139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að hugsunin í því máli sem við fjöllum um í kvöld sé jákvæð, það á að reyna að leggja á gjöld miðað við aðra hugmyndafræði, þ.e. að miða við hve mikið ökutæki losa af koldíoxíði. Ég held að flestir séu sammála um að það sé mjög mikilvægt að draga saman í losun gróðurhúsalofttegunda og ökutæki menga talsvert miðað við þá mengun sem er frá Íslandi almennt. Í þessu frumvarpi er stefnt að því að tengja skattlagningu á ökutækjum við skráða losun á koltvísýringi. Hugmyndafræðin er því jákvæð.

Ég hefði hins vegar viljað ganga aðeins lengra og vildi koma því á framfæri í stuttri ræðu að bifhjól menga hlutfallslega mjög lítið. Að mínu mati virðast þau ekki sitja við sama borð og bifreiðar varðandi þetta mál. Í máli formanns nefndarinnar, hv. þm. Helga Hjörvars, kom fram að óeðlilegt væri að mismuna eftir því hvort um væri að ræða bifhjól eða bíla. Ég tek undir það. Það er óeðlilegt að mismuna eftir því hvort um er að ræða um bíla í þessu sambandi eða bifhjól en ég sé ekki betur en að hægt sé að rökstyðja það að við gerum það í þessu mál. Það gengur ekki nógu langt að mínu mati.

Ég hef aðeins kynnt mér umsagnir sem hafa borist, ég sit ekki í efnahags- og skattanefnd og er þar af leiðandi ekki sérfræðingur í málinu en sé þó að mjög góð rök koma fram í umsögnum. Það komu umsagnir frá nokkrum aðilum. Sameiginleg umsögn kom frá Sniglunum, Slóðavinum, Ökukennarafélagi Íslands og Biking Viking. Þeir færa fram ferns konar rök, eru með fjóra punkta sem þeir telja að taka þurfi tillit til varðandi þetta mál. Ég ætla að fara aðeins yfir þá punkta.

Í fyrsta lagi fagna þessir aðilar þeirri viðleitni stjórnvalda að gera bílaflota landsmanna grænni, og hægt er að taka kröftuglega undir það. Hins vegar sé ekki komið nægjanlega til móts við bifhjól í frumvarpinu, þau séu látin sitja hjá varðandi vörugjöldin, má segja. Þeir mótmæla því kröftuglega að sá liður sem snýr að bifhjólum skuli standa óbreyttur vegna þess að bifhjól séu mun grænni kostur en mörg önnur vélknúin ökutæki í umferðinni. Þeir taka dæmi í umsögninni um litla mengun frá bifhjólum, benda á þá staðreynd að stórt BMW-bifhjól losi aðeins 95,1 g af koltvísýringi á km, sem er á við lítinn smábíl með mun minni vél. Ný bifhjól þurfi í dag að uppfylla Euro 3 staðalinn þannig að flest losi þau í kringum 80–120 g/km, sem þýðir að þau mundu fara í 10–15% vörugjaldaflokk ef um bifreið væri að ræða. Þeir færa rök fyrir því að það hljóti að vera réttlátt að tekið sé tillit til þessarar staðreyndar og vörugjöld af bifhjólum miðuð við þetta í framtíðinni. Þeir benda hins vegar á að bifhjól eru ekki eins nákvæmlega flokkuð varðandi koldíoxíðslosun og bílar og leggja því til að einn vörugjaldaflokkur gildi fyrir öll bifhjól og vörugjöldin verði 15% fyrir bifhjól. Þetta er fyrsti punkturinn og kannski sá stærsti í umsögn þessara aðila, að bifhjólin eigi almennt að fara í 15% vörugjaldaflokkinn vegna þess að þau séu hlutfallslega umhverfisvæn, sem er meginhugmyndafræðin í frumvarpinu.

