139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Við ræðum heljarmikið frumvarp til laga um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Ég held að hér séu orðin dálítið sparlega notuð vegna þess að þessi ýmsu lagaákvæði eru heilar 58 greinar þar sem lagðar eru til breytingar á einum 16 lagabálkum er snerta hinar ýmsu atvinnugreinar, tekjuskatta einstaklinga, skatta á fyrirtæki og fleira gæti ég nefnt. Ég tek undir með hv. formanni nefndarinnar, efnahags- og skattanefnd var vissulega vandi á höndum þegar þetta mál var lagt fram 30. nóvember. Síðan fékk nefndin það til umfjöllunar og kallaði til fjöldann allan af gestum eins og lög gera ráð fyrir enda er verið að tala um 15 eða 16 ólíka lagabálka, m.a. heildarendurskoðun á nýsköpun í landinu sem ríkisstjórnin treður inn í einhvern bandorm. Mér þykir alveg á mörkunum að sá ágæti formaður efnahags- og skattanefndar sem hefur staðið sig vel í að stýra nefndinni skuli nefna þetta fyrirbrigði góðan bandorm. Það er ekki hægt. Hér er í fyrsta lagi verið að traðka á þeirri nefnd Alþingis sem heitir efnahags- og skattanefnd. Við fáum hálfan mánuð til að fjalla um öll þessi lagaákvæði og menn ætlast til þess að við förum ítarlega yfir þau. Það er ekki hægt að ætlast til þess. (Gripið fram í: Gestum.) Með gestum. Oft var tíminn naumur og stjórnarandstaðan sýndi mikla lipurð, vil ég meina, í samskiptum við meiri hlutann í þessari nefnd því að við gætum enn verið að ræða um 10. gr. frumvarpsins og átt eftir 48 greinar, þ.e. ef við hefðum viljað fara í ítarlega umræðu um þessi mál.

Mig langar að hæla hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir málefnalega ræðu þar sem hann rakti m.a. nokkrar breytingartillögur sem þeir hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ætla að leggja fram, í fyrsta lagi að inngreiðslu í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verði hætt árið 2012, minnir mig að hv. þingmaður hafi sagt. Í öðru lagi vill hv. þingmaður auka félagafrelsi í lífeyrissjóðakerfinu og hjá stéttarfélögunum. (PHB: Það er annað mál.) Það er annað mál, segir hv. þingmaður, en það er ósköp eðlilegt að menn geti ruglast þegar rætt er á örfáum klukkustundum í þinginu um marga bandorma sem innihalda jafnvel á annað hundrað greinar. Síðan nefndi hv. þingmaður í þriðja lagi að hann vildi innleiða skattafsláttinn vegna hlutabréfakaupa.

Öll þessi mál sem hv. þingmaður nefndi tel ég vera vel skoðunarverð og ég hvet okkur til þess í efnahags- og skattanefnd eftir áramótin til að fara ítarlega yfir þessar tillögur og hugmyndir sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur með inn í umræðuna. Mér fannst við þetta 100 metra hlaup sem þetta mál fékk í nefndinni ekki nægilegur tími til að fara yfir þau stóru mál sem hv. þingmaður nefndi. Hann boðaði það að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni mundu koma með þessi mál til atkvæðagreiðslu. Ég vil ekki útiloka að ég geti stutt þessi mál í einhverri mynd en það vil ég gera að fenginni mjög ítarlegri umfjöllun þingmanna í efnahags- og skattanefnd. Ég minni á að meira en helmingur þingmanna hefur aðeins setið á þingi frá 2007. Allt þarf þetta að fara í gegnum vandaða og vel rökstudda umræðu í þingnefndum og þingsal. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma fram með þessa breytingartillögu en ég lofa honum ekki að ég muni styðja hana á því mikla spretthlaupi sem Alþingi er á við að afgreiða þetta mál, enda tel ég að það þurfi að ígrunda þessi mál vel.

