139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að loksins sé í sjónmáli lausn á því máli sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt oftar en einu sinni í þessum ræðustól að sé svo óendanlega flókið að það bara finnist ekki á því lausn. Það kemur mér satt að segja dálítið á óvart að hv. þm. Helgi Hjörvar geri það sérstaklega að umtalsefni í ræðu sinni að þarna hafi ekki verið um neinn pólitískan ágreining að ræða, heldur hafi málið bara verið svona óendanlega flókið, væntanlega eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt.

Ég bendi á að það þurfti enga lokaða nefndarfundi til að verða vitni að þeim pólitíska ágreiningi og þeim skoðanamun. Ég sé hér hv. þm. Skúla Helgason og minnist þess þegar við vorum saman í útvarpsviðtali og hann sagði að það væri einfalt mál að laga þetta, mig minnir að við höfum gert með okkur samkomulag í því viðtali um að klára það bara fyrir hádegi.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði þann sama dag að þetta yrði leyst mjög fljótlega og ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi þann sama dag sagt að þetta væri svo óendanlega flókið. Allt þetta ferli hefur tekið 18 mánuði ef ég reikna ekki vitlaust og því verð ég að spyrja hv. þingmann hvort þessi aðferð, að setja lögin, hafa gildistökuna síðar og spyrja ESA, sé algjörlega ný hugmynd og hvort það hafi virkilega þurft að taka 18 mánuði að fara yfir málið á þennan hátt. Datt engum í þessu óendanlega flókna ferli (Forseti hringir.) fyrr í hug að spyrja stofnunina (Forseti hringir.) hvort það væri ágreiningur eða hvort þetta væri fær leið?