Þeir benda í öðru lagi á að bílaleigubílar fái lækkun á vörugjöldum en mótorhjól í eigu leigufyrirtækja fái það ekki, einfaldlega vegna þess að notast er við orðið bifreið í lögunum en ekki ökutæki. Þeir telja það skjóta mjög skökku við af því að fyrirtæki sem leigja bifhjól þurfi að uppfylla sömu skyldur og bílaleigur. Þetta er að sjálfsögðu eins og allir vita ört vaxandi þáttur í ferðaþjónustu eins og bílaleigubílarnir og þeir telja því réttlætismál að leiguhjólin fái sömu meðferð og bílaleigubílar.

Þriðji punkturinn sem þeir tilgreina er sá að það sama hljóti að eiga við um bifhjól til ökukennslu og kennslubifreiðar, en bifhjól til ökukennslu fá enga niðurfellingu eins og kennslubifreiðar. Þetta hlýtur að vera óréttlátt. Þetta er alveg sama hugmyndafræðin, menn vilja hafa ný tæki, góð tæki og örugg tæki þegar þeir kenna og þess vegna fá kennslubifreiðar niðurfellingu en ekki kennslubifhjól. Þetta þyrfti að skoða að mínu mati, virðulegur forseti.

Fjórða atriðið sem þeir tilgreina — það atriði er reyndar líka tilgreint í umsögn Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambands Íslands, MSÍ — er að sérsmíðuð keppnisbifhjól ættu að fá sömu meðferð og keppnisbifreiðar í lögunum.

Ég vil taka fram að verið er að laga þetta fjórða atriði í breytingartillögum frá nefndinni þannig að ekki þarf að fara frekar yfir það. Efnahags- og skattanefnd hefur sem sagt tekið tillit til eins atriðis sem þessir aðilar benda á en ekki hinna þriggja sem ég hef tilgreint hér. Og þar er kannski stærsti liðurinn, þetta almenna vörugjald sem þeir vilja að fari niður í 15% á bifhjól eins og á bifreiðar sem menga lítið.

Ég vil líka draga það fram að þessir aðilar hafa skoðað þetta mjög vel. Undir þessa umsögn skrifa fyrir hönd Sniglanna Gunnar Gunnarsson formaður, fyrir hönd Slóðaviða Ásgeir Örn Rúnarsson formaður, fyrir hönd Ökukennarafélags Íslands Jón Haukur Edwald formaður, og fyrir hönd mótorhjólaleigunnar Biking Viking ehf. Eyþór Örlygsson framkvæmdastjóri. Þetta eru allt aðilar sem hafa skoðað þessi mál mjög faglega og koma með tillögur að breytingartillögum í sinni umsögn. Það er því búið að vinna þetta upp í hendurnar á þinginu og hefði að mínu mati verið einfalt, ef vilji hefði verið til að skoða þetta, að klára það mál. En ég þakka þó fyrir að eitt af þessum atriðum sé skoðað sem ég tel mikilvægt, þ.e. keppnishjólin, en ég hefði gjarnan viljað sjá að allt hefði skilað sér í breytingartillögum hér.

Á sínum tíma fyrir 10 árum, árið 2000, voru vörugjöld lækkuð, vörugjöld af jeppum voru lækkuð úr 75% í 45%. Þetta var auðvitað veruleg lækkun. Þá voru vörugjöld af bifhjólum líka lækkuð, úr 70% í 30%, þannig að bæði jepparnir og bifhjólin lækkuðu í takt má segja. Ég skil alveg að bifhjólaeigendur séu ekki sáttir og hagsmunasamtök þeirra við að fylgja ekki með í þessari umferð og fara niður í 15% vörugjald.

Ég hef íhugað og er að láta skoða það núna, það er nú langt liðið á þetta þing, við frestum því á morgun með atkvæðagreiðslum, en ég vona að það náist að útbúa breytingartillögu sem ég mun þá flytja á morgun og láta reyna á hvort þingheimur tekur undir þessi rök. Þar sem hugmyndafræðin í frumvarpinu er að borga í takt við losun á gróðurhúsalofttegundum ættu bifhjólin að lækka í vörugjöldum niður í 15% almennt, leiguhjólin ættu að fá sömu meðferð og bílaleigubifreiðar og kennsluhjólin, kennslubifhjólin, ættu að fá sömu meðferð og kennslubifreiðar.