139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum komin að þriðja skattamáli dagsins af fimm og það snýr að virðisaukaskatti og ýmsum breytingum á lögum um virðisaukaskatt sem ætlunin er að ráðast í nú um áramótin. Breytingarnar skiptast í nokkra þætti og vil ég nefna þá helstu.

Einn þáttur felur í sér að hverfa frá endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna húshitunarkostnaðar en falla ekki frá stuðningi á þeim svæðum þar sem húshitunarkostnaður er mikill, á köldum svæðum, heldur flytja þann stuðning yfir í annað form sem væru beinar niðurgreiðslur en ekki endurgreiðslur á virðisaukaskatti. Það er einfaldlega meira í anda nútímasjónarmiða um hvernig haga skuli slíkum niðurgreiðslum, að eðlilegra sé að þær séu í formi beinna styrkja en afslátta af sköttum.

Í öðru lagi má í frumvarpinu finna viðamikil ákvæði sem lúta að skilum á virðisaukaskatti og virðisaukaskattsskýrslum en á því sviði hefur mörgu verið ábótavant. Því miður hefur allt of mikið verið um áætlanir á virðisaukaskatti og margvíslega óþarfavinnu sem því tengist og kostnað, ekki síst óþarfalausung sem af því hefur leitt og snýr að virðisaukaskattskerfinu og framkvæmd í því. Það er auðvitað eitt af því sem við Íslendingar þurfum að taka fast á eftir þann lærdóm sem við höfum hlotið nýverið í efnahagsmálum okkar. Við þurfum að herða á allri reglu, reglufestu og eftirfylgni í fjármálum hvort sem það felst í skattskilum í fjármálakerfinu eða bara í okkar eigin fjármálum eða rekstri eftir atvikum. Hér er stigið mikilvægt skref í þá átt að vinda ofan af þeim leiða ósið sem gríðarlegur fjöldi áætlana er til marks um og stafar af því að virðisaukaskattsskyldir aðilar skila ekki upplýsingum á tilsettum tíma og hlýða ekki lagafyrirmælum heldur leyfa sér einfaldlega að virða þau að vettugi. Verið er að taka á því og herða á aganum í virðisaukaskattskerfinu öllu.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu verið að þróa virðisaukaskattslöggjöfina hvað varðar rafræna þjónustu en rafræn starfsemi og þjónusta er vaxandi þáttur í atvinnulífinu. Hún er talsvert annars eðlis en sú starfsemi sem við eigum að venjast, einkum í útflutningsviðskiptum, þ.e. útflutningi á vöru. Þjónustuviðskipti hafa farið mjög vaxandi á undanförnum árum og áratugum í útflutningi en rafræn þjónusta hefur einkum verið að ryðja sér til rúms á allra síðustu árum og kannski undir lok síðustu aldar. Hér er verið að þróa regluverkið í virðisaukaskattinum til þess að ná utan um það. Ekki síst hefur það verið gert til þess að greiða fyrir uppbyggingu á nýjum iðnaði sem við Íslendingar bindum miklar vonir við, en það er starfsemi gagnavera. Að mörgu leyti getur Ísland boðið upp á hagstæðar samkeppnisaðstæður fyrir fyrirtæki sem vilja selja gagnaþjónustu þannig að erlend fyrirtæki geti hýst hér gagnageymslur sínar vegna þess að hér er ódýr græn orka og sömuleiðis vegna þess að kostnaður við að gera það hér norður frá er umtalsvert minni en hann er sunnar og á heitari svæðum.

Segja má að í frumvarpinu, eins og það kom fram, hafi að verulegu leyti tekist að ryðja úr vegi flestum þeim hindrunum sem við sáum í vegi þess að gagnaverin hér heima yrðu samkeppnishæf. Þó voru þrír þættir sem ekki voru leystir í málinu eins og það kom fram. Það voru í fyrsta lagi þeir þættir sem lutu að hýsingarþætti þjónustunnar og voru kannski flóknasta úrlausnarefnið. Það var það atriði sem laut að því að hafa starfsstöð hér á landi því að ýmis þeirra fyrirtækja sem hafa hug á því að flytja gagnageymslur sínar hingað hafa ekki hug á því að taka á sig þann kostnað sem því fylgir að skrá hér starfsstöð þess vegna. Í þriðja lagi var frumvarpinu áfátt í því að leysa ekki úr því að hinir erlendu aðilar gætu flutt hingað gagnageymslur sínar án þess að þurfa að greiða virðisaukaskatt af búnaðinum. Það er mikið fagnaðarefni að í meðförum nefndarinnar og í góðu samstarfi við bæði fjármálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafi tekist að vinna úr tveimur af þessum álitaefnum, annars vegar að fá breytingu inn í frumvarpið sem lýtur að þessu með starfsstöðina og um leið því sem snýr að búnaðinum sjálfum, að unnt sé að flytja búnaðinn hingað og að hvorki þurfi að greiða af honum virðisaukaskatt né leggja tímabundið út fyrir þeim skatti enda þyrftu aðilar það ekki ef þeir væru að flytja búnaðinn innan Evrópusambandsins. Hins vegar er hýsingarþátturinn óleystur sem er nokkuð flóknara viðfangsefni vegna þess að ef við værum aðilar að Evrópusambandinu væri það ekki vandamál, það félli einfaldlega inn í þær skattareglur sem eru þar á svæðinu. Í raun og veru þurftum við að taka þá ákvörðun að afsala okkur skatttekjunum, virðisaukaskattinum af hýsingarþættinum, til að skapa hér fullkomlega samkeppnishæft umhverfi. Það er ánægjulegt að geta greint frá því að eftir að málið var tekið út úr efnahags- og skattanefnd til 2. umr. náðist samstaða um lausn í því máli og er flutt sérstök breytingartillaga af hv. þingmönnum Magnúsi Orra Schram og Álfheiði Ingadóttur við málið af þeim sökum.

