkindum sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að vera með undirstöðuatvinnuveginn, sjávarútveginn, í uppnámi vegna stefnuleysis og gera sér ekki grein fyrir því að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er ekki í neinum fjárfestingum út af óvissu um framtíðina, fyrir utan hvaða áhrif það hefur á markaðsmálin að nú geta menn ekki lofað samningum eins langt fram í tímann og fengið hærra verð fyrir afurðirnar. Nei, allt skal gert til þess að koma að einhverjum pólitískum hugmyndasigrum og það er allt réttlætt með hruninu, alveg sama hvort það eru skattpíningarnar eða annað, það er allt út af hruninu, það er réttlætt með því.

Af því að ég var að ræða um tryggingagjaldið, virðulegi forseti, eru það náttúrlega mikil afrek sem ríkisstjórnin hælir sér af og hún telur sér trú um að séu afrek, og ég ætla ekki að gera lítið úr því sem hefur náðst í bata á hallanum á ríkissjóði, ég ætla ekki að gera lítið úr því, en mig langar að rifja aðeins upp hvernig það er gert. Nú hefur ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn tekið þá ákvörðun að láta sveitarfélögin fara í niðurskurðinn eins og er verið að vera að gera um allt land. Ríkið hirðir síðan um 3 milljarða af sveitarfélögunum í ríkissjóð og menn gorta sig svo af því að það gangi rosalega vel og þeir séu að ná hér miklum árangri. En það væri kannski sanngjarnt að skoða það í ljósi þess hvernig þetta er gert. Að taka núna af sveitarfélögunum í landinu 3 milljarða inn í ríkissjóð er ekki afrek að mínu mati, það er til háborinnar skammar. Og að það skuli ekki hafa verið klárað við lokaafgreiðslu fjárlaganna að rétta af a.m.k. seinni hluta hækkunarinnar á tryggingagjaldinu sem var í byrjun árs 2010, það var víst nógu mikið högg fyrir sveitarfélögin að fá fyrri hækkunina, nei, það er ekki gert.

Bara til að rifja það upp, virðulegi forseti, þá brugðust sveitarfélögin, flestöll, mjög hratt við efnahagshruninu árið 2008 og fóru í mjög massífan niðurskurð strax á árinu 2009 við mikla erfiðleika og við miklar mótbárur frá íbúunum eins og gefur að skilja, þetta voru ekki vinsælar ákvarðanir, ekki frekar en það sem stjórnarmeirihlutinn þarf að verja á þessum tímum. Þetta var þurrkað út með einu pennastriki í júnímánuði, allt sem sveitarfélögin voru búin að hagræða með fyrri hækkun tryggingagjaldsins var tekið frá sveitarfélögunum og fært inn í ríkissjóð. Þetta er mjög óréttlátt. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að staða sveitarfélaganna margra hverra, ekki allra, er mjög bágborin um þessar mundir. Það liggur líka fyrir að á næsta ári munu tekjur sveitarfélaganna rýrna um 7 milljarða. Og nú er svo komið, virðulegi forseti, að mörg sveitarfélög, og það kom fram á fundi fjárlaganefndar, munu eftir að þau þurfa að standa skil á tryggingagjaldi til ríkissjóðs þurfa að fara nánast inn í grunnþjónustuna til að mæta niðurskurðinum. Það gerist með þeim hætti að það verður hætt við að niðurgreiða skólamáltíðir, það verður tekið af leikskólunum af því að þeir eru ekki lögbundnir, það verður … (PHB: Og sérkennslan.) Já, sérkennslan, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, alveg rétt ábending, tónlistarskólarnir og þar fram eftir götunum. Þannig að það er mikið hrós.

