139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[23:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir svarið. Eigi að síður vil ég ítreka að þegar frumvarpið var lagt fram gerði ég alvarlegar athugasemdir við það sem stendur í skýringum með frumvarpinu og eru lögskýringargögn vegna þess að það er rangt. Hv. þingmaður segir að efnahags- og viðskiptaráðherra muni svara fyrir það. Ég benti á það í þeirri umræðu að mikilvægt væri að þetta yrði skoðað sérstaklega í efnahags- og skattanefnd því að við erum alltaf að tala um að vanda okkur við að setja lög. Og þegar texti kemur fram í frumvarpinu sem er rangur og búið er að benda á það í umræðunni þá finnst mér mjög dapurlegt að því skuli ekki vera breytt.

Þegar við setjum lög á Alþingi sem í eru rangar fullyrðingar og búið er að benda á það við 1. umr. málsins skil ég ekki af hverju þeim er ekki breytt. (Gripið fram í.) Hér kallar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Það er ekki hægt að breyta því. Er ekki hægt að breyta frumvörpum sem lögð eru fram á Alþingi í 1. umr. sem eru röng og vitlaus? (Gripið fram í.) Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta. Af hverju stendur vitlaus texti í lögskýringargagni? Ég er alveg hættur að skilja þetta, virðulegi forseti, og þær fullyrðingar sem koma hér fram um að það skipti engu máli hvað stendur í greinargerðinni, af hverju er þá einhver greinargerð með þessu? Þetta er hreint með ólíkindum og sérstaklega í ljósi þess að við erum að tala um vandaðri vinnubrögð. Það er búið að benda á þennan ágalla og fullyrðingarnar sem standa hér. Það er eins og þeir sem sömdu frumvarpið hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig gengisfallið virkar í raun og veru. Það kemur skýrt fram og við vitum að allir þessu framvirku samningar voru skildir eftir í gömlu þrotabúunum vegna þess að það var svo mikil lagaleg óvissa um þá. Samt er því ekki breytt.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að það veldur mér miklum vonbrigðum að ekki skuli hafa verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem ég gerði við 1. umr. málsins.