139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:42]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var athyglisverð innsýn í sögulega upplifun hv. þingmanns af því sem gerst hefur. (Gripið fram í.) Ég verð nú að valda hv. þingmanni vonbrigðum með því að þá lausn sem hér er kynnt, að lögfesta ákvæðin strax en láta þau taka gildi á árinu, kynnti ég á fundi með fjármálaráðuneytinu á mánudagsmorguninn. Henni var vel tekið af fjármálaráðuneytinu og tókst síðan að vinna úr henni í nefndinni hvað varðaði búnaðinn og starfrækslustöðina. Það er rétt að lausn hvað varðaði hýsinguna náðist ekki fyrr en seint í gærkvöldi milli þingmanna stjórnarflokkanna og er hér flutt sem tillaga þeirra.

Ég held að það megi færa fyrir því rök og það sé fullgilt og gott að hér var ríkur vilji þingmanna úr öllum flokkum til að leysa úr þessum flóknu álitaefnum. Það var tímapressa á því vegna þess að þingið er að fara í hlé og allt samverkaði það til góðs. Ég held að full ástæða sé til að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa verið í þeim hópi.

Hitt held ég svo að verði að teljast dagdraumar þingmannsins að hér hafi myndast nýr meiri hluti á Alþingi þar sem annar stjórnarflokkurinn hefði knésett hinn stjórnarflokkinn í einhvers konar atkvæðagreiðsluuppgjöri. Það verður nú eiginlega að teljast býsna mikill spuni, en ég held að allir þeir þingmenn sem hafa lagt þessu gott til á undanförnum dögum geti verið býsna ánægðir með sinn hlut þótt það hafi ekki verið þessi dramatísku hildarvíg í bakherbergjum sem hv. þingmann dreymir um.