Mig langar aðeins að nefna, og vísa þá í álit sem ég hef lagt fram fyrir hönd Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd, að í frumvarpinu, svo ég byrji einhvers staðar á þessum 58 greinum, er lagt til að framlengdur verði gildistími bráðabirgðaákvæða sem heimila niðurfellingu stimpilgjalds af skilmálabreytingum fasteignaveðskuldabréfa og nýrra bréfa sem gefin eru út af Íbúðalánasjóði til 1. júlí 2010, ásamt bílalánum einstaklinga, til 31. desember 2011. Ég styð þessa tillögu, enda þurfa þúsundir heimila í dag að endurskipuleggja fjármál sín vegna þeirra stökkbreyttu skulda sem skullu á þessum heimilum í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. En ég vil benda á einn annmarka sem mér skilst að sé á þeirri tillögu sem við ræðum hér, stimpilgjaldið sem er í raun og veru ekkert annað en skattur á eymd og vandræði fólks eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan. Eins og staðan er í dag verður fjölskylda að greiða ríkinu þetta stimpilgjald ef hún vill endurskipuleggja fjármál sín innan annarrar fjármálastofnunar en sinnar hefðbundnu, stofnunar sem býður jafnvel betri kjör og betri vexti. Ef það er svo, sem ég þykist vera nokkuð viss um, er hér um óskaplega ósanngjarnan stimpilskatt að ræða gagnvart fólki sem er að reyna að endurskipuleggja mál sín og leita að öðrum fjármálafyrirtækjum sem bjóða jafnvel betri kjör. Fólk þarf að greiða skatt af því að reyna að rísa upp og ná endum saman á ný. Þetta er fyrir utan samkeppnisfaktorinn, þetta gjald og þessi skattur ríkissjóðs er í raun og veru vernd fyrir fjármálastofnanir sem standa sig kannski ekki í samkeppni á bankamarkaði og ná ekki að halda í viðskiptavini sína. Fólk sér einfaldlega ekki ávinninginn af því að færa sig á milli fjármálastofnana vegna þessa skatts. Um leið og ég tek undir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan tel ég þetta vera nokkuð sem efnahags- og skattanefnd verði að skoða vandlega á nýju ári. Því miður er gjörsamlega ómögulegt á hálfum mánuði með svona gríðarlega stórt frumvarp í höndunum að fara í einhverja vitræna og djúpa umræðu um mál sem þessi.

Frú forseti. Mig langar aðeins að víkja að nýsköpunarmálunum sem eins og ég sagði áðan er troðið inn í þetta frumvarp ásamt fjölmörgum öðrum lagabálkum. Ég verð að segja fyrir mig að ríkisstjórn sem vill kenna sig við það að styðja við nýsköpun og efla atvinnulífið í landinu ætti að sýna atvinnuvegi eins og nýsköpun og nýsköpunarfyrirtækjum meiri virðingu en svo að hann sé nefndur í liðum 36–43. Þetta eru ekki viðunandi vinnubrögð og að sjálfsögðu átti, eins og hv. formaður nefndarinnar Helgi Hjörvar benti á, ríkisstjórnin að mæla á haustdögum fyrir sérstöku nýsköpunarfrumvarpi sem hefði farið eðlilega leið til iðnaðarnefndar sem sér um þann málaflokk. Þá hefði sú nefnd getað tekið sér góðan tíma til að fara yfir þennan mikilvæga málaflokk í stað þess að þessu máli sé hent inn í bandorm sem fer inn í efnahags- og skattanefnd í byrjun desember og við fáum einungis nokkra daga til að fjalla um þann mikilvæga málaflokk sem nýsköpunarmálin eru sem og tugi annarra greina sem snerta allt önnur mál. Ég segi rétt eins og við umræðu um hinn verri bandorm, því að þessi bandormur er vondur en við ræddum um hinn verri bandorm fyrr í dag, að ég bind vonir við að þetta vinnulag verði endurskoðað. Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal geti tekið undir með mér að sjaldan eða aldrei á seinni árum hafa vinnubrögðin og aðstæður nefndanna verið eins erfiðar og núna. Það er einfaldlega þannig. Við getum líka vottað að þegar menn koma bláeygðir fyrir nefndina og heyra kannski af einhverjum ákvæðum sem menn ætla að henda inn í frumvarpið á síðustu stundu er orðavalið hjá þeim gestum yfirleitt það að ekkert samráð hafi verið haft við þá um málið.

