139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[22:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ritaði undir nefndarálitið ásamt hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni með fyrirvara og sá fyrirvari snýr að því að verið er að hækka og leggja á nýja skatta. Við erum almennt séð á móti því og teljum að það sé ekki lausn á vandamáli þjóðarinnar að skattleggja. Hins vegar er þetta skattur á fjármálafyrirtæki sem sumir telja að hafi valdið hruninu og þar af leiðandi má líta á hann sem eins konar skaðabætur eða borgun fyrir þann sokkna kostnað sem þjóðfélagið ber, en þetta er reyndar ekki stór hluti í þá miklu hít. Við mundum líka gjarnan vilja að þessi skattur yrði notaður til að byggja upp sjóð, viðlagatryggingasjóð eða eitthvað slíkt, til þess að eiga eitthvað í handraðanum ef eitthvað slíkt skyldi henda aftur, sem við vonum að sjálfsögðu að gerist ekki. Það er nú það helsta í fyrirvara okkar og ég kem honum hér með á framfæri.