139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:11]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal ekki segja um handpikkingaraðferðina hvort það hefði verið betra að einhver hefði ekið bifhjóli í efnahags- og skattanefnd. Það má vel vera. En alla vega sé ég að í þeim athugasemdum, sem mér finnst vera mjög góðar, sem koma frá öllum þessum aðilum, Sniglunum, Slóðavinum, Ökukennarafélagi Íslands og Biking Viking, færa þeir mjög sterk rök fyrir máli sínu. Þess vegna kemur mér á óvart að efnahags- og skattanefnd hafi ekki tekið tillit til athugasemdanna, þó er tekið tillit til einnar athugasemdar og það er varðandi keppnishjólin, það er farið með keppnishjólin eins og keppnisbílana. En af hverju ekki með hitt líka, vörugjöldin almennt, af því að mótorhjólin menga hlutfallslega lítið, kennslubifhjólin og leigubifhjólin? Af hverju er þessi gata ekki gengin til enda? Ég treysti mér ekki til að segja að það sé vegna þess að fulltrúarnir, þingmennirnir í hv. efnahags- og skattanefnd átti sig ekki á því sem er að gerast í mótorhjólaheiminum eða eitthvað slíkt. Mér finnst þetta bara vera svo rökrétt. Ég get alveg eins spurt hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er öflugur stærðfræðingur: Er þetta ekki allt mjög rökrétt? Eru ekki rök þeirra mjög sterk og þung og hugsuð á rökréttum nótum? Það hlýtur að vera ákveðið jafnræði á milli bifreiða og bifhjóla og hv. formaður nefndarinnar sagði að það væri óeðlilegt að mismuna eftir því hvort um bifreið eða bifhjól væri að ræða.