Hvar er öll þessi samræðupólitík og allt þetta samráð sem menn hafa boðað í orði á síðustu þremur árum? Þetta er einfaldlega ekki á borði, þetta er einungis í orði og það er orðið þreytandi að heyra forustumenn ríkisstjórnarinnar tala um lýðræðisleg vinnubrögð, samráð og aukna samstöðu, bæði í samfélaginu og í þinginu, þegar vinnubrögðin eru með þeim hætti sem raun ber vitni. Það er sorglegt að verða vitni að þessu í máli eftir mál sem kemur frá þessari ríkisstjórn, því miður.

Þá að þeim mikilvæga málaflokki sem nýsköpunarmálin eru. Ég þakka hv. nefndarmönnum í meiri hluta og minni hluta fyrir að hafa tekið undir það sjónarmið okkar framsóknarmanna að það beri að lækka það gólf sem fyrirtækin þurfa að sýna fram á að þau hafi varið til rannsókna og þróunar úr 5 millj. kr. niður í 1 millj. kr. þannig að skattafsláttur komi til. Þetta er mjög mikilvægt og ég held að þarna höfum við sýnt, þótt við höfum haft lítinn tíma til að fara yfir þetta mál, að við getum með samstilltu átaki komið góðum málum til leiðar. Þessu ber að fagna.

Hins vegar kom fram í umsögnum hagsmunaaðila, m.a. hjá Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins, að hámarkið sem þarna er kveðið á um væri ekki endilega nægilega hátt. Ég geri ekki tillögu um það í þessari umræðu vegna þess að ég tel að það þurfi að skoða þau mál betur, en ég held að efnahags- og skattanefnd þurfi í framhaldinu að fara betur yfir þær umsagnir sem komu frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Veitum við nægilegt svigrúm til að efla nýsköpun í landinu og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi sem við öll viljum? Ég spyr hvort við séum samkvæmt þessum lögum og þessum nýsköpunarþætti sem ég ræði hér að gera umhverfi þessa iðnaðar hér á landi, m.a. gagnvart erlendum fjárfestum, nægilega girnilegt eða áhugavert til að koma og taka þátt í uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Eins og ég segi var slíkur hraði á málinu að það var einfaldlega ekki hægt að fara almennilega yfir það, því miður.

Frú forseti. Eitt hefur komið hér fram, það verður stórhækkun á staðfestingargjaldi Fiskistofu á flutningi sóknardaga, aflahlutdeildar og krókaaflahlutdeildar á milli skipa, um 64% hækkun. Nú getum við ekki sagt að það séu almennar verðlagshækkanir því að ef fram heldur sem horfir gæti því miður orðið verðhjöðnun hér á landi á næsta ári sem væri mjög alvarlegt fyrir okkur. Það er 64% hækkun á þessu gjaldi án þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari yfir það með viðkomandi hagsmunaaðilum sem ætti að vera hinn rétti farvegur málsins. Það var því miður ekki gert vegna þess hve umfangsmikið þetta mál er og að efnahags- og skattanefnd þurfti að taka á svona fjölbreyttum viðfangsefnum á afskaplega stuttum tíma.

Mig langar að lokum að segja að við í Framsóknarflokknum, hv. þm. Eygló Harðardóttir og sá sem hér stendur, munum mæla fyrir breytingartillögu við þetta mál. Ég hef rakið það að í nýsköpunarmálunum voru góðir hlutir gerðir sem við munum styðja en í þeirri breytingartillögu sem á að koma við frumvarpið um breytingu á lagaákvæðum um skatta og gjöld segir, með leyfi frú forseta:

„Við 3. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við A-lið bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Einstakar gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknastarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga, enda sé gjöfin ekki undir 50.000 kr. Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falli undir þennan tölulið og hvernig skal standa að skráningu þeirra.“

