139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[22:55]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram andsvarið. Við erum sammála um markmiðið að því leyti að við teljum báðir að bæta þurfi andrúmsloftið og minnka þurfi þá mengun sem umlykur höfuðborgarsvæðið. Við erum ósammála um hvernig ná á þeim markmiðum. Þeir sem menga mest borga ekki mest. Þeir sem menga mest og keyra mest eru allir á undanþágu frá vörugjaldinu, leigubílar, rútur, vöruflutningabílar, og svo eru bílaleigubílar með undanþágu líka. Ég leyfi mér að segja: Af hverju eiga erlendir ferðamenn ekki að leggja sitt af mörkum við að draga úr mengun á Íslandi? Það eru einhverjar gælur við viðskiptalífið sem að mínu mati eru óþarfar og hefði t.d. mátt gera langtímaáætlun skref fyrir skref í málinu og segja: Nú þurfum við á næstu fimm árum að bæta þessu inn í eldsneytisgjaldið og gefa fólki færi á því með tímanum að minnka við sig í bílakaupum, í stærð og eyðslu bíla. Fólk mundi þá vita að hverju það gengi hvað varðar eldsneytisverð. Það mundi hvetja til kaupa á sparneytnari bílum, léttari bílum, minni bílum, sem er nákvæmlega það sem frumvarpinu er ætlað að gera. Það mundi líka draga úr akstri. Þetta frumvarp dregur ekki úr akstri því að um leið og maður er búinn að flytja inn bílinn og búinn að borga gjaldið er enginn hvati lengur til að draga úr akstri. Það er aðallega þess vegna sem ég geri athugasemdir við það. Það eru ólík sjónarmið sem ráða ferðinni og þannig er það bara.