139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:25]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar kærlega fyrir þetta svar. Það er ánægjulegt að heyra að það sé vilji hjá ríkisstjórninni til að koma til móts við þessi sjónarmið. Eins og ég rakti hér er áformað að breyta vörugjöldum á pallbílum sem mikið eru t.d. notaðir við búrekstur. Enn fremur eru margar þær bifreiðar sem mundu falla undir flokka H, I og J notaðar í landbúnaði og sannarlega mjög mikið til búrekstrar. Ég þakka fyrir að það skuli vera á prjónunum að umbuna eða ívilna þeim sem eru sannarlega að nota þetta sem atvinnutæki og taka tillit til þess. Ég hef fullan skilning á því að bifreiðar sem eru svipaðar þessum og notaðar á höfuðborgarsvæðinu ættu ekki að falla undir það.