Þessi tillaga snýr að því að leggi fyrirtæki og lögaðilar lið þessum mikilvægu stofnunum, til að mynda mörgum hjálparstofnunum og líknarstofnunum, geti þau dregið samsvarandi upphæðir frá skatti. Þetta þekkist í mörgum löndum. Mig minnir, og ég vona að minnið sé ekki að bregðast mér í þessu þó að það sé liðið svona á kvöld og mikið álag hafi verið á okkur í efnahags- og skattanefnd, að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafi einhvern tímann orðað þessa hluti á árum áður þegar þáverandi hv. þingmenn voru í stjórnarandstöðu. Nú er að sjá hvort nýir tímar hafi runnið upp og hvort hæstv. ráðherrar muni styðja þessa breytingartillögu. Reyndar er það svo, svo ég haldi því til haga sem vel hefur verið gert, að þegar við ræddum nýsköpunarmálin, og þá voru þau í sérstöku frumvarpi og fengu þann sess sem þau áttu að fá, studdu stjórnarliðar og þorri þingsins margar af þeim tillögum sem við í Framsóknarflokknum lögðum fram í þeim efnum. Var það mikið fagnaðarefni. Þess vegna þakka ég líka fyrir það að meiri hluti nefndarinnar skyldi hafa tekið undir þau sjónarmið okkar að lækka þetta gólf sem er á rannsókna- og þróunarkostnaði fyrirtækja í nýsköpun. Við þurfum að efla íslenskt atvinnulíf í dag, við þurfum að auka fjölbreytni í því. Stjórnmálamenn og sveitarfélög eiga svo sem ekki að vasast í því að búa til slík störf með beinum hætti, heldur eigum við að skapa umgjörðina, og vonandi getum við stigið fleiri jákvæð skref í þá átt að fjölga störfum á þessu sviði. Ég held að það séu mikil sóknarfæri þegar kemur að þessu máli en þá vinnum við ekki eins og efnahags- og skattanefnd hefur þurft að gera síðasta hálfa mánuðinn eða svo, að vinna að 58 greinum um 15 eða 16 lagabálka þar sem allt er á rúi og stúi. Menn taka þess vegna fyrir marga ólíka málaflokka á vettvangi nefndarinnar á einum örstuttum fundi og þess vegna fær þessi mikilvæga umræða ekki eins mikið svið og við hefðum kosið. Menn segja hér ár eftir ár að til standi að bæta vinnubrögð þingsins og vonandi fara þau að batna vegna þess að það er ekki hægt að bjóða viðkomandi málaflokkum upp á þetta. Ég er ekki að tala um okkur þingmenn í því samhengi.

Ef við förum eitt ár aftur í tímann þegar skattkerfi Íslendinga var breytt í grundvallaratriðum á ótrúlega stuttum tíma, á örfáum dögum, jafnvel þó að nær allir umsagnaraðilar hefðu varað við því, kom í ljós að fjölmörg mistök voru gerð í þeirri lagasetningu. Það vissum við og m.a. er í þessum bandormum hér verið að leiðrétta einhver þeirra mistaka sem þá voru gerð. Þessi vinnubrögð ganga ekki. Þau skaða orðspor þingsins og þá starfsemi sem hér á að vera og þau störf en líka það að okkur gengur hægar að byggja okkur upp á ný.

Nú er það svo í dag, segja þeir aðilar sem vilja fjárfesta í íslensku atvinnulífi, sama hvort þeir eru innlendir eða erlendir, að óstöðugt umhverfi í skattamálum og aukið flækjustig eru farin að valda því að fjárfesting í hinum ýmsu atvinnugreinum er mun minni en hún ella hefði orðið. Það er búið, eins og ég hef áður sagt, að flækja skattkerfið. Eftirlitið með því er dýrara og menn eru farnir að veigra sér við mikilli fjárfestingu. Hvað þýðir það? Störfin verða ekki eins mörg fyrir vikið. Atvinnuleysið verður meira, eða fólksflóttinn meiri, og þessi stefna gengur einfaldlega ekki upp. Þessi ríkisstjórn hefur snúið frá mjög einföldu og gegnsæju skattkerfi undangenginna ára í mjög flókið og óskilvirkt kerfi, því miður.

