139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki á færi nefndar að breyta greinargerð með frumvarpi. Mér þykir fyrir því að geta ekki fullyrt við hv. þingmann eða svarað því til að nefndin hafi fjallað sérstaklega um orð hans því að ég hef ekki verið viðstödd þá umræðu ef svo er. Hitt er ljóst að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lýst því yfir að það sé í undirbúningi og strax eftir áramót verði farið í endurskoðun á lánaumgjörð fyrirtækjanna í landinu.

Ég vil í því sambandi vekja athygli á því sem segir í áliti Seðlabanka Íslands og vitnað er til í greinargerð í nefndaráliti þar sem fjallað er um þjóðhagsvarúðarreglur í því skyni að draga úr hvata til óhóflegrar gjaldeyrisáhættu því að það er jú það sem hv. þingmaður er að ræða. Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Þegar lög um Seðlabanka Íslands verða tekin til endurskoðunar er eðlilegt að taka til skoðunar hvort best sé að ná markmiðum um fjármálastöðugleika með því að auka heimildir bankans og Fjármálaeftirlitsins til þess að setja slíkar varúðarreglur sem takmarka gjaldeyrisáhættu.“

Ég hlýt að treysta því að hæstv. ráðherra standi við yfirlýsingar sínar um endurskoðun á þessum reglum og treysti hv. þingmanni til að hvetja hann til þess og gæta þess að svo verði gert.