Talsverð umfjöllun hefur verið um skattaleg mál gagnaveranna. Ég held að það sé óhætt að segja að þar hafi margt verið afflutt og reynt að ala á sjónarmiðum um að hér væri um að ræða mikil átök á milli stjórnarflokkanna þar sem annar þeirra, minn flokkur, Samfylkingin — ég sem formaður efnahags- og skattanefndar og margir samþingmanna minna — hefði tekist á við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð vegna þess að við hefðum viljað greiða fyrir gagnaverum en þeir ekki. Það er mikil afbökun á veruleikanum og algerlega ómaklegur málflutningur. Þau sjónarmið, varúðarsjónarmið, sem uppi hafa verið í málinu hafa fyrst og fremst snúið að því að menn í fjármálaráðuneytinu hafa haft áhyggjur af því að Eftirlitsstofnun EFTA mundi gera athugasemdir við þær ívilnanir sem verið væri að veita gagnaverunum og þess vegna mundi það koma aftan að iðnaðinum og fyrirtækjunum ef þær yrðu lögleiddar án þess að leitað yrði eftir afstöðu ESA til þess hvort um ríkisaðstoð væri að ræða. Það er þess vegna hagsmunamál fyrir iðnaðinn að kalla eftir slíkri afstöðu áður en ráðist verður í lagasetninguna. Þess vegna er í þeirri tillögu sem ég mæli hér fyrir frá efnahags- og skattanefnd gert ráð fyrir því að ákvæðin taki þegar gildi en komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. maí nk. þannig að ráðrúm gefist í millitíðinni til að leita álits ESA og tryggja að ekki verði gerðar athugasemdir áður en framkvæmdin hefst svo að ekki komi til bótamáls af þeirra hálfu.

Ég held að í ljósi þess máls sem við höfðum til umfjöllunar á undan þessu, í máli 313, skattar og gjöld, hafi menn í fjármálaráðuneytinu haft fullar efnislegar ástæður til þess að vilja fara fetið og fara varlega í þessum efnum. Í síðasta máli ræddum við jú um að skattalegar ívilnanir vegna nýsköpunarfyrirtækja sem við lögleiddum í þinginu fyrir ári og fjölluðum um á vettvangi efnahags- og skattanefndar. Þær reglur voru dæmdar ógildar af Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og neyðumst við nú til þess í bandormi að ógilda þau lagaákvæði. Það kemur aftan að 40 fyrirtækjum sem hafa starfað allt þetta ár og gefið sér að sú hlutabréfaívilnun yrði til staðar og hafa ráðist í hlutafjárútboð á þeim forsendum. Ég held að það sé ágætt dæmi um að það sé ekki að ástæðulausu sem embættismenn fjármálaráðuneytisins vilja fara varlega í þessu efni. Ég tel sem formaður efnahags- og skattanefndar að með því að leysa málið með þeim hætti sem nefndin nú gerir, að lögfesta ákvæðin strax og láta þau taka gildi en ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir fjóra mánuði, sé siglt á milli skers og báru, þær ívilnanir lögleiddar strax sem við viljum lögleiða fyrir gagnaveraiðnaðinn þannig að þau geti farið að leita eftir viðskiptavinum á þeim forsendum en sá varnagli þó rekinn að þær komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. maí. Ef svo ólíklega vill til að ESA hafi eitthvað við málið að athuga gefst ráðrúm til þess að grípa inn í. Eftir þá ráðgjöf sem við höfum fengið frá aðilum vel kunnugum evrópsku reglunum og afstöðu ESA í slíkum málum tel ég að ekki sé ástæða til að ætla að ESA líti á ívilnanirnar sem óheimilan ríkisstyrk en allur er varinn góður. Því er sú leið farin að lögfesta þetta núna en láta það taka gildi í vor. Meginatriðið er auðvitað að lögfesta samkeppnishæft umhverfi fyrir gagnaveraiðnaðinn til framtíðar hér í landinu og gera það þannig að fyrirtækin geti þegar farið að leita eftir viðskiptum á þeim forsendum.