Að öðru leyti vonast ég eftir því að þrátt fyrir skamman tíma sem við fengum í nefndinni til að fara yfir þessi mál verði samstarfið áfram gott á nýju ári. Ég tek undir, svo ég endurtaki það, það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan um þær breytingartillögur sem hann hefur lagt fram. Ég tel að nú eigum við þingmenn að taka völdin í okkar hendur loksins, að efnahags- og skattanefnd fari núna í upphafi ársins yfir þær tillögur sem hún átti að leggja hér fram ásamt því jafnvel að fara yfir þær tillögur sem ég viðra í nefndaráliti mínu og jafnvel þá breytingartillögu sem við hv. þm. Eygló Harðardóttir flytjum, ef svo ólíklega færi að hún yrði felld í atkvæðagreiðslu á morgun. Við þurfum einfaldlega að fara að láta þetta verða að nýju þingræðisríki þar sem Alþingi Íslendinga fer með æðsta vald og að framkvæmdarvaldið vinni í umboði Alþingis. Þetta er því miður ekki þannig í dag, sama hvað við segjum, og ef mönnum hefur verið einhver alvara með þeirri þingmannanefnd sem sett var á fót til að fara yfir rannsóknarskýrslu Alþingis, þar sem allir þingmenn sem tóku þátt í þeirri vinnu voru sammála um að það ætti að auka völd Alþingis á ný, skulum við fara að hefja þá vegferð. Ég held að það sé best að byrja á því því að það er greinilega ekki verið að gera það hér með afgreiðslu á þessu frumvarpi. Við skulum hefja þá vinnu á nýju ári.

Þá vil ég líka láta þess getið að það þarf að efla Alþingi Íslendinga, ekki veitir af. Það þarf ekki að skera niður í störfum Alþingis Íslendinga því að það eru mikil verðmæti í því að sú vinna sem er unnin hér sé vönduð. Mér fannst hv. þm. Pétur H. Blöndal viðhafa ágætisnálgun í umræðu í dag eða í gær þegar við ræddum um að nú væri erfitt í ári. Ég sé einfaldlega ekkert að því að við fáum færustu sérfræðinga viðkomandi ráðuneyta yfir til Alþingis og að þeir starfi með viðkomandi þingnefndum og við leggjum aukna áherslu á það að frumkvæði og lagasetning sé í höndum Alþingis og alþingismanna en ekki eingöngu framkvæmdarvaldsins. Yfir 90% af þeim frumvörpum sem hafa komið hingað inn og verið samþykkt á vettvangi þingsins á undangengnum árum hafa öll komið úr ráðuneytunum og Alþingi hefur verið og er í dag stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið og ráðherrana í viðkomandi ríkisstjórn. Ef við höfum eitthvað lært af þessu hruni sem varð á Íslandi er það það að slíkum vinnubrögðum verðum við að breyta. Ég veit og treysti því að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé mér sammála í þeim efnum og vonandi fleiri þingmenn. Eins og ég segi, ég tel og vona að að lokinni þessari ræðu um þetta flókna frumvarp sem er upp á 58 greinar þar sem því miður helstu atvinnuvegum landsins er ekki gert nægilega hátt undir höfði sé þetta í síðasta skipti sem ég þurfi að ræða svona slæman bandorm í eins mörgum greinum. Flækjustigið er hátt og efnahags- og skattanefnd Alþingis fékk einungis hálfan mánuð til að fara yfir jafnviðamikið mál og þetta er. Ég er handviss, frú forseti, svo það sé sagt hér og hafi verið sagt um þetta mál, um að á árinu þurfi 2011 að leiðrétta einhver mistök eða yfirsjón í þessari lagasetningu.

Að lokum vil ég segja, um leið og ég held því til haga að það hefur verið mikið álag á okkur þingmenn í þessari nefnd — við erum svo sem kjörnir til þess en skipulagið mætti vera miklu betra — að álag á starfsmenn nefndarinnar hefur líka verið gríðarlegt. Ég held að það sé rétt að við þökkum hv. nefndarriturum sem voru fleiri en einn og fleiri en tveir og fleiri en þrír sem aðstoðuðu okkur í þessu 100 metra hlaupi sem afgreiðslan á þessu máli er. Það ágæta fólk á heiður skilinn og skjalavinnsla Alþingis sem hefur þurft að vinna nótt sem nýtan dag við að prenta út öll þessi álit sem hafa komið frá okkur í stríðum straumum sem eðlilegt er vegna þess að við höfum þurft að afgreiða mörg mál á mjög stuttum tíma. Allt þetta ágæta fólk á heiður skilinn en ég endurtek enn og aftur að ég vona að ég þurfi aldrei aftur að standa að afgreiðslu á frumvarpi sem þessu. (Gripið fram í: Þetta var …, Birkir.)