Mig langar líka að rifja það upp, virðulegi forseti, sem gerðist þegar við vorum að ræða fjáraukalögin núna. Þar komu fram skekkjur í svokölluðum bótaflokkum, þ.e. til ellilífeyrisþega og öryrkja. Þar voru tilfærslur upp á 4 milljarða sem ríkisstjórnin hefur væntanlega gert ráð fyrir að hefðu minni áhrif, aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í á árinu 2009, en þær ráðstafanir sem reiknað var með út af allri þeirri flækju sem þar er, og við teljum mjög mikilvægt og nauðsynlegt að menn skoði í heild sinni, skerða hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum 4 milljörðum meira en ráð var fyrir gert. En til þess að vera sanngjarn og halda öllu til haga var ég mjög ánægður með að meiri hluti fjárlaganefndar lagði fram tillögu um að bæta upp þessa bótaflokka um 2,3% á næsta ári sem eru um 350 milljónir á árinu 2011. Það var skref í rétta átt en það var þó bara hænufet.

Þessu til viðbótar, þegar við tölum um árangur ríkisstjórnarinnar í skattpíningarstefnunni, samdi ríkisstjórnin við stóriðjufyrirtækin á síðasta ári og tók af þeim 3,6 milljarða í fyrir fram greidda skatta fyrir árin 2011, 2012 og 2013, þ.e. það er verið að greiða skatta fyrir framtíðina, fyrir árin 2011, 2012 og 2013. Það mun að sjálfsögðu þurfa að greiðast til baka þegar þessu kjörtímabili lýkur, og ég vona innilega, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin lifi ekki allt kjörtímabilið, að hún verði hætt áður til hagsældar fyrir þjóðina í heild, en þetta er eigi að síður þannig að þá þarf að standa skil á þessu. Það er einn hluti af því sem við sjáum hér.

Og þessu til viðbótar hafa menn alltaf verið að tala um að árangurinn hafi farið fram út björtustu vonum miðað við þær forsendur sem voru gefnar. Þá er rétt að rifja upp að þegar menn voru að setja sér forsendur strax í kjölfar efnahagshrunsins 2008 voru menn kannski ekki með þetta alveg á hreinu eins og gefur að skilja og voru frekar að giska í þeim óróleika sem var þá. Það er ekki þar með sagt, þó svo að þær ágiskanir hafi verið með þeim hætti, að það endurspegli endilega þann mikla árangur sem ríkisstjórnin hefur náð. Því til viðbótar hafa allar hagvaxtarspár verið niður á við eftir að ríkisstjórnin tók við. Enda er ekki um það deilt að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ekki skapað nein störf eða liðkað til fyrir því að það verði gert nema kannski á síðustu dögum þar sem menn eru að samþykkja frumvörp eftir að búið var að beita töngum á annan stjórnarflokkinn til að koma því í gegn. Það verður að viðurkennast, virðulegi forseti, að það hafa kannski verið aðgerðir Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem hafa orðið til þess að ákveðinn flokkur hér hefur þurft að bakka með ýmislegt sem hefur orðið til þess að menn hafa komið miklum þjóðþrifaverkum af stað eða það horfir til þess.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sannarlega að vona — það eru nefnilega mjög miklar efasemdir, mikil hætta á því á næsta ári að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, sem við erum að sjálfsögðu að ræða hér að hluta til, sé mjög veik. Við erum með 37 milljarða halla á fjárlögunum fyrir árið 2011 og ef Icesave-samningunum lýkur eru það um 23 milljarðar og þá eru við komin í 60 milljarða. Gangi síðan eftir spá Evrópusambandsins um 0,7% hagvöxt mun það þýða um 25–27 milljarða minni tekjur fyrir ríkissjóð. Þá erum við komin upp í 85–90 milljarða í halla á ríkissjóði á næsta ári og það er grafalvarlegt mál. En auðvitað vona ég svo sannarlega að það reynist ekki rétt sem Evrópusambandið spáir en ég verð þó að rifja upp að hér eru margir hv. þingmenn sem taka allt sem heilagan sannleika sem kemur frá Evrópusambandinu. Maður átti því kannski von á að sumir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar mundu hugsanlega flytja breytingartillögur til að aðlaga fjárlagafrumvarpið að þeirri efnahagsspá sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerði.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Ég er búinn að fara yfir það sem mér finnst skipta mestu máli og vona svo sannarlega og innilega að þetta gangi eftir sem upp er lagt með á næsta ári.